March 7, 2006

Til hamingju!... Þjóðarbókhlaðan

Svo... ég er eitthvað að hanga á Þj.bk.hl. um daginn og ákveð í einhverri vitleysu að ljósrita bók sem ég er að þumbast við að þýða. Hún er 60 opnur og mér finnst gott að hafa svona auka eintök á mér til að gefa vinum og vandamönnum. Svona nafnspjald... nema... já, það er rétt hjá þér... bók. Þú klappaðir sjálfum þér í huganum er það ekki? Gott. Gott. Svo ég kaupi mér ljósritunarkort hjá starfsmanni og komst að því, mér til ómældrar gleði, að eitt hvítt A4 blað kostaði 10 krónur. Sem sagt 600 kall fyrir ljósritunarkortið en svo þurfti ég líka að leggja inn 100 krónur í "tryggingu" ef mér skyldi detta í hug að láta mig hverfa með kortið.

Ljósritunin gekk eins og í sögu og ég gekk út með ljósritaða sögu, sextíu blaðsíður, sem kostuðu meira heldur en bókin, litaprentuð með harðri kápu kostaði upphaflega. Hún kostaði 6,5 evrur sem á gengi dagsins í dag er u.þ.b. 516 krónur íslenskar. Ég afsakaði það með sjálfum mér að það væru aðflutningsgjöld sem orsökuðu þessa hækkun bókarinnar frá því að vera fallega innbundin, litaprentuð bók í það að vera fallega götuð, svart-hvít, möppu-innbundin stuldur á höfundarrétti. (ég ætla samt að reyna að bæta það upp með því að gefa þetta út). Þessu eintaki kom ég svo til kennarans míns, sem er að fara yfir þetta, og var bara nokkuð sáttur þrátt fyrir okrið.

Þangað til ég þurfti að ljósrita hana aftur. Keypti sama kortið sem kostar 700 kall en lofar mér 60 einingum og 100 kalli til baka þegar kortið er komið aftur í öruggt skjól bakvið borð útlána og upplýsinga hjá Þj.bk.hl. Í þetta skiptið hafði ég unnið heimavinnuna mína og ákvað að koma bókinni á 30 bls. með því að ljósrita báðum megin, þá gæti ég líka átt það inni seinna ef ég þyrfti að ljósrita hana jafnvel einu sinni enn.

Þessi hugsunarháttur, komst ég að, kallast draumórar.

Eining, samkvæmt Þj.bk.hl., er ekki A4 blaðið sem kemur út úr ljósritunarvélinni heldur sú hreyfing sem afritunarljósið framkvæmir á leið sinni undir glerplötunni og sá verknaður sem fellst í því að dreifa örþunnu blekryki á hvítt blaðið. Til þess að gera langa sögu stutta þá hafði ég sparað Þj.bk.hl. 30 A4 og tíma einnig þar sem þessi nýja aðferð tók u.þ.b. 1/4 af tíma gömlu aðferðarinnar, ein opna ein blaðsíða. En kostnaður minn við hvert blað sem lak út úr vélinni hafði aukist úr 10 krónum í 20. Hefði ég prentað tvær opnur á hverja síðu blaðsins, það er hægt því ég er að leitast eftir því að fólk geti skoðað myndirnar en ekki textann, þá hefði ég einungis notast við 15 blöð en kostnaðurinn við hvert útprentað blað hefði þá verið 40 krónur á hvert blað. 40 krónur fyrir eitt skitið A4-blað!!!!

Er Þj.bk.hl. að treysta sem sagt á mig, að ég sé það samviskusamur að ég ætli að setja það á minn kostnað að spara þeim blöð og tíma og þar af leiðandi peninga? Eru þessir menn og/eða konur á eiturlyfjum?

Nú veit ég það að ég á eftir að ljósrita bókina aftur og, já, ég ætla að gera það uppi á Þj.bk.hl. En í þetta skiptið er ég ennþá betur undirbúinn en áður. Nú ætla ég að nota sem fæst blöð í ljósrituninni sjálfri en svo þegar henni er lokið þá ætla ég að opna bakkann þar sem auðu blöðin sem bíða notkunar eru geymd og ég ætlað að taka mér A4-blöð þangað til heildarfjöldi ljósritaðra og auðra blaða er kominn upp í 55 blöð. Þau 5 sem ég skil eftir getur Þj.bk.hl. litið á sem greiðslu upp í bleknotkun. Ef ég tek bara bókina sem dæmi þá sjáið þið að kostnaður við að koma 60 opnum á 5 blöð (hægt en ólæsilegt) þá er kostnaðurinn 120 kall á blað og það ætti að duga vel upp í kostnaðinn á bleki.

No comments:

Post a Comment