February 1, 2008

Enchufe

Skspánverjar eiga orð, enchufe, sem hefur þá merkingu að þú annaðhvort þekkir einhvern eða getur notað eitthvað sem þú lumar á til þess að koma hlutum í gegn. Ég notaði þetta tromp í dag.

Málið er að mig vantaði kennitölu. Sú skspænska kallast NIE. Við höfðum reynt í 3 vikur að koma mér í viðtal hjá útlendingastofu svo ég gæti fengið úthlutað NIE. Þrjú símanúmer voru gefin upp og í þrjár vikur hafði enginn haft fyrir því að taka upp símtólið þegar við hringdum.

Í gær gerðist það svo að mér var boðin skítavinna sem hjálpar til að borga reikninga þangað til annað betra finnst. Sá böggull fylgdi skammrifi að til þess að ég gæti fengið vinnuna og samninginn sem henni fylgir þá var nauðsynlegt fyrir mig að hafa þessa blessuðu NIE-tölu.

Nú voru góð ráð dýr. Engin NIE, engin vinna. Nokkrum tölvupóstum síðar kom í ljós að móðir einnar vinkvenna spanjólunnar þekkir mann sem er yfirmaður Rúmeníu- og Suður-Ameríkudeildar útlendingastofu. Svo við sendum tölvupóst til að athuga hvort eitthvað sé hægt að gera.

Í morgun náðum við svo loksins sambandi við Evrópusambandsdeild útlendingastofu og fáum bókaðan tíma fyrir mig. Í apríl. Opin landamæri og tækifæri í sameinaðri Evrópu.

Góð ráð höfðu fylgt verðlagi og hækkað all snarlega. Svo eftir einhverja tölvupósta í morgun náðum við að koma á fundi milli mín og þessa manns hjá "útlendingastofu meiri útlendinga en evrópubúa." Þangað fór ég vopnaður engu öðru en vegabréfinu og smekklegu bláu bindi. Nei, Chazz, ég gleymdi ekki brosinu.

Á skrifstofunni voru mér svo rétt tvö eyðublöð sem ég var beðinn um að fylla út og skokka svo með annað þeirra í banka ("hvaða banka sem er" skv. útlendingastofu skspánverja) og snúa svo aftur. Ég þakkaði fyrir og skundaði út til að fylla út eyðublöðin. Það tók u.þ.b. tvær mínútur. Svo labbaði ég í næsta banka sem ég fann.

Eftir einhverja bið þá var röðin komin að mér hjá gjaldkera. Ég, vopnaður brosinu Chazz, rétti fram eyðublaðið sem er númer 790 og sérstaklega gert fyrir þá sem sækjast eftir NIE-númeri. Gjaldkerinn leit á blaðið og svo á mig. "Þetta getur þú ekki borgað hjá okkur!" Ég, furðu lostinn, spyr í einfeldni minni: "Af hverju ekki?" Hann horfir á mig og tjáir mér: "Til þess að borga þetta þetta gjald þá verður þú að gefa okkur upp NIE-númerið þitt. Ef þú hefur ekkert NIE, þá geturðu ekki borgað."

Svo ég tók af honum blaðið og fór út. Hmmmm.... hugsaði ég með sjálfum mér. Ég get ekki borgað gjaldið til þess að fá útdeilt NIE-númeri nema mér hafi verið útdeilt NIE-númeri. "Catch 22" hugsar Voelli Saeti(tm) með sér á meðan dEeza segir "You can´t make this shit up!"

Þremur bönkum síðar með sama svar og einum sem sagði mér að fyrir þá væri það ekkert vandamál, bara að klukkan væri orðin tólf og þeir hættu að afgreiða þessi eyðublöð klukkan ellefu.

Fann loksins erlendan banka sem gat hjálpað mér. Nú er ég stoltur eigandi NIE!!! Ég er orðinn hér um bil fullkominn skspánverji.

Í Suður-Evrópu þá virka hlutirnir svona. Ég elska Suður-Evrópu.

No comments:

Post a Comment