November 4, 2004

Mannlegi síminn!!!

Loksins kemst ég inn aftur. Mér hefur verið haldið nauðugum utan utan Bloggers. Fékk bara upp skilaboð sem sögðu í sífellu: "sendu okkur póst og segðu okkur hvað þú gerðir vitlaust". Hvað hef ég ekki gert vitlaust? Það á eftir að taka þá nokkrar vikur að komast í gegnum þennan sálarflækjupóst sem ég sendi. En þar sem ég hafði allan þennan lausa tíma frá bloggi tókst mér að gera tvo hluti, flytja og finna á mér blöðruhálskirtilinn.

Nú er ég fluttur í almennilega piparsveinsíbúð... rétt tæpur metri frá eldhúsborðinu að rúminu. "Skóflaðu þessu í þig vinan, rúmið bíður." Varla hálfur metri í sjónvarpið frá rúminu. "Farðu bara að sofa, ég ætlað að ná endanum á CSI." Það er til forleikur ("viltu sjá þriðju geirvörtuna?") en ekki eftirleikur! Af hverju? Hvað eru þeir að fela? Hvern eru þeir að vernda? Hvað er ekki sexí við hlaup með handklæði og rifrildi um hver sefur á ákveðnum bletti. Ég er bitur maður með tjörutyppi svo ég held ekki áfram með þetta.

Ég sný mér frekar bara að búðinni. Þrjú atriði sem hafa átt sér stað sem eiginlega hafa haldið í mér lífinu. Í búðinni það er að segja. Hefur allt með trúgirni fólks að gera.... og þá staðreynd að ég er að vinna með krökkum sem eru 11 árum yngri en ég. Gúlp! heyrist í tobbaliciousi þar sem hann reynir að vinna sér inn aukapening á Hlemmi.

Í fyrsta lagi var ég að vinna með litlum strák sem var að leysa eldri bróður sinn af. Þar sem ég hafði ekki mikið við hann að segja hélt ég mér bara út af fyrir mig og þóttist vera að vinna. Nema hvað ég þurfti alltaf að sækja kaffi(líki) og þar sem vélin er staðsett við hliðina á kassanum rakst ég alltaf á kvikindið. Í hvert einasta skipti sem ég náði í kaffi sá ég að augun í honum urðu alltaf örlítið opnari og tárvotari. Þegar ég sá hann var alveg að bresta í grát aumkaði ég mig yfir hann og ákvað að tala örlítið við hann.

"Svo þú ert bróðir hans Sindra?"
"Ha?! Já." (þetta verður að lesast með smá mútuhreim)
"Hvenær byrjaði hann aftur að vinna hérna?"
"Ég.... ég... sko held það hafi verið fyrir ári síðan."
"Svona langt síðan? Mér finnst eins og það hafi verið í gær... sérstaklega út af þessu atriði með gömlu konuna."
"Ha! Hvaða atriði?"
"Æ.. ég veit ekki hvort ég eigi að segja þér það? Þetta er svolítið vandræðalegt fyrir alla aðila. Ertu viss um að þú viljir heyra það?"
"Jaaá.."
"OK. En þú ferð ekki með þetta lengra. Þegar hann var nýbyrjaður hérna þá voru vandræði með hann og konu hérna af elliheimilinu á móti. Það virðist sem svo að hún hafi orðið ástfangin af honum. (litli strákurinn orðinn opinmynntur og skein í teinana) Hún kom alltaf í búðina þegar hann var að vinna og hékk bara við kassann. Án þess að gera nokkuð. Þangað til hún fór að færa sig upp á skaftið og bjóða honum peninga til þess að kyssa sig."
"Ha! Nei! Glætan! Ég trúi þér ekki!"
"Jú í alvörunni. Endaði með því að verslunarstjórinn þurfti að fara yfir og tala við gömlu konuna. Við eigum þetta til á öryggismyndavélunum. Hlógum eins og bjánar yfir þessu."
"Nei, ég trúi þér ekki."
"Þú þarft ekki að trúa mér, spurðu bara bróður þinn. Ég trúi því ekki að hann hafi ekki minnst á þetta! Kannski hann skammist sín svona?"

Eftir þetta fór ég inn í búð og skildi hann eftir til þess að hugleiða þetta. En í hvert skipti sem ég kom að kassanum minntist ég alltaf á þetta, helst þá að hann ætti ekki að minnast á þetta víst bróðir hans skammaðist sín svona. Þetta æsti hann einungis meira. Þangað til hann sprakk og grátbað mig um það að fá að hringja í bróður sinn, sem ég leyfði honum auðvitað. Ég hefði viljað heyra það þegar hann spurði bróður sinn hvort einhver gömul kona hefði reynt að borga honum pening til þess að fá að kyssa sig. Alla vegna þá var hann eitthvað pirraður út í mig eftir að bróðir hans hafði neitað þessum ásökunum. Skil ekki af hverju?

No comments:

Post a Comment