Fyrirsögnin kemur í lokin
Afsakið hléið. Hér hefur ekkert net verið en nú loks er heimilið orðið nettengt. Húrra fyrir því. Húrra fyrir rigningu og þá sérstaklega húsum sem gráta.
En það er kannski ekki netleysið sem hefur verið að halda mér frá bloggi, nei það er frekar að heimilið hefur verið í stigmagnandi taugaáfalli sem síðan náði hámarki á laugardaginn. Hér höfðum við verið í stöðugu sambandi við Kína(Hérað á Spáni held ég) að fylgjast með okkar konu í Kína. Myndir á veggjum, bíllinn útkrotaður með stuðningyfirlýsingum og sex metra hár tólf metra breiður borði sem við bræðurnir gerðum úr pasta-fiðrildum, glimmeri og matarlit(þó sérstaklega grænum og gulum til heiðurs þjóðfánanum íslenska). Nei. Við tókum okkur enga pásu frá lærdómnum heldur gerðum þetta á nóttunni til þess að tapa engum tíma.
Vikan er svo sannarlega búin að vera æðisleg og við fjölskyldan misstum okkur svo algjörlega á laugardaginn þegar Unnur (eða eins og við fjölskyldan kölluðum hana; Falun-fegurðardrottningin) innsiglaði svo titilinn. Við vissum að hún myndi vinna. Alltaf. Enduðum svo kvöldið á því að keyra niður Laugaveginn og þeyta bílflautuna Unni til heiðurs.
Ja. Kvöldinu lauk ekki alveg þannig. Við fjölskyldan settumst niður eftir Laugavegsför okkar í betri stofuna og fengum okkur grænt te til að skola niður mestu sigurgleðinni og ná hjartslættinum niður. Þar sem við sátum og hugsuðum um hversu heppin við værum að vera Íslendingar þá ákvað ég að taka jólin snemma í ár. Ég sneri mér að Dannilíuzi litla bróður(ekki svo samt, 18 sko) og sagði við hann: "Danni finnst þér ekki æðislegt að jólin skuli vera að koma og Unnur hafi unnið titilinn?" "Jú," sagði hann, "mér finnst það æðislegt! Æ-hæ-hæ-ðislegt!" Svo ég, jólabarnið sem ég er, nikkaði létt í öxlina á honum og sagði: "Gleðileg jól, Danni minn, og til hamingju með það að vera ættleiddur."
Er að horfa á Drop the dead donkey þessa dagana. Fannst eitthvað svo ótrúlega fyndið við setninguna: "All this talk about the female orgasm! Before all this feminist movement women used to just lie on their backs and be greatful!" Fyrirlítið mig út af kvenfyrirlitningunni ekki fegurðinni!
No comments:
Post a Comment