Takið þetta til ykkar stelpur... fyrsti partur af u.þ.b. tíuMADAMA TOBBA
LEIÐARVÍSIR Í ÁSTAMÁLUM
II.
FYRIR UNGAR STÚLKUR
REYKJAVÍK
BÓKAFÉLAGIÐ NÝJA
1922
FÉLAGSPRENTSMIÐJAN
--------------------------------------------------------------------------------
Hvað er það, sem gerir konur yndislegar í augum karlmanna?
Eg er sannfærð um, að engin sú kona er til og hefir aldrei verið til, sem eigi hefir lagt fyrir sjálfa sig þessu líka spurningu einhvern tíma á æfinni, og þá helst meðan æskan og fegurðin voru í blóma sínum; þegar lífið brosti við og vonirnar voru sem bjartastar og himinháu skýjaborgirnar enn ófallnar, þá hefir þessi spurning komið fram í hugum allra kvenna og hver hefir reynt að svara henni eftir bestu vitund--með framkomu sinni.
Það er tilgangur minn með þessum bæklingi, að reyna að benda ungum og gömlum kynsystrum mínum á ýmislegt það, er verða mætti þeim til leiðbeiningar í umgengni og samlífi við karlmenn, og einkum hvernig þær eiga að hegða sér og haga til þess að verða yndislegar í þeirra augum.
Vitanlega verður þessi tilraun mín afar ófullkomin, enda eigi á hvers manns valdi að rita stóra bók um þessi efni, en á það er einnig að líta, að verðmæti bóka fer eigi eftir blaðsíðufjölda og orðamergð þeirra, heldur eftir hinu, hvort bókin ber á borð fyrir þjóðina heilnæmar og siðbætandi kenningar, hvort heldur eru um landbúnað eða ástamál.
Að svo mæltu sný eg mér að efninu og bið þig að fylgjast með mér og veita þeim bendingum athygli, sem eg vil gefa þér, til þess að þú getir orðið yndisleg í augum karlmanna, einkum þó unnusta þíns eða eiginmanns.
Já, hvað er það, sem gerir konur yndislegar í augum karlmanna?
Það eru eigi fötin, hatturinn, skórnir eða fingurgullin. Og það er heldur eigi fegurðin ein. Gyðju-fríð kona getur verið svo köld á svipinn--svo albrynjuð stærilæti og stolti--að fegurð hennar hrífur engan karlmann.
Það sem gerir konuna yndislegasta í augum karlmanna er blíða hennar og yndisþokki, háttprýði hennar í allri framkomu, bros hennar, augnatillit og málrómur, fótatak og allar hreyfingar, ást hennar og næmur skilningur á öllu því göfgasta í tilverunni, fórnfýsi hennar og sjálfsafneitun, sem glöggast kemur fram hjá mæðrum við börn þeirra. Alt þetta myndar einskonar geislabaug, er sumar konur bera svo sýnilega með sér og hefir göfgandi en um leið töfra-mikil áhrif á karlmennina, vermir hjörtu þeirra og opnar þeim nýja heima og nýtt útsýni yfir lönd ástarinnar.
Sumar konur virðast fæddar með þeirri hamingju að vera pilta-gull, en eigi eru þær að fremur meiri mannkostum búnar en hinar, enda eru þess mörg dæmi, að bestu kvenkostirnir sitja auðum höndum á akri ástarinnar og fá eigi að hafst--af ýmsum ástæðum.