Æsispennandi stúdentapólitík!!!
Eins og öllum góðum stúdentum sæmir þá reyni ég hvað ég get til þess að fylgjast með hvað er að gerast í mínum hagsmunamálum. Það vill svo til að tvær fylkingar eru langstærstar og skiptast um það að fara með stjórn. Önnur heitir Vaka og hin heitir Röskva. Linkarnir hér að ofan leiða ykkur inn á síður sem hafa að geyma stefnumál þeirra fyrir veturinn. Þar sem ég var mikið var við í síðustu kosningum er sá tími sem hvor fylkingin fyrir sig eyðir í það að ata hina aur og yfirlýsingar um það að hagsmunum stúdenta væri betur varið hjá Lín heldur en andstæðingunum í Stúdentaráði.
Svo það sem ég spurði sjálfan mig nú er einungis þetta. Hversu mikill munur er raunverulega á stefnumálum fylkinganna? Kíkjum á það.
Byrjum á máli málanna, djöfullinn sjálfur í stofnanamynd Lánasjóður íslenskra námsmanna. Vaka segir ekki mikið frá því hvað þeir vilji gera en vill "ná frekari árangri". Röskva aftur á móti sparar ekki yfirlýsingarnar og ætlar að ná árangri á hverju einasta sviði. Hærri grunnframfærslu og frítekjumark og það að þjónusta Lín verði bætt eru meðal helstu mála. Býst samt við því að Vaka samþykki þessi mál sem mikilvæg.
Næsta mál er húsnæðis- og aðbúnaðarmál. Þar vill Vaka segir okkur það að biðlistar á stúdentagörðum séu langir og mikil eftirspurn eftir ódýru leiguhúsnæði á meðal stúdenta. Þá vitið þið það, hef ekki hugmynd um það hvort þeir ætli að reyna að útrýma biðlistum eða lengja þá? Ætla samt að reyna að tryggja nægilegt lespláss í byggingum skólans. Röskva vill bæta lesaðstöðu, fleiri stúdentagarða og lækka leigu á görðunum.
Þýðir ekki að stoppa hér þar sem krakkarnir hafa verið duglegir, snúum okkur því strax að næsta málefni sem er samkeppnisstaða HÍ gagnvart öðrum háskólum bæði erlendum og innlendum. Skemmst frá því að segja að hér eru báðar fylkingar með það að leiðarljósi að samkeppnisstaða HÍ verði styrkt. Ekkert sem hægt er að bæta við það.
Svo kemur að samskiptum kennara og nemenda. Röskva vill meiri nánd við kennara. Vaka vill aukið samstarf milli kennara og nemenda. Hér legg ég til að fylkingarnar taki höndum saman og stefnan verði tekin á "Nánara samstarf milli kennara og nemenda", þannig færi Röskva nándina og Vaka samstarfið.
Stefna fylkinganna í atvinnumálum eru alltaf áhugaverð og því skulum við skoða þau aðeins. Vaka leggur til aukins samstarfs við atvinnulífið þar sem stúdentar og Háskólinn verði að taka frumkvæðið. Röskva hallast að því að best væri að auka samstarf atvinnulífsins og Háskólans, jafnvel með skattaafslætti til handa fyrirtækjum. Ever had Deja vu???
Verð reyndar að skjóta því hér inn að mér finnst ég svolítið vera að endurtaka mig í sífellu. En við skulum nú ekki dæma of fljótt.
Það næsta sem ég rakst á er stefna fylkinganna í jafnréttismálum. Þar leggur Vaka til að áherslunum verði örlítið beint frá jafnrétti kynjanna og augunum beint að stöðu annarra hópa. Röskva vill halda áfram að styðja við bakið á þeim sem eru lesblindir, heyrnaskertir eða búa við annars konar fötlun. Þetta málefni gæti ég aðstoðað með ef báðir aðilar væru til í að hlusta á mig og ég geng þá út frá því að hóparnir sem Vaka talar um eru svipaðir og þeir sem Röskva vill aðstoða. Þetta gengur út á eina mjög auðvelda setningu, reyndar er ég furðu lostinn að enginn hafi tekið eftir því hvað hún gæti gert mikið. Pælið í þessu, Allir einstaklingar hafi jafnan rétt til náms. Berjist fyrir því að fá það samþykkt, þá ætti að vera auðveldara að krefjast umbóta ef umbóta er þörf.
Ég ætla að henda hér inn einu máli til viðbótar sem báðar fylkingar leggja áherslu á. Þetta eru mál sem lúta að öryggismálum nemenda........... Vitið þið það að ég nenni ekki að þykjast lengur. Nákvæmlega það sama. Bæta öryggismál við Háskólann þar sem þeim hefur ekki verið sinnt nægilega síðustu misseri. Enn eitt stefnumálið sem er hér um bil nákvæmlega eins orðað og fær mig til þess að velta því fyrir mér hvers vegna þær bjóða ekki fram saman?
Reyndar þá er eitt MJÖG STÓRT mál sem Röskva ætlar að berjast gegn en Vaka sýnir okkur nemendum þá lítilsvirðingu að minnast ekki einu sinni á það. Það eru skólagjöld, hvort taka eigi þau upp. Það vekur hjá mér óskaplega mikla reiði þegar Vaka, sú fylking sem fer með formennsku í stúdentaráði og sigraði í síðustu kosningum, minnist ekki einu orði á skólagjöldin í sínum stefnumálum. Ég vil einungis benda þessu góða fólki á það að ef það er þeirra vilji að taka beri upp skólafgjöld við Háskólann þá geta þau strax tekið út setninguna: "Eitt af mikilvægustu málum Stúdentaráðs er að tryggja öllum stúdentum jöfn tækifæri til náms, án tillits til kynferðis, efnahags, þjóðernisuppruna eða stöðu að öðru leyti." HVERNIG á það að hjálpa þeim sem sem búa við bágan efnahag að tekin verði upp skólagjöld???? Ekki segja mér það að skýringin yrði: "Lánasjóðurinn". Er sem sagt betra að nemendur þyrftu að taka hærri lán einungis til þess að "öðlast réttinn" til þess að stunda nám við háskóla? Hvar er þá jafnréttið? En hvað er ég að segja? Það er ekki alls víst að Vaka vilji taka upp skólagjöld, það er bara það að þeim fannst það ekki nógu merkilegt mál til þess að minnast á.
Ég ætla að senda póst til þeirra og fá þetta á hreint. Mér er ekki stætt á því að vera í sama skóla og fólk sem hugsar þannig.
Þannig að komið hefur í ljós að það eru tvær fylkingar í stúdentaráði sem geta ekki unnið saman en hafa þó óþægilega líkar skoðanir. Hvað eru þau að rífast um og af hverju þurfum við hinir stúdentarnir að vera dregnir með í vitleysuna? Nú þarf maður að skoða hvað gerist á fundum hjá þeim. Þangað til að ég hef fengið afstöðu Vöku í skólagjaldamálinu og lesið fundagerðir bið ég ykkur vel að lifa.
No comments:
Post a Comment