June 14, 2008

Losa stífluna

Hvað er að frétta?

Í útlöndum er að verða heitt. Búið að vera skýjað og 20 stig í heilan mánuð en nú er gamanið búið og sólin farin að skína. Sviti og andnauð tekur við.

Mig langar til að spjalla um þrjá hluti í dag. Einn eyðileggur goðsögn. Næsti gerir lítið úr kynstofni. Sá þriðji fjallar um goðsögn.

Ég og spanjólan vorum á gangi um daginn og fyrir framan okkur var par með poodle í bandi. Ég ætla ekki að tala um hunda og stórborgir, ég hef sterkar skoðanir og tel best að ég haldi þeim fyrir mig. Það var útsýnið sem stakk í auga. Óskeind boran á hundinum vísaði beint í sjónlínu mína. Kannski að tileygðan hafi hjálpað til en... rólegur á borunni félagi. Þar beint fyrir neðan tanglaði pungurinn. Þar sem ég er gamall og fúll maður þá fer ég eitthvað að væla yfir útsýninu i spanjóluna sem bað mig að róa mig niður þar sem þetta væri nú bara einu sinni hundur. Ég lét ekki segjast og hélt áfram að væla og að lokum umlaði ég eittvað á þá leið "bíddu bara."

Daginn eftir þá vakti ég hana með nákvæmlega sama útsýni. Ég teygði mig í náttbuxurnar nakinn með boruna í áttina að henni og reyndi hvað ég gat til að hún myndi sjá sem mest. Goðsögnin féll og sambandið hékk á bláþræði. Karlmenn, séðir aftanfrá í óþægilegum stellingum, eru viðbjóður. Ég mana hvaða karlmann sem er til þess að leggja þessa prófraun fyrir kærustur sínar:

  1. Klæddu þig í hvítan stuttermabol sem nær rétt niður fyrir nafla. Bolurinn má ekki ná lengra heldur en að rótum nárahára.
  2. Vísaðu að kærustunni og beygðu aðra löppina á meðan hin er þráðbein út frá mjöðminni. Til að leggja meiri áherslu á teygjunna er gott að skipta yfir á hina hliðina
  3. Nú snýrðu þér við og með lappirnar í öfugu V-i reynirðu að snerta gólfið. Óhljóðin sem þú heyrir er kærastan að kasta upp og velta fyrir sér hvað í anskotanum hún er að pæla í því að hafa lent í gagnkyngirnd.



Já, drengir, við erum ekki jafn kynþokkafullir og við héldum. Ef þú ert eitthvað feiminn þá er betra að byrja fyrir framan spegilinn til þess að kynnast líkamanum betur. Ég óð bara beint í þetta, enda kann ég ekki að skammast mín, og komst ágætlega frá þessu. Nokkrum veitingastöðum og gjöfum síðar er sambandið að komast á eðlilegt stig. Hún neitar þó enn að leyfa mér að sofa nöktum.

Að öðru. Ég tek lest á hverjum degi í vinnuna. Fátt finnst mér skemmtilegra heldur en að fylgjast með hversu ópólitískt rétt smíði lestanna er. Þannig er mál með vexti að það eru hillur til þess að henda farangrinum í um það bil 2ja metra hæð frá gólfi lestanna. Þar sem enginn ferðast með farangur í þessum lestum, þær eru notaðar til að komast til og úr vinnu, þá kastar fólk fríblöðunum þangað eftir að hafa lokið lestri þeirra. Þá hefst gamanið. Suður-Ameríkubúar eru lágvaxnir. Á hverjum morgni þá flissa ég með sjálfum mér þegar þeir reyna að ná niður blöðunum. Það er eitthvað svo sætt við það að sjá lágvaxinn karlmann hoppa til þess að ná sér í fríblað. Ég held samt að það sé ekki hægt að flokka þetta undir kynþáttahatur því ég myndi hlægja að hvaða lágvaxna karlmanni sem er.

Þá snúum við okkur að goðsögninni. Forest. Forest. Forest. Málið er að fyrir tveimur mánuðum síðan þá steikti hann tölvuna sína. Honum tókst að slá út desktop-myndinni og taka út rammann á task managernum. Það er mjög auðvelt að laga báða þessa hluti, annar er lagaður með því að velja desktop myndina aftur og hinn með því að tvísmella á taskmanagerinn til að fá rammann aftur. Forest vissi það ekki og er því búinn að vera með skjáinn hvítan með risastórum stöfum sem segir, og sýnir, hverjum sem labbar í 10 metra fjarlægð frá tölvunni hans að eitthvað sé að. Mér datt ekki í hug að hjálpa honum, þangað til í gær.

Forest átti heima í mörg ár í bænum sem við vinnum í. Í gær leit einhver vinur hans við á hæðinni okkar til að tala við Forest. Hann rekur augun í skjáinn og ætlar að hjálpa honum að ná aftur skjámyndinni. Þannig að í 20 mínútur fæ ég ókeypis uppistand. Ingjaldsfíflið og bróðir hans Ingjalsfíflið 2: Baráttan við Mannvitsbrekkuna, hægri smella og controlpanela hvað þeir geta en ekkert gerist. Það eina sem vantaði var prik handa þeim til að pota í tölvuna. Að lokum gefast þeir upp og skilja við tölvuna nákvæmlega eins og þegar þeir hófu leika. Ekkert úthald í þessum spanjólum og sígaretta virtist meira ákallandi.

Þegar þeir voru komnir úr sjónmáli teygði ég mig í músina hans og setti myndina sem hann notaði sem skjámynd og tvísmellti að taskmanagerinn til þess að fá rammann aftur. Svo snéri ég mér aftur að minni tölvu og beið. Forest snýr aftur eftir 10 mínútur og skráir sig inn... "öögh!," heyri ég, "sjáðu! Sérðu, tobbi, loksins maður. Skjámyndin er komin aftur!" Hann horfir á mig, snýr skjánum svo ég sjái betur, opnar og lokar gluggum og er með eitthvað það stærsta bros sem ég hef séð á andlitinu. Þeir höfðu greinilega lagað tölvuna með því að gera ekki neitt og fara út i sígarettu. Forest horfir eitthvað út í loftið og hleypur, já hleypur, af stað til þess að segja Ingjaldsfíflinu 2 hvernig þeir redduðu tölvunni. Þegar hann kom sveittur til baka en með sama mongólítaglottið á smettinu gat ég ekki meir. Ég hljóp út til að komast hjá því að springa úr hlátri fyrir framan hann.

Í næstu viku þá ætla ég að taka báða hluti út aftur. Ég vona að hann fái Ingjaldsfíflið 2 til að koma að hjálpa honum aftur. Mér leiðist í vinnunni eins og er og þarf einhvers staðar búa til gleði og skemmtun.

No comments:

Post a Comment