March 13, 2007

Íslenskar krónur!

Það er eitthvað svo uppbyggilegt að eiga í hér um bil útistöðum við gamalmenni. Eins og allir vita þá kunna gamalmenni ekki að hlusta og það veldur oft vandræðum. Í gær t.d. bað gamalmenni mig um að skipta fimmhundruðkalli. "Í krónur," sagði gamla konan. Ég horfði á hana í forundran og bað hana að útskýra betur fyrir mér. Þá greip hún frammí fyrir mér og hér um bil öskraði "krónur! íslenskar krónur!" Ég ætlaði ekki að fara að láta hana hafa 10 krónubúnt þar sem ég var nokkuð viss um að hún vildi ekki fá fimmhundruðkallinn í krónum. Ég reyni mitt besta til þess að trufla hana og komast að til að fá út úr henni að minnsta kosti hvort hún vilji hundrað- eða fimmtíukalla. Það gengur mjög hægt þar sem gamla konan heldur á þessum tímapunkti að ég viti ekki hvað íslenskar krónur eru og sé eins og allir unglingar farinn að hugsa í evrum.

Stúlkan fyrir aftan gömlu konuna faldi sig á bakvið séðogheyrt með risaglott á vörunum yfir óförum mínum. Það var engin leið að fá konuna til að segja hvaða útgáfu af klinki seðlabankans hún vildi. Þangað til fimm mínútum síðar og helling af þolinmæði minni kastað út um gluggann að hún loks muldrar eitthvað um hundraðkalla. Ég get svo svarið að á þessum tímapunkti var næstum liðið yfir stúlkuna sem reyndi hvað mest hún mátti að halda niðri í sér hlátrinum. Gamla konan fékk loks hundraðkallana sína og ég reyndi að halda aftur af skjálftanum sem var kominn í hnúana á mér. Kerlingin byrjar að raða í pokann og lítur til baka yfir röðina sem hefur myndast og spyr undrandi "talaði ég eitthvað óskýrt?" Röðin eins og hún leggur sig svaraði öll einum róm: "Nei, alls ekki."

Þetta er reynsla sem maður býr að seinna á ævinni. Setti inn nýja færslu á cv-ið þar sem ég benti á einstaka þolinmæði mína þar sem ég hefði ekki kýlt elliæra gamla konu í andlitið fyrir að vita ekki hvaða klink hún vildi.

No comments:

Post a Comment