
Á meðan ég beið eftir því að spanjólan hefði sig til í gærkvöldi þá gerðist þetta í götunni sem liggur að minni. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið mikið var við lætin. Reyndar hafði ég verið að velta því fyrir mér nokkru áður, þegar ég skokkaði út í búð að kaupa bjór, af hverju lögregluþyrla væri að sveima yfir húsinu mínu. "Ég er löglegur," hugsaði ég, "svo þeir eru ekki á eftir mér."
Sat í mestu rólegheitum og spilaði Texas Hold´em og sötraði bjór á meðan sírenurnar vældu fyrir utan. Það er ekkert nýtt. Væri frekar hissa ef ég heyrði ekki sírenur fyrir utan. Þegar ég heyrði slökkviliðssírenu fyrir utan þá reyndar rann það í gegnum hugann hvort kviknað væri í blokkinni. Slökkviliðsbíllinn var nefnilega beint fyrir neðan svalirnar og virtist ekki ætla að fara lengra. Fann enga brunalykt svo ég bjóst við að það væri frekar blokkin við hliðina sem stæði í ljósum logum.
Á meðan ég sat með tölvuna og velti vöngum yfir því hvers vegna ekkert gerðist í þessari blessuðu borg þá börðust fylkingar andfasista, fasista og lögreglan.
Til útskýringar þá bý ég á mörkum La Latina og Lavapies hverfanna. Lavapies er með eitt hæsta hlutfall innflytjenda af öllum hverfum borgarinnar. Í gær gerðist það að ungum fylgjendum fasistastefnunnar var veitt leyfi til þess að halda samkomu á torgi sem liggur upp að þessu hverfi, Lavapies. Ýkt dæmi væri að segja það svipað og að leyfa ný-nasistum að halda útifund í jerúsalem.
Ný-fasistarnir safnast sem sagt saman í því hverfi sem þeir eru hvað mest hataðir. Sem þýðir auðvitað að and-fasistarnir sem nokkur veginn búa á torginu þar sem fundurinn var haldinn þurftu ekki annað en að stíga út úr húsi til þess að kasta grjótum í þá. Sem þýðir að allt fer í háaloft og ekki er þess langt að bíða áður en táragas og gúmmíkúlur eru fljúgandi framhjá glugganum hjá mér.
Guð forði mér frá því að gagnrýna skspænskt stjórnvald, spanjólan leyfir það ekki, en liggur einhver önnur ástæða en algjört hugsunarleysi að baki ákvörðun sem leyfir útifund fasista í innflytjendahverfi? Þeir voru með öll tilskilinn leyfi til þess að halda útifund. Það voru ekki þeir sem völdu staðinn. Svo virðist sem lögreglan, sem auðvitað var gert viðvart fyrir einhverjum dögum síðan, hafi heldur ekkert séð rangt við staðsetningu þessa útifundar.
Það er vika í kosningar. Það fer eftir því hvort þú lest hægri- eða vinstriblöð hérna hvorum er um að kenna. Það er hægri stjórn í Madrid en vinstimenn við völd í ríkisstjórninni. Góður jarðvegur fyrir samsæriskenningar.
Ég er bara ósáttur því þeir eyðilögðu alla hraðbanka í hverfinu mínu. Ég veit að það voru kommúnistarnir og vinstriliðar.
Þegar ég snéri heim aftur seinna um kvöldið, eftir eitthvað rölt með spanjólunni, tók á móti mér herdeild af borgarstarfsmönnum sem voru að ljúka við að sópa upp síðustu glerbrotin og týna upp síðustu grjótin. Fyrir utan brunalyktina í loftinu þá virtist sem ekkert hafði gerst.
Myndband af skemmtuninni.
No comments:
Post a Comment