March 29, 2008

Erlend glæpagengi heimta verndargjöld af barnapersónum

Lögreglan hafði hendur í hári fimm erlendra karlmanna sem ráðist höfðu til inngöngu á heimili helstu barnapersóna áttunda áratugsins.

Svo virðist sem óprúttnir aðilar af erlendum uppruna hafi með hótunum um ofbeldi heimtað verndartolla af langlífustu og vinsælustu barnapersónum landins. Fjölnir Ásgeirsson fjölmiðlafulltrúi ríkislögreglustjóra lét hafa það eftir sér að þarna væru á ferðinni afar skipulögð og einbeitt samtök sem hefðu það takmark að kúga háar fjárhæðir af ástkærustu persónum Ríkissjónvarpsins.

Bjössi bolla bar sig vel eftirárásina.

Upp komst um athæfi glæpamannanna eftir að vegfarandi tók eftir grunsamlegum mönnum berja upp á og ganga síðan inn í Brúðubílinn um klukkan þrjú í gær. "Við vorum á gangi fyrir utan húsdýragarðinn þegar við sáum þrjá menn með barefli berja að dyrum Brúðubílsins," segir Páll Sigurðsson sem var vitni að atburðarrásinni í gær. "Ég bað Huldu, eiginkonu mína, að fylgja börnunum aftur að bílnum og hringdi svo á lögregluna sem birtist skömmu síðar."

Lögreglan verst allra frétta að svo stöddu en fréttamaður hafði samband við Karl Olgeirsson píanóleikara sem hafði þetta að segja eftir að hafa fengið lýsingar af því sem gerðist frá góðvini sínum Þórði húsverði, "Mennirnir komu inn með látum og létu höggin tala. Lilli api fór hvað verst út úr þessu þar sem hann stóð í ganginum þegar þeir ruddust inn. Hann er handleggsbrotinn, marinn á vinstri augntóft og auðvitað enn í sjokki."

Annar heimildarmaður, sem ekki vill láta nafn síns getið, sagði fréttamanni það að þegar lögreglu bar að létu mennirnir höggin dynja á Bjössa Bollu sem virðist hafa veitt glæpamönnunum mótstöðu og bjargað þar með öðrum sem leitað höfðu skjóls í bakherbergi Brúðubílsins. Fréttamaður hefur heimildir fyrir því að þar á meðal hafi verið Helga Steffensen, forstöðukona Brúðubílsins, og langlífust persóna Brúðubílsins, Hemmi Gunn.

Fréttamaður reyndi að ná tali af þeim Bjössa, Helgu og Hemma en ekki náðist samband við þau þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Helgi Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka Listamanna Einu sinni Frægir (S.L.E.F.), tjáði fréttamanni að hann hefði vissulega áhyggjur ef að vingjarnlegar og elskaðar persónur fortíðar gætu ekki stundað vinnu sína vegna glæpagengja sem vildu hafa af þeim gleðina og lífsviðurværið. Helgi lagði þó áherslu á að þrátt fyrir þessi voveiflegu tíðindi þá myndu barnapersónurnar ekki leggja árar í bát og myndu halda ótrauðar áfram. Hann bar einnig fram þá spurningu: "Hvert ekkeh ellerhh veeereh eh steðeh!"

March 8, 2008

Ég ætla rétt að vona...

...að þú hafir fundið það sem þú leitaðir að.

March 1, 2008

Var að fatta að ég bý í stórborg



Á meðan ég beið eftir því að spanjólan hefði sig til í gærkvöldi þá gerðist þetta í götunni sem liggur að minni. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið mikið var við lætin. Reyndar hafði ég verið að velta því fyrir mér nokkru áður, þegar ég skokkaði út í búð að kaupa bjór, af hverju lögregluþyrla væri að sveima yfir húsinu mínu. "Ég er löglegur," hugsaði ég, "svo þeir eru ekki á eftir mér."

Sat í mestu rólegheitum og spilaði Texas Hold´em og sötraði bjór á meðan sírenurnar vældu fyrir utan. Það er ekkert nýtt. Væri frekar hissa ef ég heyrði ekki sírenur fyrir utan. Þegar ég heyrði slökkviliðssírenu fyrir utan þá reyndar rann það í gegnum hugann hvort kviknað væri í blokkinni. Slökkviliðsbíllinn var nefnilega beint fyrir neðan svalirnar og virtist ekki ætla að fara lengra. Fann enga brunalykt svo ég bjóst við að það væri frekar blokkin við hliðina sem stæði í ljósum logum.

Á meðan ég sat með tölvuna og velti vöngum yfir því hvers vegna ekkert gerðist í þessari blessuðu borg þá börðust fylkingar andfasista, fasista og lögreglan.

Til útskýringar þá bý ég á mörkum La Latina og Lavapies hverfanna. Lavapies er með eitt hæsta hlutfall innflytjenda af öllum hverfum borgarinnar. Í gær gerðist það að ungum fylgjendum fasistastefnunnar var veitt leyfi til þess að halda samkomu á torgi sem liggur upp að þessu hverfi, Lavapies. Ýkt dæmi væri að segja það svipað og að leyfa ný-nasistum að halda útifund í jerúsalem.

Ný-fasistarnir safnast sem sagt saman í því hverfi sem þeir eru hvað mest hataðir. Sem þýðir auðvitað að and-fasistarnir sem nokkur veginn búa á torginu þar sem fundurinn var haldinn þurftu ekki annað en að stíga út úr húsi til þess að kasta grjótum í þá. Sem þýðir að allt fer í háaloft og ekki er þess langt að bíða áður en táragas og gúmmíkúlur eru fljúgandi framhjá glugganum hjá mér.

Guð forði mér frá því að gagnrýna skspænskt stjórnvald, spanjólan leyfir það ekki, en liggur einhver önnur ástæða en algjört hugsunarleysi að baki ákvörðun sem leyfir útifund fasista í innflytjendahverfi? Þeir voru með öll tilskilinn leyfi til þess að halda útifund. Það voru ekki þeir sem völdu staðinn. Svo virðist sem lögreglan, sem auðvitað var gert viðvart fyrir einhverjum dögum síðan, hafi heldur ekkert séð rangt við staðsetningu þessa útifundar.

Það er vika í kosningar. Það fer eftir því hvort þú lest hægri- eða vinstriblöð hérna hvorum er um að kenna. Það er hægri stjórn í Madrid en vinstimenn við völd í ríkisstjórninni. Góður jarðvegur fyrir samsæriskenningar.

Ég er bara ósáttur því þeir eyðilögðu alla hraðbanka í hverfinu mínu. Ég veit að það voru kommúnistarnir og vinstriliðar.

Þegar ég snéri heim aftur seinna um kvöldið, eftir eitthvað rölt með spanjólunni, tók á móti mér herdeild af borgarstarfsmönnum sem voru að ljúka við að sópa upp síðustu glerbrotin og týna upp síðustu grjótin. Fyrir utan brunalyktina í loftinu þá virtist sem ekkert hafði gerst.

Myndband af skemmtuninni.