Fallvaltar vinsældir
Þetta átti að vera árið sem ég yrði kosinn vinsælasta stúlkan í Hí. En mörg góð plönin ganga ekki upp og mér sýnist sem mín snilldaráætlun ætla að gera slíkt hið sama. Þetta leit vel út á pappír en verklegi hlutinn færði mér aðrar niðurstöður en ég hafði gefið mér. Sko. Sigta út sætu og skemmtilegu strákana og fara á deit með þeim. Ef allt gengur vel á stefnumótinu þá er aldrei að vita hvert nóttin leiðir mann. Þeir sem muna eftir mér bæði úr piparsveininum og ástarfleyinu vita hvað ég er að tala um. Ég er bara svo mikill sökker fyrir rómantík, rauðvíni og ilmkertum.
Allt gekk eins og í sögu til að byrja með. Kvöld eftir kvöld var ég á dýrustu og bestu skyndibitastöðum borgarinnar að bragða á dýrindis hamborgurum og kjúklingabitum með sætustu og efnilegustu drengjum háskólans. Flestir þeirra fengu einungis að fylgja mér heim að dyrum og hlutu koss að launum en nokkrir náðu þó að heilla mig það mikið að fá að gista nóttina í Túninu.
Mér leið eins og kóngi í ríki mínu, ég var vinamargur og með hverju kvöldinu bættist nýtt nafn í hópinn. Menn heilsuðu mér með nafni á kaffistofunni og nikkuðu til mín þegar við hittumst úti á götu. Þá fór að bera á öfundsýkinni.
Fyrst var þetta einungis pískur í nokkrum stúlkum, en breyttist fljótt í ill augnaráð og heilar ráðstefnur kvenkyns nema á göngum bæði aðalbyggingar og odda. Eftir því sem hatur þeirra á mér óx þá fóru vinirnir af listanum að detta út af sama skapi. Menn tóku sveig framhjá mér þegar við mættumst og ekki var ég lengur æskilegur sessunautur í kaffi- eða skólastofum. Stelpur geta verið svo grimmar þegar þær ráðast á mann. Ég sá að þær höfðu skrifað á speglana á klósettunum og varað bæði stráka og stelpur við mér.
Nú sit ég einn heima og enginn svarar sms-um frá mér. Ég þarf að finna nýja leið til að eignast vini.
No comments:
Post a Comment