June 21, 2006

Þýskir nýpönkarar rokka!!!

Jæja. Búinn að sofa úr mér þreytuna af því að ferðast. Mér virðist sem það sé einhvert samband á milli þess að eldast, eyða sjöhundruð klukkutímum á flugvöllum og þreytu. Hafa verið gerðar einhverjar rannsóknir á þessu? Nú biðla ég til þeirra sem hafa stundað klíniskar rannsóknir að upplýsa mig, við strákarnir í tengslanetinu værum til í að forvitni okkar yrði svalað. Hvað er betra en tengslanet, væntanlega grasrótin ekki satt?

Ferðasaga (lituð af fallegasta kvenfólki í heimi, dauðum tollvörðum og bjór).

Fimmtudagurinn á leiðinni út byrjaði glæsilega og endaði með baráttu við lykil og hurð sem neitaði að opnast. Nú hef ég oft flogið til útlanda en samt var ekkert sem gat undirbúið mig fyrir spurninguna sem ég fékk frá tollverðinum í Leifsstöð. Rétti honum passann minn og sá lítur á hann og myndina af mér og spyr: "Er þetta þitt vegabréf?" Hvernig ætti ég að svara þessari spurningu? Hvað gengur manninum til? Var verið að leiða mig í gildru? Mig fer að gruna hvernig þeim tókst að nappa þessa tvo kínverja um árið sem voru með fölsuð vegabréf. "Is this your passport mister chinese guy?" "No!" "Ahhhhh!!! You have a forged passport!! Gummi! Náðu í gúmmíkylfuna mína!" Sem betur fer hafði ég þó vit á því að kreysta upp úr mér svarið: "H....ha...á...já....á?" Slapp sem sagt naumlega við barsmíðar og réttarhöld sakaður um mansal. Þeir eru lúmskari en andskotinn þarna í keflavík.

Svaf alla leiðina til london og eins og alltaf þegar ég sef í flugvélum vona ég að morgunviðurinn hafi ekki látið á sér kræla. En ég gerði mig að nógu miklu fífli á stansted til þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af honum. Málið er að ég hafði einhverja átta tíma til þess að eyða í stansted og eftir einhverja tíu kaffibolla var ég orðinn helvíti þyrstur og þar sem írland er heimaland guinness ákvað ég að núa þeim þvi um nasir og fá mér guinnes í englandi. Þeystist á barinn og pantaði bjórinn. Fann laust sæti og spurði tvo menn sem sátu við borðið hvort ég mætti ekki tylla mér hjá þeim til þess að reykja með bjórnum. Þeir kinka jákvætt kolli og ég geri mig tilbúinn til þess að setjast. "En hvað gerist þegar bakpokar gera árás?!!!" Með bjórglasið í hægri hönd og bakpokann á hægri öxl á eftirfarandi atburðarrás sér stað: Bakpoki rennur af hægri öxl. Alla leið niður hægri upphandlegg og tekur sér stöðu í svonefndri olnbogabót (ef á fæti heitir það hnésbót þá hlýtur það að vera þannig!). Nú er líkaminn skrítið fyrirbæri og svo virðis sem þegar þungur hlutur tekur sér óvart stöðu í olnbogabótinni þá þeytast framhandleggur, lófi og fingur í átt að líkama. Prófaðu að slá í olnbogabót og sjáðu hvað gerist. Með fullt glas af bjór í hendinni þá er mjög líklegt að þú blotnir. Sem ég gerði. Allt glasið fór í andlitið á mér. Eftir nokkur vel valin blótsyrði á hvorki meira né minna en fjórum tungumálum (segið svo að háskólanám borgi sig ekki) náði ég að þurrka bjórinn úr augunum á mér og sjá mér til mikillar gleði að ALLUR barinn er að horfa á mig. Ég held að kynþokki hafi ekkert með það að gera. Ég tylli mér í bjórvott sætið og hugsa með mér að ég geti alla veganna drekkt sorgum mínum í þeim einum þriðja bjór sem eftir er í glasinu. Einhver réttir mér bréfþurrku og ég strýk framan úr mér restina af bjórnum. Þá gerist svolítið skrýtið, það er risablóðblettur í þurrkunni. Tekur þá nefið á mér sig ekki til og ákveður að fá þessar risablóðnasir. Það er jökulá af blóði sem rennur úr nefinu á mér og þarna sit ég einn og yfirgefin í útlandinu, bjórvotur með blóðnasir og engan stað til að fela mig á. Sem betur fer þá get ég hlegið að þessu í dag.

Hrósið fær annar gauranna sem sat á borðinu þar sem ósköpin dundu yfir. Hann rakst á mig seinna á öðrum stað í flugstöðinni og gaf mér thumbsup-merki. Sýnir hvað við karlmennirnir erum samrýndir.

No comments:

Post a Comment