Úthugsað
Ok. Ég er vaknaður snemma. Get ég eitthvað unnið með það? Búinn að setja bækurnar á borðið og allt ætti nokkurn veginn að vera klárt í lærdóm. Það eina sem vantar er ég fyrir framan bækurnar. Kannski að opna þær líka? Öll þessi vinna framundan! Ég er strax örmagna. Það er svo lýjandi að vera ég.
Ákvað loks að skoða þennan bækling sem kom inn um lúguna fyrir einhverjum vikum síðan um kynferðislega misnotkun á börnum. 7 skref til þess að gera foreldra og börn vænissjúk.
"Kenndu barninu að það má segja nei við hvern þann sem reynir að snerta það."
"Segðu barninu að fólk sem það þekkir, treystir og elskar gæti reynt að snerta það á óviðeigandi hátt. Leggðu áherslu á að flestir fullorðnir myndu aldrei gera þetta og vilja börnum allt það besta."
Hvað á maður að segja? "Palli minn, passaðu þig á honum afa þínum. Við vitum ekki nema hann sé vís til þess að snerta þig á óviðeigandi hátt. Feikaðu það bara að þykja hann skemmtilegur en láttu mig vita ef hann er eitthvað að snerta þig. Ég bara treysti honum ekki." I don´t know.
Ég veit að þetta er erfitt mál og ekki óska ég neinum þess að þurfa að takast á við það á nokkurn hátt, en þessi bæklingur er aðeins of...
Þá held ég sé best að maður hleypi bara börnunum ekki út úr húsi. 34% eru víst misnotuð af fjölskyldumeðlim. Slíta sambandi við fjölskylduna. 59% af vinum fjölskyldunnar. Slíta sambandi við vini og passa sig á því að eignast ekki fleiri. Stór hluti misnotaður af eldri eða stærri börnum. Passa sig að barnið eigi bara litla og minni vini. EN... þá gruna allir barnið manns um misnotkun... Passa að barnið eigi enga vini. Fólk sem misnotar börn lítur út og hagar sér rétt eins og allir aðrir. Passa það að barnið fari ekki út úr húsi. Þeir sem misnota börn dragast að stöðum þar sem líklegt er að þeir komist í návígi við börn; s.s. í íþróttafélögum, trúarstarfi, umgmennahreyfingum, tómstundastarfi og skólum. Passa að barnið stundi ekki íþróttir, sunnudagaskóla, fari í sumarbúðir eða skóla.
Sko! Ég er nokkuð viss um að ég sé tilbúinn þegar ég eignast börn. Með allt á hreinu. Með því að útiloka umheiminn, kenna barninu í heimakennslu og hafa barnsmóðurina undir stöðugu eftirliti (mental note: setja upp öryggismyndavélar á heimilinu) þá má alveg komast hjá misnotkun.
En hvað með önnur börn? Er eitthvað sem ég get gert? Bæklingurinn segir mér; "Það getur lent í því að það kvikni hjá þér grunur um misnotkun án þess að þú hafir neinar sannanir í höndunum. Að öllum líkindum hikarðu við að leggja fram formlega kæru sem byggir eingöngu á því að þú hefur eitthvað á "tilfinningunni". Það er því rétt að undirstrika það að yfirleitt er þessi "tilfinning" á rökum reist." Kæra alla í götunni. Náði því.
Er ekki bara betra að halda góðu sambandi við barnið? Án þess þó að gera það skíthrætt við ættingja, vini og skólastarfsmenn.
"Góð samskipti milli þín og barna þinna er besta leiðin til að vernda þau gegn kynferðislegu ofbeldi. Traust og gott samband býr til þægilegt andrúmsloft þar sem börn eru ekki hrædd við að leita til foreldra sinna." Þetta er besti punkturinn í þessum blessaða bæklingi. Brillíant punktur. Tala saman.
Ég verð eiginlega að þakka fyrir það að þessi bæklingur var ekki kominn út áður en ég fór sem au pair. Hvers konar sick bastard var ég eiginlega að hanga með börnum í 8 mánuði, oft einn með þeim. Mig hryllir við sjálfum mér og er búinn að tilkynna mig til barnaverndarstofu. Ég hlýt að vera í áhættuhóp? Það getur ekki verið eðlilegt að karlmaður kominn yfir tvítugt vilji vinna með börnum nema eitthvað illt liggi að baki?
No comments:
Post a Comment