Yndisleg helgi að baki. Það er ekki oft sem ég fer á sýningar en þessa helgina gat ég ómögulega látið framhjá mér fara stórsýninguna í höllinni. Helvítið hann Voelli Saeti(tm) var búinn að nauða í mér í marga mánuði að kíkja á sýninguna "konan". Það var að einhverju leiti forvitni sem að lokum sannfærði mig um að fara en svo var maður að vonast til þess að vel yrði veitt af fríu áfengi til þess að ég og Voelli Saeti(tm) kæmumst kannski á séns.
Það verður að segjast að þessi sýning opnaði heldur betur augu mín fyrir heimi kvenna. Hvort það hafi gert mér gott eða eyðilagt mig skal ósagt látið. Þetta var fyrst og fremst upplifun og á eftir að lifa með mér í minningunni. Og ekki má gleyma þeim tengslanetum sem við höfum komið okkur upp eða naglaísetningunni, ég hafði nú reyndar lesið í bæklingnum að þetta væri naglaásetning en þegar röðin kom að okkur þá komumst við að því að um var að ræða glænýjan hlut frá Hollywood þar sem gömlu neglurnar eru rifnar úr og nýjum plexiglas-nöglum komið fyrir. Ég held ég hafi aldrei grátið jafn mikið áður. En neglurnar á mér hafa aldrei litið betur út! Það var reyndar eitt á sýningunni sem ég fékk eiginlega enga góða útskýringu á, hvað er málið með konur og það að elta hvor aðra uppi með vaxræmur og vaxa hvor aðra? Svo veltust þær um af hlátri og skáluðu í meira rósavíni eða breezer.
Ég fæ kannski aldrei svar við þessu? Ég og Voelli Saeti(tm) reyndum þetta heima hjá honum síðar um kvöldið, eftir að hann hafði spáð fyrir mér í þessum fínu spábollum sem við versluðum okkur á sýningunni, en okkur fannst þetta aðallega bara vont. Þar að auki var ég á tímabili með tvær vaxræmur fastar í hárinu á mér og við þurftum að lokum að klippa þær úr. Spáin var samt ágæt og miðað við þau börn og ferðalög sem Voelli Saeti(tm) sá í bollanum þá ætti ég að liggja flatur undir heimamönnum í öllum þeim utanlandsferðum sem bollinn ætlar mér.
En aftur að sýningunni. Við nýttum okkur ekki einungis tækifærið að komast í ókeypis sýnishorn heldur hlýddum við með athygli á einkar skemmtilega og líflega fyrirlestra. Aldrei hefði mig grunað að konur hefðu svona mikið að segja! Það er kannski bara að ég hafi aldrei hlustað áður? Trommubreik og snerill! Það er gott á sjá hversu konur eru viljugar að ræða sín á milli hversdagslega hluti sem gætu legið á þeim. Ef ég ætti að nefna þá fyrirlestra sem heilluðu mig hvað mest þá myndi ég velja:
"Konur og hvalveiðar - hvað er svona kynþokkafullt við feita karlmenn?"
"Konur og karlmannsstörf - voru það ekki mistök hjá okkur stelpur?"
"Konur eru skart - leiðbeiningar til karlmanna hvernig má lífga upp á aukahlutinn"
"Hvað er málið með hræðilega smekk kvenna í bíómyndum, áfengi og tónlist?"
"Kynverund kvenna - goðsögnin um fullnægingu kvenna afhjúpuð"
Það var gaman líka að sjá hvað þær treystu miklu meira á myndræna framsetningu í stað þess að taka á hættuna á að stelpurnar í salnum misstu áhugann með of mörgum orðum töluðum eða texta úr skjávarpa.
Lágpunktur sýningarinnar var að mínu mati að fleiri keppnir hefði mátt halda. Gott og vel að keppt sé í förðun og naglaásetningu en hvað með gömul og góð áhugamál kvenna eins og matseld, prjónaskap og barneignir? Hvað með að stilla upp þremur óléttum konum og sjá hver þeirra gæti komið barninu út fyrst? Þar er keppni með blóði, svita og tárum. Gætu jafnvel prjónað í leiðinni.
Takk, stelpur, fyrir einstaklega skemmtilega og fræðandi sýningu.
No comments:
Post a Comment