May 4, 2003

Ég ætlaði að halda áfram þar sem frá var horfið í síðasta bloggi... ég var nefnilega truflaður og gat ekki klárað.

Þetta "Unga"-fólk er svona eins og litlar stelpur að leika Barbí. Búið að klæða þau í voða fín föt og láta þau hafa voða góða punkta til þess að tala um. Svo er bara að toga í strenginn sem er aftan á þeim og út koma skemmtilegar setningar sem markaðsmenn flokkanna hafa reiknað út að hafi áhrif. "Lækkum skatta", segja þau. "Meiri völd til unga fólksins", "Léttvín og bjór í verslanir". þessu eigum við síðan að gleypa og Ísland verður besta land í heimi af því að liltar strengjabrúður stóru karlanna ætla að koma sér á þing.
Dæmi nr.1: Guðlaugur Þór Þórðarsson. Var þessi maður einhvern tímann ungur??? Ég man ekki eftir honum öðru vísi en hann er í dag. Eins og hann hafi dottið út úr móður sinni fullklæddur í jakkafötunum með ásjónu fertugs karlmanns. Meðan aðrir krakkar á leikskólanum átu sand hefur hann verið að lesa "Bláa-kverið" og undirbúa sig undir líf í alþingishúsinu. Get ekki séð hann sem ungan og get því ómögulega kosið hann á þeirri forsendu.
Dæmi nr.2: Björgvin G. Sigurðsson. Í alvörunni, hvað er málið með hann??? Hvað er málið með röddina??? Á maður að taka hann alvarlega sem "ungan" stjórnmálamann af því að hann leggur sig allann fram við það að tala með djúpri rödd? Það að sjá "ungan" mann tala eins og sjötugur bæjarstjórnarmaður frá 20 manna þorpi lengst inni á miðhálendi er sorglegt. Ef það er það eina sem hann hefur fram að færa, þá er atkvæði mínu betur varið í annað.
Dæmi nr.3: Margrét Sverrisdóttir. Fertug móðir í Vesturbænum er ekki ungt fólk. Meira segi ég ekki. Veit ekki af hverju þeim datt það í hug að þeir gætu komið henni á framfæri sem "ungum" sjórmálamanni/konu. Ef þú ert nær mömmu minni heldur en mér í aldri þá hefurðu ekkert að gera með ungu fólki. Það er sorglegt.
Dæmi nr.4: Páll Magnússon. Endilega kíkið á allar auglýsingar framsóknar sem kynna hann sem "ungann". Svipað og þegar 2 eru lagðir saman við 2 og útkoman verður 5. Does not compute.

Ég legg til að stjórmálaflokkar endurskoði viðhorf sitt til "ungs fólks". Ekkert af þessu fólki talar sama tungumál og ungt fólk. Markaðsmenn flokkanna reyna svo að búa til voða flottar auglýsingar með þessu "unga" fólki sem á að hitta í mark. Því miður kunna markaðsfyrirtækin ekki tungumál unga fólksins heldur svo að auglýsingarnar enda með því að hljóma eins og samræður í sápuóperu. Illa framsett og þvingað.
Hvernig væri það að þetta "unga" fólk reyndi að mynda sér eigin skoðanir og bjóða sig fram á þeim forsendum. Þá væri kannski þess virði að hlusta á hvað þau hefðu að segja? Mér finnst alla vega leiðinlegt að þurfa að hlusta á þetta eins og þetta er núna, svona lélegar framlengingar af skoðunum helstu ráðamanna flokkanna.
Ég og þið erum betri en það að láta bjóða okkur þetta.

No comments:

Post a Comment