November 30, 2005

Konur og Vímuefni

Sá þessa fyrirsögn hjá einhverjum hérna í há-skólanum. Ætli hún hafi ekki verið að skrifa ritgerð um þetta? Mig langaði alla vegna í bæði. Kannski saman, kannski í sitthvoru lagi. Svona er maður óákveðinn í dag. En samt ennþá fallegur hafið engar áhyggjur af því.

Er búinn að standa mig eins og hetja í því að koma íbúðinni hjá Guðnýju í gagnið. Með borinn í annari og hamarinn í hinni þá er ég búinn að setja upp hverja hilluna upp á fætur annarri og tengja rafmagnsvíra (fékk stuð) og setja upp viftu/ljósashow-dauðans.

- útúrdúr nr. 1. Hvað var málið með Skuggabörn og R.T. að kalla Amsterdam "Borg dauðans"? Kannski af því að myndin var stíluð inn á vænisjúkar húsmæður í úthverfum? Gæti það verið? Héðan í frá ætla ég að kalla Hveragerði "Bæ dauðans" af því að sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að einhver labbi inn á hverasvæðið og detti ofaní og sjóði sjálfan sig. Svo ætla ég að kaupa 100 grömm af hveravatni og smygla til rvk. Fæ samt samviskubit og gef mig fram við tollgæsluna. Ég gæti gert heimildarmynd um þetta og hún yrði örugglega meira spennandi og merkilegri heldur en skuggabörn. hér er úrdráttur úr handritinu:
"... en náttúran er óvægin og það má aldrei hafa af henni augun. Á hverri mínútu láta fleiri hundruð manns lífið vegna hamfara. Náttúruhamfara (Klippt inn skot af hver sem gýs beint í myndavélina. Helst að það komi dropar á linsuna.).
- Laufey Lind Lind Lárusardóttir: "Það var þannig að ég og Gísli Grani eiginmaður minn vorum á kvöldgöngu með Hund, hundinn okkar, þegar við tókum eftir því að við horfðumst það stíft í augun að við höfðum ratað af göngustígnum og inn á virkt hverasvæði (fá leikara og hund til að endurgera gönguferðina). Gísli Grani tekur þá í öxlina á mér og biður mig um að fara varlega þar sem hvert okkar skref gæti orðið það síðasta.... (Nærmynd aftur af hver að gjósa. Nú í myrkri)"
- Gísli Grani: "Ég sá að hverinn var þarna í um það bil 100 metra fjarlægð en vissi af bituri reynslu að það er engu óðslega farið þegar átt er við náttúruna. Ég sá gufuna af hvernum læðast í áttina að okkur, eins og hún væri að leita að okkur, og þegar hún var í um það bil 95 metra fjarlægð þá vissi ég að ég yrði að koma Laufey Lind Lind þaðan í burt. Svo ég herti ólina hjá Hundi þangað til það leið yfir hann og svo bar ég hann upp að vitum mér til þess að anda í gegnum þykkan feldin og vera þannig viss um að hin lævísa gufa sem ég sá nálgast myndi ekki verða þess valdandi að ég missti meðvitund. Með hundinn fyrir vitunum setti ég svo ólina á Laufey Lind Lind og sagði henni að fara niður á fjóra fætur til þess að geta rakið slóð okkar til baka. Þannig fikruðum við svo okkur áfram, skref fyrir skref, Laufey Lind Lind á fjórum fótum og ég á eftir ríghaldandi í ólina þangað til við að lokum náðum út fyrir girðinguna sem átti að afmarka hitasvæðið. Ég get ekki lýst því hversu ánægður og glaður ég var að komast loks þaðan út og það að allir skildu vera heilir á húfi. Hundur náði sér nú fljótt aftur eftir að ég hafði sett ilmsölt undir trýnið á honum, ég var svolítið skelkaður eftir lífsreynsluna og með útbrot á efri vörinni vegna ofnæmis sem læknar hafa rekið til nýja hundasjampósins sem við höfðum keypt af internetinu."
-Sætasti heimildamyndagerðarmaður í heimi (Ég): "En hvað með eiginkonu þína?"
-"Já hún Laufey Lind Lind. Mig minnir að hún hafi hlotið þriðja stigs bruna á lófunum, hnjánum, sköflungi, rist og hægri hluta líkamans eftir að hún rataði af réttri leið, eins og segja má ha ha ha ha, og ofaní einhvern smápoll af heitu vatni."
(skipt yfir á sæta heimildamyndagerðamanninn og hann talar í myndavélina)
-Við fórum á stúfana og leituðum svara. Hvar liggur ábyrgðin? Erum við hér enn og aftur að sjá ríki og bæ standa ráðþrota gagnvart hættum sem leynast í umhverfi okkar og enginn þorir að taka af skarið gegn? ....."

