February 18, 2004

Einn.. en samt ekki.

Það er á dögum sem þessum sem ég sakna Paolo litla. Fyrir þá sem ekki vita er Paolo lítill munaðarlaus drengur sem býr fyrir utan heimili Deezu á eynni Sardínu. Langt, langt suður í höfum. Þar sem pálmar vaxa villtir og börnin klæðast tötrum. Paolo var alltaf jafn samviskusamur og mættur á hornið sitt á slaginu átta til að betla sér inn svo sem eins og einn bolla af matarolíu, jómfrúar að sjálfsögðu, eða sígarettu til að ná úr sér óbragðinu af versta hungrinu. Ótrúleg harka í þessum smástrákum þarna úti. Þeir virðast ekkert þurfa að borða.

Ég er nú ekki hjartalaus maður og laumaði nú endrum og eins að honum eins og tveimur sígarettum til þess að geta fengið að sjá gleðina og þakklætið sem skein úr augu litla atvinnuleysingjans. Hafði líka gaman af því að segja honum frá því að svona myndum við aldrei láta koma fyrir á Íslandi. Þar gæti hann týnd nautasteikur og meðlæti af næsta tré. Hann þyrfti aldrei að upplifa hungur. "Hugsaðu þér nú Paolo minn, þrisvar á dag myndirðu borða fylli þína. Naut, lamb og fiskur í öll mál. Ég er orðinn hungraður af því að hugsa um allann matinn sem bíður mín þegar ég fer til baka. Kannski ég fái mér eitthvað að borða? Sjáumst Paolo minn."

Svo skildi ég við strákinn og kom mér vel fyrir á næsta pizzustað og... jú fékk mér tvær pizzur, svona til heiðurs Paolo. Hvað ég hafði llíka gaman að því að segja honum svo frá því þegar ég hitti hann á bakaleiðinni hversu góðar pizzur væri hægt að kaupa sér þarna í heimaborg hans. "Ef þú værir nú bara að vinna Paolo minn? Hugsaðu þér hvað þú gætir keypt þér margar pizzur þá!" Svo lét ég hann hafa eina sígarettu til þess að sýna honum að í þessum harða heimi er til fólk sem veit enn hvað samhjálp er.

Paolo litli. Nú hugsa ég til þín á þessum rigningardegi í Reykjavík. Sendi þér eina andlega sígarettu. Vonandi reykirðu hana af sömu áfergju og þú gerðir þegar ég stóð við hlið þér og sagði þér frá hinum gullnu högum Íslands. Láttu nú ekki slá að þér.

Er annars þunnur af síþreytunni í dag. Var nefnilega í vinnu í gær. En líkt og marga aðra daga þá fann ég mér skemmtilega hluti að gera til þess að eyða tímanum meðan ég var á vaktinni. Fann upp leikinn: "Rauðir foreldrar." Leikreglur eru mjög auðveldar og þær útskýri ég örlítið seinna. Fyrst að þátttakendum. Börn: 1-3 (ef börnin eru fleiri en þrjú getur leikurinn orðið blóðugur). Foreldrar: 1-2 (best ef þau eru saman hjónin). Herra Gjafmildur (Í þetta skiptið var það ég). Tæki: Hlutir sem börn girnast. T.d. leikföng eða nammi. Má ekki vera ókeypis, helst á meira en 1000 krónur. Leikreglur eru mismunandi eftir því hvort spilað er eftir handbókinni eða þá fyrir lengra komna, Panama-reglur. Reglur handbókarinnar ganga út á það að leyfa leiknum að stjórnast af sjálfum sér. Herra Gjafmildur hefur leikinn og lætur síðan eftir börnum og foreldrum hvernig útkoman verður. Getur orðið stutt en oft verður leikurinn jafnvel enn skemmtilegri fyrir vikið þar sem aldrei er hægt að vita hvaða aðferð þátttakendur nota til þess að koma fram sínum vilja. Dæmi:

Foreldrar og börn verða að vera í 1-2 metra radíus frá Herra Gjafmildum.
Herra Gjafmildur:"Þú ert nú svo sætt barn að mér finnst að pabbi þinn ætti að kaupa handa þér blöðru!"
(ekki óalgengt að hér fáir þú að sjá undrunarsvip á andliti foreldris)
Nú er best að halda augnsambandi við barnið og bera fram þessa stuttu en hnitmiðuðu spurningu sem hittir barnið beint í hjartastað.
Herra Gjafmildur: "Finnst þér það ekki?" (Nú skal færa augun frá barninu og yfir til foreldris. Þannig fær barnið ráðrúm til að velta spurningunni fyrir sér og foreldri gefst ekki ráðrúm til að kæfa hugsanir barnsins í fæðingu.)

