May 17, 2008



Nóg af vinnu. Hingað til höfuðborgar Norður-Afríku komu tveir góðir menn í heimsókn fyrir 2 vikum síðan. Voelli Saeti(tm) sem er þekktastur fyrir það að hafa náð sér í nálgunarbann á Amsterdam og El Fiber Otico(tm) sem þekktastur er fyrir hið ógleymanlega slagorð sitt: "Nice ham!".

Þá má sjá á myndinni hérna fyrir ofan. Tæknilega séð eru þetta sönnunargögn. Það er ólöglegt að taka mynd af lögreglunni hér í þriðja heiminum. Ef vel er að gáð má sjá að Voelli Saeti(tm) er búinn að hlaða í hnefa og u.þ.b. 5 sekúndum seinna lágu báðar löggur á stéttinni með hendur á nára. Voelli Saeti(tm) stóð yfir þeim dansandi og söng: "Eitt í punginn! Þá er hann sprunginn! Í-sa-land! Í-sa-land! Í-sa-land!"

Á hlaupum komumst við undan. Voelli Saeti(tm) notaði mexíkósku fjölskylduna sem hann hafði hótað með okkur út á lífið til þess að skýla okkur fyrir byssukúlunum. Þeir hafa hræðilega lítinn húmor löggurnar hér. Sagan af mexókósku fjölskyldunni er annað mál. Úti á miðri götu rákumst við á heila fjölskyldu sem Voelli Saeti(tm) dró með sér og hélt henni föngum langt fram á morgun við að halda glasinu og sígarettupakkanum fullum.

Annars var þetta venjuleg túristarútína. Mikið af áfengi, mat, list, nautaati og knattspyrnu. El Fiber Otico(tm) nýtti sér tækifærið og fór í klukkutíma á dag og nuddaði sér upp við stúlkur, konur og ekkjur í metróinu. "Virkar geng flugþreytu," var svarið sem hann gaf okkur þegar við drógum hann út úr metróinu á hverjum degi.

Svo var það nautaatið. Það er meiri skíturinn maður. Ekki er það list (líkt og spanjólarnir skilgreina það) og álika mikil íþrótt og boccia. En Voelli Saeti(tm) skemmti sér konunglega. Það var allt þetta blóð sem rann og ekkjurnar tvær sem brostu til hans þegar hann slefaði blóðþorsta og heimtaði meir. Við reyndum að róa hann niður með meira áfengi en það virtist hafa öfug áhrif.

Það kemur blóðinu alltaf á stað að hafa 40 þúsund manns öskrandi "Fuera!" að blóðþyrstum Íslendingi sem reynir að komast inn í nautaatshring. Bolinn lá dauður og Voelli Saeti(tm) ætlaði að "ganga betur frá honum heldur en þessir auðnuleysingjar." Hélt því fram að hann hefði sé bolann hreyfa klaufarnar. Hann var þvalur viðkomu, Voelli Saeti(tm) ekki bolinn, og sveittur af þorsta. Hann þyrsti í meira blóð og ég sver að úr augum hans láku tár. Ekki venjuleg tár þess sem vill smyrja sig blóði dauðrar skepnu. Eftir að 15 öryggisverðir og óeirðalögregla höfðu barið Voella Saeta(tm) til hlýðni og við gist í einhverja tvo tíma í fjósinu á bakvið, var okkur lokst hleypt út. Voelli Saeti(tm) spurði í sífellu hvað við hefðum gert honum og af hverju hann væri með kylfuför um allan líkamann.

Restin af heimsókinni var frekar tíðindalítil. Einn meðleigjandin bankaði uppá hjá mér fyrir viku síðan og sagði mér að kærasta sín, sem leigir einnig með mér, hefði ekki þorað út úr herberginu sínu eftir "atvik" með Voella Saeta(tm) og El Fiber Otico(tm) inni í eldhúsi. Þau vilja núna fá að vita með mánaðar fyrirvara ef aðrir vinir mínir koma í heimsókn. Það er ómögulegt að fá hana til að útskýra hvað gerðist og ef við minnumst á "atvikið" þá starir hún klukkutímum saman út í loftið og raular með sjálfri sér eitthvað bull.

Svo ef einhvern langar í heimsókn... þá hefur markið verið sett. Það er ætlast til þess að það verði gengið enn lengra og helst að bretinn þurfi á áfallahjálp að halda að næstu heimsókn vina minna lokinni.

p.s. Það er nú fullreynt, tel ég, að það að kasta sneið af hráskinku í stelpu og bjóðast til þess að "sleikja hana af ef þú kemur heim með mér" virkar ekki. Voelli Saeti(tm) notaði þetta grimmt alla dagana.

No comments:

Post a Comment