Mín heimildarmynd á eftir að rokka.

Næst ætla ég að gera svo heimildarmynd um forræðishyggju dauðans. Það hvernig er að búa á Íslandi í dag. Fylltist hatri á þessu ríkisbákni sem þetta land er þegar ég horfði á fréttirnar í gær. Tvær ástæður: Sú fyrri var þessi ákvörðun að banna íbúfen og parkódín. Seinni er sá asnaskapur að leyfa ekki sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum. Ég lofa að skrifa um það á morgun. Hér er komið nóg í bili.

November 28, 2005

Ég á ekki til orð...

Hef ekki náð mér eftir þessa sviðsframkomu Steinunnar Kamillu á laugardaginn. Hallaði mér að móður minni og bróður sem sátu í sófanum með mér og náði ekki öðru en að hvísla að þeim: "... hún er ekki í neinum brjóstahaldara..." Svo leið yfir mig.

Farinn að vinna í fiski á Seyðisfirði þangað til eftir jól... heyrumst ef ég finn heitt svæði þarna í miðbæ Seyðisfjarðar..

November 18, 2005

Meira um nöfn

Ef Már gengur.
Ef Hörður gengur.
Af hverju þá ekki Hár Svörður?

Mér finnst þetta mismunun. Eins og þó það sé ekki alveg eins eða rétt skrifað þá finnst mér engin munur á Jakobínu og Stanbínu. Þá öðlast líka setningin: "Ég er með Stanbínu" miklu skemmtilegri merkingu.

November 10, 2005

Gleði

Ég sé ekkert vandamál við að bæta mannanöfnunum Spænska Veikin og Svarti Dauði við flóruna.

November 9, 2005

Af hverju vill engin hjálp mína?

Talaði við grænmetisframleiðendur sem eru greinilega fastir í fortíðinni og treysta sér ekki í verð og yfirráðastríð við blómaframleiðendur. "Segðu það með plómum" er samt slagorð sem ég held að muni hitta í mark og verða til þess að grænmeti og ávextir öðlist aftur þá virðingu sem þeir eitt sinn höfðu.

Er óeðlilegt að vera í sms-sambandi við fjórar mismunandi stúlkur af mismunandi þjóðerni í mismunandi löndum? Og einn strák líka. Ég er að því er virðist í sms-sambandi við hálfa evrópu. Króata, Bosníu-Herzegóvínu, Frakklendingu og Englendingu. Og svo einn skÍtalskan strák. Ég ætti kannski að líta á þetta sem þróunaraðstoð? Friðar samviskuna.

November 7, 2005

Að setja sér takmörk og standa við þau

Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að vera að tala um eigin kynlífsreynslur en ég man að mín fyrsta og eina var einhvern veginn svona:

"Sko, tobbi var það ekki? Áður en þú gerir þér einhverjar vonir þá skaltu vita það að þú ert að fara að sofa í sófanum og svo kemur þú þér heim áður en ég vakna í fyrramálið. Annars væri best að þú tækir hann núna. Annars þá þarftu ekki endilega að hringja í hann núna, komdu þér bara út og hringdu svo."