Hér með er þátttöku Herra Gjafmilds lokið. Mikilvægt að sama hvað gerist þá má Herra Gjafmildur ekki mæla við foreldri. Leikurinn verður að stjórnast af sjálfum sér. Foreldri skal virt að vettugi en Herra Gjafmildur hvattur til þess að lofa barnið t.d. með setningum á borð við: "En hvað þú ert nú sætt barn" eða "Myndarleg(ur) stelpa/strákur og vel uppalið." Mikilvægt að látast ekki taka eftir orðaskiptum foreldra og barna. See no evil, hear no evil. Svo er bara að láta leikinn hafa sinn gang og njóta.

Panama-reglur bjóða upp á meiri þátttöku Herra Gjafmilds. Leikurinn hefst á svipaðann hátt en eftir það er Herra Gjafmildur hvattur til þess að taka afstöðu með barninu og vera óhræddur að rífast við foreldrið. Sem dæmi skulum við halda leiknum áfram þar sem frá var horfið. Barninu hefur verið bent á hlutinn sem það girnist og foreldri horfir á þig með undrunarsvip. Hér er jafnvel betra að sleppa því að ná augnsambandi við barnið og stara beint í augun á foreldri þegar spurningin, "finnst þér það ekki?," er borin fram. Á þessari stundu eru foreldrarnir gjarnir á að svara stutt og laggott "Nei!" Þá er best að nýta sér skemmtilegasta hlut mannlegs eðlis, samviskunar. Dæmi frá því í gær er til dæmis:

Herra Gjafmildur: "Hvað? Elskarðu ekki barnið þitt? Á það ekki skilið það besta?"
(Nú er barnið eiginlega orðið aukaleikari og ef ekkert sem hægt er að nýta sér í rifrildinu við foreldrið kemur upp úr því skal það virt að vettugi. Enda vitum við öll að börn eru skítugir litlir hálfvitar sem nenna ekki að vinna sbr. Paolo hér fyrir ofan.)
Hér hættir foreldrum til að vilja mótmæla en það skal kæft í fæðingu.
Foreldri: "Já, en....."
Herra Gjafmildur: "Það er þá góða foreldrið! (Snúa sér að barni) Ólíver Twist litli, hvað þú fengir nú gott heimili hjá mér. (Snúa sér nú aftur að foreldri og hrista hausinn) Hvernig getur ein skitin blaðra skipt svona miklu máli? Það er á þessum stundum sem fólk sýnir sinn innri mann."
Foreldri: "En ég var ekki að segja að ég vildi ekki barninu mínu vel! Ég elska barnið mitt!"
Herra Gjafmildur: "Hvers vegna er þér þá svona mikilvægt að græta það? Þér er alveg að takast að græta mig. Mér er hugsað til þeirra foreldra sem ekki hafa efni á því að kaupa gjafir handa börnunum sínum. Lepja dauðann úr skel og standa svo tímunum saman í biðröð fyrir utan hjá Mæðrastyrksnefnd til þess eins að fá einn pakka af haframjöli! Þú! (látið u.þ.b 2-3 sek líða) Ættir að skammast þín!"

Á þessari stundu er best að reiða fram náðarhöggið. Þar sem ég vinn í búð náði ég í blöðruna og rétti barninu. Lét með fylgja orðin: "Gjörðu svo vel, þeir taka þetta reyndar af laununum mínum en mér er alveg sama. Þú átt hana skilið. Takk fyrir viðskiptin! Vonandi sjáum við ykkur hér aftur!" Ef þið eruð einungis kúnnar er gott að spyrja afgreiðslumanninn hversu mikið viðkomandi hlutur kostar, rétta fram peninginn eða kortið og segjast ætla að fá einn. Passið þó að foreldri komist ekki að til að trufla viðskiptin. Rétta svo barninu hlutinn og segja eitthvað í líkingu við: "Gjörðu svo vel litli engill." Verið óhrædd að koma með eitthvað jafnvel væmnara en þetta. Panama-reglurnar bjóða upp á óteljandi möguleika. Látið hugarflugið ráða ferðinni og leitist við að fá sem mesta skemmtun út úr leiknum. Til þess er hann.

No comments:

Post a Comment