November 21, 2006


Yfirvaraskegg

Hér á heimilinu er allt í hers höndum. Bókatíðindi komu inn um bréfalúguna fyrir helgi og við höfum ekki náð Breka af klósettinu síðan. Hið endalausa rifrildi um klám eða erótík hefur enga merkingu á okkar heimili þar sem klámblaðið er bókatíðindi. Lýsingar á bókum og smækkaðar myndir af kápum gera Breka greyið brjálaðan. Það eru allar þessar sexý lýsingar á bókum sem fá geirvörturnar á honum til þess að standa út í gegnum lopapeysuna. Hann hefur ekki þorað að líta í bók, ekki eftir slysið með Tár, bros og takkaskór hérna um árið. Hvað er að mogganum að birta úrdrátt úr bókinni og vera ekki með aðvörun á undan? Hann grét samfleytt í fjóra daga og reyndi að skera sig á púls með rifnu viskustykki.

Nú les hann bara eina bók á ári. Bókatíðindi. En svipurinn á Breka þegar hann les þau segir allt. Og það að hann lesi þau inni á klósetti líka. Sveitt efri vörin og hálfglottið (ásamt geirvörtunum) gefa til kynna hversu mikið honum likar bókatíðindi. Svo eru það öskrin sem koma út um lokaðar baðherbergisdyrnar. "Hver er lítil hraðfleyg spennusaga?!" "Ég sé það bara á kápunni hversu frumleg og munúðarfull saga þú ert!" "Talaðu við Breka frænda og segðu honum frá sambandi höfundar og lesanda... ætlarðu með mig í dans á milli skáldskapar og veruleika?!" "Hárfínn húmor! Ughh! Tragísk örlög! Stílbragð! Kalt vatn! Skinns! Hörunds!" "Bráðlifandi og kraftmikil skáldsaga!" Þetta þurfum við að hlusta á um nætur þegar hann heldur að allir sofi.

Við stöndum ráðþrota gagnvart því hvernig við getum læknað hann af þessu. Er hægt að tala um að menn "lendi í bókmenntaumfjöllunarklámi"? Senda hann á Vog og vonast til þess að þeir nái að berja þetta úr honum. Gæti orðið spennandi verkefni fyrir Þórarinn Tyrfingsson. Álfurinn seldur haldandi á litlum bókatíðindum á næsta ári.

No comments:

Post a Comment