Jú, ég verð bara að sætta mig við að það er mánudagur.
Helgin er búin og skólaþunglyndi sækir í sig veðrið. BLEH!
Annars var þetta fínasta helgi. Byrjað á því að henda sér í BlúLagún með skítölsku mafíunni sem er orðinn 8 manna hópur. Of mikið segi ég og hef látið Ríkislögreglustjóra vita af því hvað er hér í gangi. Hann lofaði mér því að víkingasveitin yrði send í málið, reyndar ekki vopnaðir byssum, heldur yrðu gúmmíkylfur og piparsprey notað til þess að hafa hemil á þeim. Eníhú, þá var loksins hægt að éta um kl.10 á föstudagskvöld. Svo hófst drykkja. Var nú ósköp dannaður í drykkjunni enda eru þessir útlendingar ekki vanir því að drekka á íslenskan máta. Vildi ekki hræða þá. Svo var haldið út á lífið, heimsóttir staðir sem ég hef aldrei komið inn á og efast um það að ég snúi þangað aftur. Sá staður sem mest sló mig er Felix, eitthvað rangt við stað þar sem 85% gesta er klæddur í hvítt. Auk þess sem ég hef ekki náð mér almennilega eftir að hafa hlustað á eftirfarandi samtal inni á klósetti þar.
Gestur 1(talandi um vin sinn): Maður pissar bara ekki á puttana, skilurrru?
Gestur 2: Já.
Gestur 1: Þetta er eins og Eiður Smári.
Gestur 2: Að hann hitti alltaf?
Gestur 1: Ha? Já, hann hittir alltaf. En skilurrru, maður gerir það sem maður fær borgað fyrir að gera? Maður pissar ekki á puttana.
Ef einhver getur bent mér á tilganginn? Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju vinur þeirra fær borgað fyrir það að pissa ekki á puttana á sér?
Laugardagurinn var svo meira eins og allir aðrir laugardagar. Drukkið með Listasmiðnum Völundi ásamt PíTí og Berki. Svo var það 22 fram að sólarupprás. Svo Nonni til þess að eiga nóga orku til að labba heim.
P.s. Þakkir fær sú góða stúlka sem labbaði upp að mér á Hverfisbarnum til þess eins að segja mér að ég væri gullfallegur. Endurbyggði sjálfstraustið hjá mér. Næ ekki glottinu af andlitinu og á ekki eftir að ná því næstu vikurnar. Held ég eigi aldrei eftir að komast að því hvað sá góði maður sem borgaði henni til þess að gera þetta heitir en ég þakka samt fyrir.
No comments:
Post a Comment