Já það er gaman að rifja það upp þegar maður var viltur unglingur og lifði áhyggjulausu og, á þessari einu kvöldstund þarna, villtu hérumbilkynlífi. Mér var bara svo alveg sama á þessum árum. Crash and burn!! Bara passa sig á því að brjóta ekki gleraugun.

En nú þegar ég lít til baka þá var þetta kannski ekki svo sniðugt. Ég vissi ekkert um hana og ég vissi ekkert á þeim tíma hvort að ég hefði kannski getað hafa náð mér í einhvern kynsjúkdóm af almenningsklósetti niður í bæ. Allur er varinn góður og ég, í dag, míg alltaf með smokk til þess að ég sýkist ekki. En að takmörkunum. Ég er búinn að setja mér nokkur í sambandi við skóla, vinnu og kynlíf.

Tobbi og skóli:
1. Geyma þangað til síðar.

Tobbi og vinna:
1. Er það svo lítillækkandi að vera á bótum?
2. Fá vinnu sem geirvörtumódel.
3. Fá vinnu sem gerivörtulausa módelið.

Tobbi og kynlíf:
1. Hvað vita vinir manns? Ég hef þurft að hlusta á vini mína vera að tala um og hvetja til kynlífs frá því að við vorum í grunnskóla. Ég held þetta sé samt mest allt í nösunum á þeim. Er fólk ekki alltaf að ýkja þessar sögur og gera sig mikla með því að þykjast "hafa gert þetta" "með þessari" "og systur hennar líka" þegar "hún" var með "lungnabólgu" og eitthvað "slöpp". Ég ætla ekki að láta þessa þrýsting frá jafnöldrum mínum ýta mér út í einhverjar flýtiákvarðanir. Mér finnst ég meiri maður en þessir sjálfsskipuðu "prófessorar" í kynlífi. Ég verð að virða líkama minn og ekki misbjóða honum bara vegna þess að vinir mínir segja það eðlilegt og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að segja það skemmtilegt að stunda kynlíf. Líkt og ég virði líkama minn þá verðið þið að virða þá ákvörðun mína, þar sem ég er að verða tuttugu og níu ára, að halda mér frá kynlífi þangað til rétti tíminn kemur.

2. Fiðringur í maga og sætar stelpur. Það að finna til fiðrings í maganum við að sjá sæta stelpu er ekki næg ástæða til þess að fórna einhverju jafn mikilvægu og sveindóminum í burtu. Það er allt í lagi að sækja sér kannski nokkra kossa en enginn strákur ætti nokkurn tímann að skammast sín fyrir það að segja, "hingað og ekki lengra", ef honum líður óþægilega og vill ekki halda áfram. Þín er ákvörðunin og hana ber að virða. Þú kemur út úr því sterkari og ef stúlkan sem þú ert með virðir hana líka þá veistu það að hún er ekki bara á eftir vel meitluðu átta ferhyrningunum af magavöðvum sem standa líkt og grískar marmarastyttur fyrir ofan fjörutíu sentimetra langt typpið, heldur gæti hún hafa séð hversu falleg og einstök persóna þú ert undir niðri.

