January 31, 2006

Guð veit ég elska þá!

Ég er gömul handboltahóra. Spilaði þennan leik í mörg ár og hafði mjög gaman af. Núna þegar ég horfi á þetta mót skil ég aftur á móti af hverju ég hætti. Nokkrar ástæður fyrir því. Fyrsta er auðvitað sú staðreynd að það er ekki lengur kúl að hlaupa út í smók í hálfleik. Það þótti nú bara hressandi þegar ég var að spila. Nú í dag með öllum þessum fasista-áróðri þá er varla að maður megi kveikja sér í uppi í stúkunni eða í sturtunni hjá 3. flokki kvenna án þess að maður sé litinn hornauga. Fasistar.

Annars var hin ástæðan líkamshár karla. Glætan að ég myndi vilja vera þarna inná að strjúka mér upp við sveitt líkamshár annarra karlmanna. Það er bara svo.... ógeðslegt. Þá er ég ekki að tala um sæt sveitt líkamshár undir höndunum heldur viðbjóðslega sveitta hárklepra á bakinu, bringunni og maganum. Hvað ef þú rekst í þetta? Allur blautur af svitanum af hárunum af einhverjum öðrum. Saltur. Hársviti. Af. Bakinu. Af. Öðrum. Salt og blautt eins og ofsoðið og ofsaltað spaghetti gærdagsins. Nema hvað það er líkamshitavolgt og gæti talað við þig.

Því meira sem ég hugsa um það þá gerði ég rétt að hætta.

January 30, 2006

Byggt á góðum grunni

Ég hef ákveðið að stofna fyrirtæki. Eins og glöggir lesendur muna þá hef ég unnið að smíði eilífðarvélar frá árinu 1987 og er kominn vel á veg með að fullkomna smíði hennar. Það vantar einungis herslumuninn til þess að hún brjóti bæði 1. og 2. lögmál varmafræðinnar. Líkt og kona sem ég þekkti hér í bæ sagði þegar kennarinn minn í verkfræði neitaði mér að gera eilífðarvélina að BS verkefni: "Varmafræði smarmafræði!"

En nú hefur mér loks tekist að safna peningum til þess að stofna fyrirtæki og þar sem ekki er mikill peningur afgangs verð ég að treysta á auglýsingar annarra til þess að dæmið gangi upp. Samkvæmt því sem ég hef lesið í lögfræði þá ætti ekki að vera möguleiki hjá fyrirtækinu Eld-smiðjunni að geta tekið af mér nafnið sem ég fann á fyrirtækið: Elds-miðjan. Það sér hver heilvita maður að þarna er um tvö ólík nöfn að ræða.

Og því get ég lofað ykkur að Eldsmiðjan á eftir að þakka Eldsmiðjunni fyrir þegar Eldsmiðjan er orðið stærra og virtara fyrirtæki en Eldsmiðjan og þá mun Eldsmiðjan ekki fara í mál til þess að taka nafnið af Eldsmiðjunni.

Ef það gengur ekki, þ.e. að lögfræðiþekking mín sé kannski ekki það góð og þetta myndi allt falla um sjálft sig, þá get ég alltaf notað hitt nafnið: BíKó.
Fær mig til þess að hugsa...

Rakst á þessa frétt á guardian. Ef þú nennir ekki að lesa þetta þá er hér smá úrdráttur:

"They do not know precisely what happened, but the Israeli army later said Aya was behaving in a suspicious manner reminiscent of a terrorist - she got too close to the border fence - and so a soldier fired several bullets into the child, hitting her in the neck and blowing open her stomach.

Aya was the second child killed by the Israeli army last week. Soldiers near Ramallah shot 13-year-old Munadel Abu Aaalia in the back as he walked along a road reserved for Jewish settlers with two friends. The army said the boys planned to throw rocks at Israeli cars, which the military defines as terrorism."


Sumt fær mig til að fyllast viðbjóði. Það að skjóta níu ára stúlku... ekki bara að skjóta hana, heldur láta kúlum rigna yfir hana er eitt af því. Það að skilgreina steinakast 13 ára drengja sem hryðjuverk og nægilega ástæðu til þess að skjóta á þá gerir það líka. Það versta fannst mér samt að hafa ekkert séð eða heyrt um þetta í fréttum hér og hugsaði með mér: "getur það verið?"

Svo ég emblaði nafnið á henni. Niðurstöður þess: 0. En þeir hafa sagt frá drápi á þrettán ára dreng, ekki satt? Sjáum til hvað nafnið hans gefur: 0. Svo það þykir greinilega ekki merkilegt þegar börn eru myrt. 9 og 13 ára "hryðjuverkamenn".

Svo finnst mér gott að vita að þetta er talið mikilvægara.

Er það ég eða heimurinn sem er skrýtinn?

January 27, 2006

hæ bubbi pabbi min þikir gamman að hlusta á laugin þín og ég líka BÆ BÆ...

Byrjum á texta:
"The screen door slams
Mary's dress waves
Like a vision she dances across the porch
As the radio plays
Roy Orbison singing for the lonely
Hey that's me and I want you only
Don't turn me home again
I just can't face myself alone again
Don't run back inside
Darling you know just what I'm here for
So you're scared and you're thinking
That maybe we ain't that young anymore
Show a little faith there's magic in the night
You ain't a beauty but hey you're alright
Oh and that's alright with me
"

Vá hvað þessi vika öll saman fór í ekki neitt. Nema bara þýðingu á þessari blessuðu barnabók. Hún er að verða búin. Hvað tekur svo við? Fjarnám hjá inniheimtu ríkisins... sorrí... las bréfið aftur... þetta átti víst að vera fjárnám. Fannst líka skrítið að þeir væru að bjóða mér að læra eitthvað í fjarnámi hjá sér.

