November 17, 2004

Spurning um siðferði?!

Í gær var ég á vaktinni í KB-Borgarnesi og allt leit út fyrir að þetta yrði tíðindalítil vakt. Sem hún reyndar var fyrir utan einn atburð. "Úhú! Útburður," hugsar einhver með sér, en því miður nei. Útburðurinn kemur í janúar.

Sagan. Ég var á kassa í gær. Þegar ég tek að mér kassann á ég alltaf á hættu að rekast á fólk sem ég þekki og/eða kannast við. Í gær kom drengur í búðina sem ég þekki, var með honum í bekk í menntaskóla í þrjú ár. Hittumst sem sagt augliti til auglitis á hverjum degi. Þetta er skal haft í huga. Ef það er hægt að segja eitthvað um menntaskólagöngu mína þá er það að fólk man eftir mér(ekki endilega af góðu).

Svo drengurinn er þarna með móður sinni að versla og þau koma að kassanum. Hann horfir á mig lengi og ég tek á móti augnaráði hans. Hann kannast við mig. Því verður ekki neitað, það sést alltaf á svipnum. Ég tek svo eftir því að hann rekur augun í nafnspjaldið hjá mér og sér að þar er skrifað "Emil". Við þetta hættir hann að glápa á mig og fer í það að raða í pokann. En hann er ekki sáttur og kastar fram þessari spurningu (hann verður héðan í frá kallaður Agnar):

"Agnar": "Ekki vill svo til að þú sért skyldur strák sem heitir Þorvaldur?"

Ég hætti öllu. Sný mér að honum og næ góðu augnsambandi við drenginn þar sem hann stendur og raðar í poka.

ég: "Nei. Ég þekki engan Þorvald."

Nú held ég áfram að renna vörunum í gegn líkt og þetta stutta samtal hafi aldrei átt sér stað. En hann er ekki alveg hættur.

"Agnar": "Þú ert bara svo rosalega líkur honum!"

Mamman: "Hver er þessi Þorvaldur?"
"Agnar": "Strákur sem var með mér í menntaskóla."

Samræður búnar. Skiptst á peningum og vörum. Þau fara. Mínum degi bjargað. Var eins og glottandi fífl það sem eftir var kvöldsins.

Spurningin er samt hvort ég hafi farið of langt í þetta skiptið? Nei, þetta er viðbjóðslega fyndið. Ég hlæ enn.

No comments:

Post a Comment