July 23, 2008

Nú er ég klæddur og kominn í hör

Æ. Hitinn maður! Hér eru einhverjar sextíu gráður yfir daginn og dettur niður í 50 yfir nóttina. En ég kvarta ekki yfir hitanum heldur fagna. Já, ég fagna honum því hörið er komið út úr skápnum.

Nú geng ég um götur skMadridar hörklæddur líkt og sá hörklæddi riddari sem ég hef alltaf fundist ég vera.

Hörsandalarnir gefa mér þá tilfinningu að göturnar hafi verið smurðar hunangsilmandi silki. Hvílík hamingja fyrir fæturna! Ekki skemmir fyrir sú kitlandi tilfinnng sem hörböndin sem liggja á milli tánna og strjúka ristarhárin veita þreyttum löppum eftir langan vinnudag.

Hörkvartarar eru eitthvað sem allir menn ættu að klæðast. Nærandi snerting þeirra við lærahárin hafa unnið kraftaverk á appelsínuhúðinni. Svo hleypa kvartararnir líka einungis köldustu golunni inn en skilur hitabylgjuna eftir fyrir utan.

Það er líka svo skemmtilegt hvað hörið býður upp á marga litamöguleika. Ég get eitt klukkustundum í það á morgnana að bera saman hvort fari betur, beige hörbuxur og hvítur hörbolur eða beige-bleikar hörbuxur og hvít hörskyrta hneppt upp að nafla.

Þetta er frelsið sem hörið hefur að geyma.

Ég rakst svo á lítinn stand í útimarkaðinum hér i hverfinu sem selur hör-aukahluti. Keypti mér skemmtilegt beige hörhálsmeni sem smellpassar við hvítu ermalausu hörskyrtuna. Hún passaði ekki við gullmenið sem ég hengdi á mig i vor, en hörið náði mestu þrjóskunni úr henni og gott ef það hefur ekki náð að temja hana fullkomlega.

Þetta getur nefnilega verið vandamál með hörið. Það er svo sterkt og sjálfstætt að ekkert getur unnið með því nema annað hör.

Ég veit að hnésíðar hörbuxur hafa nokkurn veginn verið einokaðar af kvenfólki yfir þrítugu. Með örlitlum tilfæringum og breyttu sniði þá hefur mér tekist að gera þær tvíkynja.

Oft þarf maður að skipta um umhvefi til að uppgötva hluti sem hafa verið í kringum mann alla ævi. "Hörið er betra en kaldur bjór í mesta hitanum." Þessi orð lét Voelli saeti(tm) falla í 12 ára bekk og ég held að ekki hafi hann nær sannleikanum komist.

Nú hvet ég alla karlmenn sem ég þekki að kíkja í næstu hörfataverslun á morgun og gíra sig upp.

Hörið er komið til að vera.

No comments:

Post a Comment