Það mætti segja að ég hafi verið ósköp heppinn um síðustu helgi. Fékk stelpu til þess að taka mig heim með sér! Ég myndi segja að ég hafi hösslað hana, en þá væri ég að ljúga og það er það síðasta sem ég vil gera ykkur. Maður á aldrei að ljúga. Ég reyni það, guð veit ég reyni það en mér tekst það bara ekki alltaf. Yfirleitt tekst mér það ekki um það bil tvisvar á dag en ég er að reyna.

Annars að stelpunni aftur. Þá öskraði hún á mig að hún: "vildi ekki kærasta!" og ég svaraði: "ekki ég heldur! Ég er ekki hommi!" Af hverju þarf ég alltaf að fullvissa fólk um það að ég sé ekki að leita að kærasta. Kærasta væri allt annað mál. En ég er að leita að hvorugu. Annars sárvorkenndi ég henni daginn eftir að hafa komið heim með mér. Þar sem ég sat á nærbuxunum í brjóstahaldaranum hennar og spurði hana hvort hún hafi sofið vel. Það hlýtur að hafa verið vandræðalegt. Fyrir hana. Því ég er nógu öruggur í kyngirnd minni að vita að það var ekkert pervertískt við það að hafa klætt mig í brjóstahaldarann hennar. Það sem mér líður svo illa yfir er að hafa látið hana grátbiðja mig um hann svo aftur. Ég harðneitaði að fara úr honum og bauðst meira að segja til að elda handa henni morgunmat í honum. Ég sé það núna að engin stúlka á að þurfa að biðja strák um brjóstahaldarann sinn aftur. Stundum er maður vitur eftirá.

Það er engin spurningarkeppni í dag. Hvað gera ég og Völundur hin svarta sál þá?

January 20, 2006

Í hugmyndasögulegu ljósi...

Þögull er maður. Spara alla mína orku fyrir umræðutíma í heimspeki. Hugvísindin eiga hug minn allan. Nema á tíu sekúndna fresti hugsa ég um kynlíf. Ég er karlmaður. Við hverju var svo sem að búast.

Annars var ég að lesa bók og ég veit ekki hvað eftirfarandi orð og orðasambönd þýða. Getur einhver hjálpað mér?

Angóruspanjóla.
Arnsúgur.
Skotra.
Borð fyrir báru.
Ærustuna.
Bílífi.
Brosa skelmislega.
Offur sitt og engar refjar.
Veltihnita.

Hefði betur lesið hana á ensku.

January 9, 2006

Aftur á byrjunarreit

Djöfull gekk vel að detta ekki í það um helgina. Álíka vel og hjá Garðari Cortes að gefa út skemmtilega plötu fyrir jólin. Sem sagt alls ekki. Þetta var þó gaman og ég get alltaf kennt bubba um að hafa vakið upp í mér áfengisþorstann. Af hverju Fjöllin hafa vakað bubbi? Af hverju flugeldar? Ég sem var búinn að standa mig svo vel frá síðustu helgi. Svo sendirðu þessa sprengju inn í mitt líf, viltu ekki bara senda bjórkassa niður á Vog? Þú átt að vita betur.

Annars voru tónleikarnir brillíant. Damien Rice er svo að reyna að fá mig til þess að giftast sér. Hann stóð uppúr. Reyndar voru allir góðir fyrir utan ghostdigital sem ég er bara ekki að fatta. Mér finnst ég alltaf vera að horfa á opið beinbrot þegar ég sé þá á sviði.

Er ekki annars skólinn að byrja hjá mér í dag?

January 5, 2006

Föndurhorn Tobba: Búðu til þitt eigið Selebb.

Fyrsta sem þarf er túss, skæri, skósverta, meik, extra-tyggjó og ást.


Ekki gleyma mandarínunni!!!


Svo teiknum við inn hárið.


Smá meik til að fá lit í kinnarnar.


Augunum er komið fyrir og skorið út fyrir munni.


Tönnum komið fyrir og augnabrúnir teiknaðar á.


Augasteinarnir!!!


Örlítið meira meik.


Varalitur settur á...


Og svo meikað yfir allt saman.


Hárinu greitt og örlítið meira meik og VOILÁ!
Hár og fegurð = Ég

Ég held að aldrei áður í sögu mannkyns hafi hár og fegurð sameinast jafnvel í einum manni. Það eru ekki margir sem geta skipt í miðju á enninu og komist upp með að kalla það sexí. En ég get það. Ég finn afbrýðisemina frá öðrum karlmönnum gjósa upp en við þá vil ég segja: óheppnir.

Talandi um glæsilega karlmenn þá er ég búinn að fatta að það er hægt að föndra til þess að stytta sér stundir þangað til skóli byrjar aftur. Sérstakt áhugamál hjá mér er að föndra fræga Íslendinga og ef þið hafið jafnlítið að gera eins og ég þessa dagana þá hefðuð þið kannski gaman af því að gera það líka? Ætti ég að vera með örlítið föndurhorn? Ég ætla að spá í þessu í dag. Það þarf myndir og annað ekki satt?

Farinn að láta mér leiðast og óska eftir sætri stelpu sem vill fara með mér á tónleika á föstudag.

January 4, 2006

Mig langar svo að...

...væla yfir Strætó B.S. en Bloggerinn vill ekki leyfa mér það! Punkturinn var samt að bera saman þessa hækkun hjá Strætó við það að ég myndi lækna kláða í fætinum með því að skjóta af mér löppina. Einstaklega heimskuleg aðgerð.