Smjör
Það getur verið erfitt að finna leiðir til þess að eyða deginum þegar honum fylgir engin vinna. Netið hjálpar en það er ekki hægt að hanga þar inni í 24 tíma á dag. Reyndi það einu sinni en vaknaði upp við vondan draum þegar ég var orðinn frægur sem "Jesus Christ Superstar-gaurinn." Hafði tekist í einhverjum transi að taka sjálfan mig upp á vefmyndavélina syngjandi alla helvítis rokkóperuna. Öll hlutverk og hvert einasta dansspor. Hrollur.
Í dag reyni ég miklu frekar að halda mig við hluti sem skaða engan nema sjálfan mig. Eitthvað sem inniheldur líkamsrækt, líkaminn er hof og allt það. Ég fékk einhvern tímann boxpúða í ammmmælisgjöf fyrir mörgum árum sem ég hef aldrei notað. Mér finnst að hnefana eigi einungis að nota á lítil börn og hunda, spari, ekki dauða hluti sem geta ekki svarað fyrir sig.
Um daginn dró ég hann út úr geymslunni til þess að prófa eitthvað algjörlega nýtt. Mér hafði nefnilega dottið í hug, þegar ég lá milli svefns og vöku, að hægt væri að sameina innhverfa íhugun og grísk-rómverska glímu. Ég held að þetta hafi ekki verið reynt áður. Einhvers konar Thai-chi útfærsla á glímu jafnvel?
Eftir að ég hafði kveikt á reykelsum og undirbúið mig andlega fyrir átökin, kastaði ég mér á pokann sem lá fullur eftivæntingar á gólfinu. Þar sem við áttumst við ég og pokinn í einhverjar mínútur, hvorugur ótvíræður sigurvegari, fór ég að taka eftir leiðinlegum brunasárum sem ég hafði náð mér í yfir mest allan líkamann.
Ég býst við að bæði hafi verið um að kenna því hversu stamt parketið hjá guðnýju er og offorsa mínum við glímuna. Ég sá það samt að þetta gengi ekki. Það er alltaf svolítið óþægilegt að útskýra sár sem hljótast af tilraunakenndum tómstundum. Ég man enn hvernig þau störðu á mig í vinnunni þegar ég útskýrði fyrir þeim að ég svæfi með beikonsneiðar á andlitinu til að vinna gegn hrukkumyndun og gefa raka.
Mér datt í hug að nota hné- og olnbogahlífar en ég verð svo rosalega meðvitaður um að klæðast þeim að ég næ ekki fullkominni hugarró. Glíman var til einskis. Hugur verður að fylgja thai-chi glímu ef maður vill ná árángri.
Lausnin lá, líkt og svo oft áður, inni í ísskáp. Með því að bera smjörlíki á helstu staði líkamans sem eiga á hættu að særast þá verður glíman leikur einn. Nú get ég glímt við pokann svo tímunum skiptir án þess að líkaminn verði fyrir tjóni. Smjörlíkið virkar sem stuðpúði á stamt parketið og engu máli skiptir hversu mikill offorsi fylgir leikum, smjörlíkið tekur á því öllu.
Endilega prófið.
No comments:
Post a Comment