November 30, 2005

Konur og Vímuefni

Sá þessa fyrirsögn hjá einhverjum hérna í há-skólanum. Ætli hún hafi ekki verið að skrifa ritgerð um þetta? Mig langaði alla vegna í bæði. Kannski saman, kannski í sitthvoru lagi. Svona er maður óákveðinn í dag. En samt ennþá fallegur hafið engar áhyggjur af því.

Er búinn að standa mig eins og hetja í því að koma íbúðinni hjá Guðnýju í gagnið. Með borinn í annari og hamarinn í hinni þá er ég búinn að setja upp hverja hilluna upp á fætur annarri og tengja rafmagnsvíra (fékk stuð) og setja upp viftu/ljósashow-dauðans.

- útúrdúr nr. 1. Hvað var málið með Skuggabörn og R.T. að kalla Amsterdam "Borg dauðans"? Kannski af því að myndin var stíluð inn á vænisjúkar húsmæður í úthverfum? Gæti það verið? Héðan í frá ætla ég að kalla Hveragerði "Bæ dauðans" af því að sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að einhver labbi inn á hverasvæðið og detti ofaní og sjóði sjálfan sig. Svo ætla ég að kaupa 100 grömm af hveravatni og smygla til rvk. Fæ samt samviskubit og gef mig fram við tollgæsluna. Ég gæti gert heimildarmynd um þetta og hún yrði örugglega meira spennandi og merkilegri heldur en skuggabörn. hér er úrdráttur úr handritinu:
"... en náttúran er óvægin og það má aldrei hafa af henni augun. Á hverri mínútu láta fleiri hundruð manns lífið vegna hamfara. Náttúruhamfara (Klippt inn skot af hver sem gýs beint í myndavélina. Helst að það komi dropar á linsuna.).
- Laufey Lind Lind Lárusardóttir: "Það var þannig að ég og Gísli Grani eiginmaður minn vorum á kvöldgöngu með Hund, hundinn okkar, þegar við tókum eftir því að við horfðumst það stíft í augun að við höfðum ratað af göngustígnum og inn á virkt hverasvæði (fá leikara og hund til að endurgera gönguferðina). Gísli Grani tekur þá í öxlina á mér og biður mig um að fara varlega þar sem hvert okkar skref gæti orðið það síðasta.... (Nærmynd aftur af hver að gjósa. Nú í myrkri)"
- Gísli Grani: "Ég sá að hverinn var þarna í um það bil 100 metra fjarlægð en vissi af bituri reynslu að það er engu óðslega farið þegar átt er við náttúruna. Ég sá gufuna af hvernum læðast í áttina að okkur, eins og hún væri að leita að okkur, og þegar hún var í um það bil 95 metra fjarlægð þá vissi ég að ég yrði að koma Laufey Lind Lind þaðan í burt. Svo ég herti ólina hjá Hundi þangað til það leið yfir hann og svo bar ég hann upp að vitum mér til þess að anda í gegnum þykkan feldin og vera þannig viss um að hin lævísa gufa sem ég sá nálgast myndi ekki verða þess valdandi að ég missti meðvitund. Með hundinn fyrir vitunum setti ég svo ólina á Laufey Lind Lind og sagði henni að fara niður á fjóra fætur til þess að geta rakið slóð okkar til baka. Þannig fikruðum við svo okkur áfram, skref fyrir skref, Laufey Lind Lind á fjórum fótum og ég á eftir ríghaldandi í ólina þangað til við að lokum náðum út fyrir girðinguna sem átti að afmarka hitasvæðið. Ég get ekki lýst því hversu ánægður og glaður ég var að komast loks þaðan út og það að allir skildu vera heilir á húfi. Hundur náði sér nú fljótt aftur eftir að ég hafði sett ilmsölt undir trýnið á honum, ég var svolítið skelkaður eftir lífsreynsluna og með útbrot á efri vörinni vegna ofnæmis sem læknar hafa rekið til nýja hundasjampósins sem við höfðum keypt af internetinu."
-Sætasti heimildamyndagerðarmaður í heimi (Ég): "En hvað með eiginkonu þína?"
-"Já hún Laufey Lind Lind. Mig minnir að hún hafi hlotið þriðja stigs bruna á lófunum, hnjánum, sköflungi, rist og hægri hluta líkamans eftir að hún rataði af réttri leið, eins og segja má ha ha ha ha, og ofaní einhvern smápoll af heitu vatni."
(skipt yfir á sæta heimildamyndagerðamanninn og hann talar í myndavélina)
-Við fórum á stúfana og leituðum svara. Hvar liggur ábyrgðin? Erum við hér enn og aftur að sjá ríki og bæ standa ráðþrota gagnvart hættum sem leynast í umhverfi okkar og enginn þorir að taka af skarið gegn? ....."

Mín heimildarmynd á eftir að rokka.

Næst ætla ég að gera svo heimildarmynd um forræðishyggju dauðans. Það hvernig er að búa á Íslandi í dag. Fylltist hatri á þessu ríkisbákni sem þetta land er þegar ég horfði á fréttirnar í gær. Tvær ástæður: Sú fyrri var þessi ákvörðun að banna íbúfen og parkódín. Seinni er sá asnaskapur að leyfa ekki sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum. Ég lofa að skrifa um það á morgun. Hér er komið nóg í bili.

No comments:

Post a Comment