July 31, 2005

Engisprettufaraldur

Það er engisprettufaraldur í bologna. Þær eru út um allt og eru byrjaðar að sækja barina. Alþjóðavæðing eða eru þær að leita sér að maka? Þessu verða vísindamenn að svara. Þegar kennarinn var hérna í heimsókn þá fór ég með hann á írska barinn í háskólagötunni til þess að drekka bjór. Ég sá að hann var þyrstur. Svo ég er við barinn að panta tvo bjóra hjá þessari sætu barþjónu og segi við hana að ég vilji tvo stóra bjóra. Þögn. Ég fann að eitthvað hafði snert hægri öxlina á mér. Ég leit niður á öxlina og svo á stúlkuna sem starði á mig og spurði: "sást þú þetta líka?" Ég sem sá og sé ekki neitt sagði: "nei, en eitthvað snerti öxlina á mér." Samræður búnar svo ég geri aðra tilraun til þess að panta. Þá gerist nákvæmlega það sama, ég finn að eitthvað snertir öxlina á mér en í þetta skipti fer ekki á milli mála að barþjónan sá eitthvað því hún hleypur fram og til baka á barnum æpandi "engispretta! engispretta!" Og þá sá ég kvikindið, lítil svört engispretta sem sat í mestu makindum á brúninni á glasinu sem geymdi rörin fyrir kokteilana. (Hér ætla ég að leggja til að úfurinn verði kallaður kokteil héðan af.)

Við náðum að koma henni í annað glas og út fyrir. Og eftir fimm mínútur þegar stúlkan var búin að jafna sig tókst mér loksins að fá pöntunina afgreidda.

Inni í stofu núna er risastór græn engispretta. Ég þarf að reyna að koma henni út. Tíu sentimetra kvikindi. Eða þá að ég leyfi henni að horfa á formúluna með mér? Ákvarðanir.

No comments:

Post a Comment