Fjórða skiptið...
Hér er góð saga. Þannig var að í febrúar hitti strákur stelpu. Hún mjög sæt og skemmtileg og hann... ekki alveg sætur en á það kannski einstaka sinnum til að vera skemmtilegur. Strákur lætur stelpu hafa símanúmerið sitt. Stelpa týnir símanúmeri. Gerist og ekkert við því að gera. Strákur gerir einhverjar tilraunir til þess að hafa uppi á stelpu aftur en það gengur frekar illa þangað til í júlí. Þau hittast.
Kemur í ljós að hún er að fara frá borginni og kemur ekki aftur. Hljóðlátt öskur og svo ekki meir. Nýta sér þann litla tíma sem eftir er. Af hverju ekki? Strákur og stelpa fara út nokkrum sinnum og fara saman í partý og svoleiðis. Stelpa virðist ekki mikið vilja gera en er dugleg að segja hluti eins og "verst að við hefðum ekki getað hist fyrr," "við eigum svo vel saman og ég þarf að fara," "það er svo gaman að hanga með þér." Strákur er svo sem ekkert að taka það alvarlega. Hún er hvort sem er að fara.
Um helgina gerist hún svo ákveðnari og kannski var það áfengið í kveðjuveislu hennar eða hvað veit strákur þá hugsar hann alla vegna með sér "andskotinn hafi það! Er hún að reyna við mig? Það er kannski möguleiki eftir allt saman?" Vegna ölvunnar hennar ákveður strákur samt að láta hana vera. Kannski góður kannski hræddur við eigin skugga. Svo líður laugardagur með skilaboðum og þau fara út að borða, sunnudagur mjög svipaður og hún býður honum með á ströndina á mánudegi. Strákur er sáttur. Skilur samt ekki alveg í stúlkunni að vilja hanga svona mikið með honum. Edrú þá dregur hún sig mjög í hlé.
Svo krakkarnir fara saman á ströndina og skemmta sér í sólinni. Strákurinn tekur samt eftir því að hún hagar sér einkennilega. Heldur sér alltaf í góðri fjarlægð sem hafði ekki gerst áður og.. allt mjög eins og þeir hefðu aldrei hist áður. Strákur hugsar með sér allt í lagi, það er pláss fyrir eina vinkonuna enn. Þegar dagur er hér um bil að kvöldi kominn segir stúlka að vinur hennar sem á heima í þessari borg ætli að líta við og fara með þeim að fá sér einn bjór áður en þau taka lestina aftur heim.
Nýi strákurinn mætir á ströndina og þau tvö fara og fá sér sundsprett. Tveimur mínútum síðar kemur stúlkan aftur úr sjónum og segir við strákinn: "Hérna... við tvö eigum eiginlega smá sögu saman.. hérna.. ég ætla að gista hjá honum.. er það allt í lagi þín vegna að þú takir lestina einn heim?"
Strákur hugsar með sér að það sé ótrúlegt að þetta sé í fjórða skiptið sem stúlka bíður í nokkrar vikur að segja að hún eigi "kærasta". Strákur tekur lest einn heim. Kannski ætti hann ekki að vera að reyna við stelpur ef þetta virðist ætla að enda alltaf á þennan veg?
Þeir segja að þú fáir hálsríg af því þegar þú vilt segja já og hreyfa hausinn þá upp og niður en skiptir um skoðun á síðustu stundu og segir nei og hreyfir hausinn til hliðanna. Næst þegar strákurinn spyr stúlku hvort hún eigi kærasta þá ætlar hann að fylgjast með því hvort stúlkan fái hálsríg eftir að hafa svarað. Lesa líkamstjáningu.
No comments:
Post a Comment