3. Tíminn og valið á honum. Hver og einn verður að velja sér sinn eigin tíma. Hlusta á hvað líkami þinn segir og fylgja honum eftir. Það að ég hafi fengið hár á nárann þegar ég var u.þ.b. 25, 26, 27 ára þýðir ekki endilega að ég sé þar af leiðandi strax tilbúinn í þá miklu skuldbindingu og áhættu sem kynlíf getur haft í för með sér. Margir strákar sem ég hef talað við hafa einmitt sagt mér þetta: "Bíddu, Tobbi, ég gerði mér alls ekki grein fyrir því hversu gífurlega mikil andleg pressa fylgdi því að stunda kynlíf." Þegar maður heyrir menn sem maður jafnvel lítur á sem fyrirmyndir í lífinu nota svo sterk orð um þessa lífsreynslu þá er ekki laust við að maður vilji hinkra örlítið. Velta þessu fyrir sér. Hlusta á hjartað. Ræða jafnvel við kennara eða æskulýðsfulltrúa í næstu félagsmiðstöð. Ég er á þeirri skoðun að maður er aldrei "of gamall" til þess að sækja sér þekkingu í félagsmiðstöðvar. Margir halda að þær séu einungis fyrir unglinga en þarna vinna sérfræðingar sem eru alltaf reiðubúnir að aðstoða ef hennar er þörf. Og hvað er mikilvægara en sú ákvörðun að byrja að stunda kynlíf? Ekki neitt. Ekki einu sinni.... fjölskylda.

4. Fáðu álit bekkjar-, skóla- og æskufélaga. Því fleiri sem þú talar við því betur undirbúinn ertu undir þessa miklu ákvörðun. Fáðu að vita, ef þeir hafa þá nokkurn tímann stundað það, að vita hvernig þeim leið eftir fyrsta skiptið. Eins og ég talaði um hérna áðan þá er þetta ekki léttvæg ákvörðun og þaðan af síður auðveld framkvæmd að stunda kynlíf í fyrsta sinn. Margir strákar hafa nefnilega gert sér miklar væntingar sem síðan hafa ekki staðist og eftir stendur að þeir sjá eftir þessu alla ævi. Eins og vinur minn, Hjá. Blö. Guð., sagði eitt sinn svo eftirminnilega á strákakvöldi sem við héldum fyrir nokkrum árum þar sem þemað var einmitt; "Karlmenn og tilfinningaleg skylda okkar að hlusta á hjartað þegar kemur að kynlífi og barneignum.", en hann sagði:
"Strákar. Ég fyrir mitt leiti var alls ekki tilbúinn. Tuttugu og þriggja ára þá vantaði mig bæði andlegan og líkamlegan þroska kannski ekki síður stuðning fjölskyldunnar til þess að vinna úr því að hafa tekið þetta risaskref út í óvissuna. Það vantar úrræði í samfélagið til þess að karlmenn, eins og ég, sem taka áhættuna og hoppa út í þennan tilfinningapakka geti leyst úr sínum málum þegar það rennur upp fyrir þeim hversu grátt þeir hafa leikið sjálfan sig. Ég rak mig á það að félagsráðgjafinn hjá Félagsstofnun Stúdenta var engan veginn í stakk búinn að aðstoða mig þar sem hann var sjálfur enn að greiða úr þeirri tilfinningaflækju sem hann hafði komið sér í tíu árum fyrr. Við erum að tala um að tími sé kominn til þess að virkja grasrótina, koma á stað hreyfingu sem er tilbúinn að viðurkenna vandann, opna sig, sýna samstöðu og koma á móts við þá sem virkilega þurfa á aðstoð að halda. Það má vel vera að við séum með þriggja daga skeggrót, brjóstvöðva og vel mótaða andlitsdrætti en undir niðri erum við kraumandi, völundarhús tilfinninga þar sem við, því verr og miður, eigum til að týna okkur."
Þessi orð hans sitja enn í mér. Það er sjalgjæft að maður hitti menn eins og hann sem eru tilbúnir að opna sig, og þegar þeir gera það hitta naglann á höfuðið. Þessi orð eiga svo vel við núna þegar ég er að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera.

Jæja. Andlega er ég úrvinda eftir að hafa opnað mig svona. En þetta er góð þreyta. Þetta er svipuð þreyta og þegar ég lyfti hundrað og áttatíu kílóum þrjúhundruð og fimmtíu sinnum til þess að halda við æðaberum og stálkenndum upphandleggsvöðvum mínum en öðruvísi að því leiti að harðsperrurnar sem ég verð með á morgun eru eftir það að hafa ræktað karlmanninn í sjálfum mér.