November 21, 2008

Já já já

Allt í lagi. Ég hef ákveðið að taka mig á í þessum blessuðu bloggmálum. Og já ég er ennþá á lífi.

Veit ekki hvort ég eigi að kenna Facebook um þetta eða reiði yfir því að engin kaupir þessa drasl boli og bolla af cafepress.

Hvar eigum við að byrja á þessu nýja bloggi? Forest? Forest?

Allt í lagi. Ég fékk ekki ósk mína uppfyllta. Kvikindið hefur þurft að koma til vinnu hvern einast dag og þvælast fyrir mér og öllum öðrum en það lítur út fyrir að efnahagskreppan verði loksins til þess að hann verði látinn fara. Síðustu fregnir herma að hann eigi bara viku eftir í sætinu við hliðina á mér. Ég krosslegg fingur og vona það besta.

Tvær stuttar nýlegar sögur af stráksa.

Út af því að El Maestro var hættur að mæta í vinnuna á ákveðnu tímabili þá ákvað yfirmaður okkar að flytja sig upp á hæðina okkar til að geta fylgst með honum. Hann vildi endilega ná sér niður á fyrirtækinu sem borgaði honum 1500 evrur á mánuði fyrir að gera ekki rassgat.

Þannig var í þessari viku að yfirmaður okkar þurfti að fara til útlanda til að tala við nýja yfirmanninn sinn. Eitthvað misskildi El Maestro þetta. Hún þurfti að fara miðvikudag og fimmtudag en El Maestro mætti ekki í vinnu á þriðjudeginum. Yfirmaðurinn spyr mig klukkan þrjú hvort ég viti hvar El Maestro sé niðurkominn. Ég hef ekki hugmynd um það enda ekki búinn að yrða á hann síðan í ágúst. Ekkert fréttist af El Maestro það sem eftir lifir dags.

Þegar svo El Maestro mætir til vinnu á miðvikudeginum (á réttum tíma!) þá er það fyrsta sem hann spyr mig hvort yfirmaðurinn hafi verið á skrifstofunni daginn áður. Þegar ég tjái honum já, stressast hann allur upp og hvíslar "Helvítis!" að sjálfum sér. You can´t buy comedy like this in a store.

Seinni sagan er af síma. Eftir að yfirmaðurinn kom upp þá tók hún símalínuna yfir á skrifborðið sitt. Þurfum að deila einni símalínu saman. El Maestro nýtir hvert tækifæri sem hún fer eitthvað í burtu til þess að hringja í vini sína og kærustu. Það er bara að hann gleymir alltaf að stinga snúrunni aftur í samband í síma yfirmannsins. Sem leiðir það af sér að þegar einhver hringir í hana þá hringir síminn fyrir framan El Maestro. Það kætir mig óendilega þetta "Sorry" sem fylgir. Og hversu skertur þarf maður að vera til þess að geta EKKI lært af reynslunni.

Í eitt af fyrstu skiptunum sem þetta kom fyrir þá ætlaði El Maestro aldeilis að redda þessu. Hann svaraði í símann sinn, bað viðmælandann að hinkra í augnablik, reif svo snúruna úr símanum sínum og stakk í síma yfirmannsins. Það sem ég heyrði þegar ég gekk út í sígarettuna var rödd hennar að reyna að kreista svar út úr dauðri símalínunni....

Sjáum nú til hvort ég haldi loforðið um meira blogg.