Vill hún mig ekki?
Ég hallast að því Guðný vilji mig út af heimilinu. Ég er ekki alveg fullviss um það en það er ýmislegt sem gefur það til kynna. Eins og gærdagurinn. Ósköp venjulegur og lítið sem gerðist, þangað til ég lagði mig. Þannig er að ég var að lesa bók í rólegheitum inni í stofu og eitthvað virðist ég hafa lagt mikið á mig við lesturinn því ég steinsofnaði. Það hefur komið fyrir áður og ég hef aldrei fundið mig knúinn til þess að skrifa um það áður. Það sem á eftir gerðist er hins vegar vert að minnast á og vakti mig til umhugsunar hvort Guðný væri í alvörunni að fylgja eftir hótuninni "Ef þú kemur þér ekki út innan mánaðar, þá drep ég þig."
Ég vaknaði eftir um klukkutíma og það fyrsta sem ég tók eftir var að ég sá allt úr fókus. Gleraugun voru ekki lengur á nefinu á mér. Það er meira mál en margur heldur. Ég er nefnilega staurblindur án gleraugna. Þar sem ég hafði sofnað með þau að andlitinu þá þreifaði ég í kringum mig og á gólfinu fyrir neðan sófann. Engin gleraugu. Svo ég fór að hugsa, veit ekki á gott en stundum neyðist maður til þess. "Var ég ekki með gleraugun á mér?" Ég vissi að það stæðist ekki, hefði ekki einu sinni getað séð bókina í höndunum á mér án gleraugna. Lífinu lifi ég ekki án gleraugnanna svo ég skreið á stað í leit að þeim. Það gat ekki annað verið en þau lægu einhversstaðar á gólfinu í kringum sófann. Þar sem ég skríð um á gólfinu þá heyri ég eitthvað þrusk fyrir aftan mig. Ég sný mér snöggt við og sé skuggamynd Guðnýjar í dyrunum að stofunni. Hún segir við mig: "Ertu að leita að þessu?," og réttir út höndina til þess að sýna mér eitthvað. Ég er heppin að sjá höndina hreyfast úr fimm metra fjarlægð.
"Eru þetta gleraugun mín?," spyr ég. Ég býst við því að hún hafi kinkað kolli til samþykkis því hún sagði ekki neitt. Svo ég spyr hana aftur "ertu með gleraugun mín?" "Já," segir hún í þetta skiptið og ég heyri eitthvað skella á parketinu. "Hvað var þetta?," segi ég og sný höfðinu í allar áttir starandi út í tómið. "Úpps!," segir Guðný, "ég virðist hafa misst þau. Þetta er stórhættulegt. Það gæti einhver..." brothljóð " ...stigið ofaná þau ... æ æ æ." Ég spóla á stað á sleipu parketinu í áttina að henni. Þegar ég loks kemst upp að henni þreifa ég fyrir mér á gólfinu og finn þar gleraugun mín. Öll beygluð og glerin bæði brotin. Ég lýt upp til þess að reyna að sjá framan í andlit þeirrar Guðnýjar sem er svo ill að geta gert svona hlut. En ég þarf ekki að sjá framan í hana því kaldur illkvittinn hláturinn sem ég heyri koma frá henni segir allt sem segja þarf.
Ég er enn á hnjánum með leifarnar af gleraugunum í höndunum. Hún snýr sér við og býst til að ganga út úr stofunni en snýr sér við í dyragættinni og segir við mig: "Ég var ekkert að grínast. Ég vil þig út. Þú hefur verið varaður við. Næst verður það líkamlegt tjón." Svo gekk hún út.
No comments:
Post a Comment