April 9, 2007

Páskarnir gætu tekið við af jólunum

Margir sagnfræðingar eru sammála um að Jesús, eða D.J. ZúZ líkt og hann kallaðist áður fyrr, hafi ekki verið annað en skítugt ástandsbarn frá hersetu rómverja í Palestínu. Allir vita hvað varð úr Palestínu þegar hún óx úr grasi og veldur hún nú mér og fleiri löghlýðnum borgurum ómældri angist í hjarta og óöryggi vegna útbreiðslu hryðjuverka þaðan. Hver veit hvenær við lendum í hryðjuverkum? Það hlýtur að styttast í það, ég finn það á mér.

Finnst ykkur þetta ruglingslegt? Það gæti verið að ég sé enn undir áhrifum af sýrunni sem Guðm. Steingrímsson var að skrifa í fréttablaðið um páskana. Ég vil byrja að þakka honum fyrir að benda mér á að ég sé svona rosalega sólginn í vinnu að ég hef ekki tekið mér frí um páskana. Kannski þá líka um jólin Guðmundur? Gott ef þú gætir látið mig vita. Ég veit það núna til dæmis þegar ég var að vinna á skírdag hvað allir sem mættu til vinnu voru að tala um hversu miklir aumingjar aðrir íslendingar væru að vinna ekki á þessum degi. Það heyrðist ekki eitt orð um hvað fólk vildi miklu frekar vera heima hjá sér. Það virðist bara eins og fólk í þjónustustörfum hreinlega sækist í vinnu líkt og fíklar í eiturlyf.

Það skal ég láta þig vita minn kæri Guðmundur að það var ekki mín ákvörðun að hafa opið á þessum dögum. Það skal ég líka fræða þig um að þeir sem tóku þessa ákvörðun voru allir heima hjá fjölskyldunni yfir páskana. Svo kannski var það von þeirra sem eru í fríi heima hjá sér um gróða og þörf þeirra sem fastir eru í vinnu um nokkra þúsundkalla í viðbót um næstu mánaðarmót sem stjórnar þessu? En hvað veit ég. Ég hafði nefnilega ekki tíma til að liggja yfir námsbókunum yfir páskana. Ég var að vinna sjáðu til. Páskalambið fékk ég svo seinna um kvöldið þegar ég kom heim. Það heitir að vera fátækur námsmaður.

Hvaðan færðu að út að þeir sem vinna í hvað lægst launuðustu og vanþákklátustu störfunum séu með einhvers konar sameiginlegu átaki að reyna að taka réttmætt frí af restinni af þjóðinni? Er það þetta sem flaug í gegnum kollinn á þér þegar þú verslaðir í matinn á skírdag? "Mikið rosalega virðist erfitt fyrir þetta fólk að taka sér frí! Kann það ekki að slappa af og njóta lífsins?" Ætlarðu kannski að nota þetta þegar þú ferð í rúntinn með Samfó á vinnustaði að kynna málefnin? Prófaðu að benda þeim á að slappa af um páskana. Þetta sé ekki hægt með okkur Íslendinga, við verðum að kunna að slappa svolítið af. Ekki reyna að koma því yfir á goðsögnina um hversu rosalega eljusamir Íslendingar eru að þeir séu í vinnu um páskana. Hver einn og einasti þeirra hefði verið heima ef þeir hefðu átt möguleika á því. Ég skal hugsa til þín þegar ég verð í vinnu allan mánudaginn. Af því ég virðist bara ekki getað slitið mig eitt augnablik frá vinnu.

Að hugsa sér að þetta blogg átti nú bara að vera um nýjustu uppfinningu mína. Með hjálp frá Voella Saeta(tm). Hann átti hlut að máli og fær smá kredit. Nú verður heimurinn tekinn. HEIMURINN!! Við erum stórhuga núna, höfum þegar rætt við Davið Scheving sem býr að ómældri reynslu frá Sólar/Icecola-árum sínum og svo hafa einnig helstu MBA-sérfræðingar landsins sagt þetta einstaklega spennandi hugmynd. Hver er hún? Hver er hún? Rólegur félagi... hér birtist hún í fyrsta skipti og þar sem einkaleyfið er ekki enn gengið í gegn þá treysti ég á að þið misnotið ekki þessar upplýsingar.

Hinn íslenski mojito
eða Öxar við ána

1 teskeið sykur.
Safi kreistur úr tveimur kartöflum (50 ml.).
4 blöð af íslensku söl.
50 ml. Íslenskt Brennivín.
50 ml. Egils Sódavatn eða eftir þörfum.

Gott er að kremja söl með gaffli og maka í botn glasins. Til að gera drykkinn jafnvel enn girnilegri má skera rófu niður í báta og setja ofaní til skreytingar. Svo er bara að njóta!

No comments:

Post a Comment