February 16, 2004

Hjónadöfullinn

Um daginn kom upp að mér stelpa og spurði/sagði við mig: "tobbalicious. Þér finnst þú svolítill gæi ekki satt?" "Nei," sagði ég. Mér finnst ég ekkert voðalega mikill gæi nefnilega. Spurði hún mig þá hvort ég teldi sjálfan mig ljótan. Nei ég er ekki ljótur samkvæmt minni skilgreiningu á því hvað ljótur er. "Hvað ertu þá?" Bara venjulegur. Kannski of? Er alla vegna að lenda í því helvíti oft að fólk gengur upp að mér og finnst það kannast við mig. Ég myndi skilgreina mig þannig. Maðurinn sem allir hafa séð áður en kannast samt ekki við. Koma andlitinu ekki alveg fyrir sig. Man á tímabili leit ég út alveg eins og pólfarinn Haraldur Örn. Gleymi aldrei þegar ég í mesta sakleysi gekk frá Seltjarnarnesi til Rvk og miðaldra kona kastaði á mig kveðjunni: "Á ekkert að klífa fleirri tinda????!!!!!!!!" Brá svo mikið að ég fór að skellihlæja. Hvað annað er hægt að gera?

Steini Plastik var að skrifa um það hversu mikið hann hati stelpur en samt ekki. Verð að taka undir með honum. Ég hata líka stelpur. En kannski ekki af sömu ástæðu og hann. Ég skal segja ykkur sögu. Viljið þið fá að heyra eina sögu. Flestir sem mig þekkja hafa heyrt hana en kannski slysast einhver hér inn frá Frakklandi sem hefur ekki heyrt hana.

Málið er einhvern veginn svona að fyrir nokkrum vikum ákvað ég að gerast samkynhneigður. Skyndiákvörðun sem átti að bjarga mér frá andlegri hnignun og þar að auki var ég búinn að skilgreina konur sem geðveikar og karlmenn vitlausa. Fannst betra að tveir vitlausir væru saman heldur en vitleysingur sem stjórnað væri af geðsjúklingi. Undirbúningurinn gekk aðallega út á það að horfa á friends og reyna að finna fyndinn punkt í þáttunum og dansa nakinn einn heima við tónlist Dolly Parton. Húmorinn fann ég ekki í friends og skipti því yfir í Will og Grace. Eftir það lagðist ég reyndar í þunglyndi enda ekkert fyndið við þá þætti. Requiem for a dream er hin besta gamanmynd í samanburði við þann hrylling sem W&G eru. Gat þó alltaf sett Dolly á og tekið gleði mína aftur. "Working 9 to 5!" Það er ekki laust við að mig langi til að dansa núna... nakinn að sjálfsögðu.. er einhver önnur leið til að dansa og finna það frelsi sem dansinn gefur af sér? Held ekki.

Undirbúningur gekk sem sagt nokkuð vel hvað mig sjálfan varðaði en ég vissi að mín helsta hindrun lægi í að sannfæra aðra. Eftir 6 ár í sambandi með stúlku vissi ég að margir myndu ekki vilja trúa. Teldu þetta einungis enn einn brandarann sem tobbalicious léti frá sér, ekki hægt að taka þennann mann alvarlega. Barst þó óvæntur liðsauki frá strák sem var með mér í menntaskóla. Við skulum kalla hann "Hrollinn" til þess að viðhalda nafnleynd. Sá tjáði óumbeðinn öllum útlendingunum, sem ég eyði miklum tíma með þessa dagana, að ég væri pottþétt hommi. Enda hefði ég alltaf verið að reyna við hann meðan við vorum saman í skóla. Reyndi ítrekað að kyssa hann og káfa á rassinum á honum. Ekki var ég neinn maður til að mótmæla honum. Passaði mjög vel inn í þá sögu sem ég var að spinna. Takk Hrollur.

Hvað gera samkynhneiðir einstaklingar líka. Þeir safna að sér kvenkyns vinum og spjalla um álfabikara og saumaklúbba. Svo ég hóf að sanka að mér stelpum til að spjalla við um þessa hluti. Það átti eftir að koma í bakið á mér. Enda gerði ég ekki ráð fyrir því hversu ótrúlegur Kassanóva ég er. Það er einhver ferómón leki hjá mér. Gryfjan sem ég gróf fyrir viðgerðir á bílnum dugar ekki til þess að gera við ferómónleka. Því miður. Þannig að eftir að hafa eytt góðum tíma með nýju vinkonunum kom súrealískast vika lífs míns. Tvær vinkonur. Tveir kærastar. Tveir dagar. Báðar tjá mér þær að það sé best að við hittumst ekki aftur. Hvers vegna?, spyr ég. Kynferðisleg spenna á milli okkar, segir önnur og segir að hún skemmti sér það vel að tala við mig að henni finnist hún vera að halda framhjá kærastanum sínum í huganum. Hvað í andskotanum? EN! ég var ekkert að reyna!! Við vorum bara að tala saman! Jæja. Þannig verður það bara að vera. Þangað til daginn eftir þegar hin vinkona mín sagði mér að við yrðum að hætta að hittast. Því hún væri hrædd um að láta sig falla í freistingu og halda framhjá kærastanum sínum.

Hvað í andskotanum gerði ég? Andskotinn hafi það. Óska þess nú að hlutirnir hefðu gengið upp hjá mér og Hrollinum í gamla daga. Lífið væri þá mun auðveldara. Eina hefði ég höndlað. En ekki tvær. Jú, kannski ég höndli alveg tvær. Þetta er fyndið. Ekki hægt að segja annað.

Mér finnst þetta álíka fyndið og þegar ég var um það bil 16 ára og upp að mér kom stelpa niðri í bæ og sagði við mig: "Þú ert einmitt svona týpa sem pabbi minn vill að ég komi með heim!" Hugsaði með mér úr hvers konar úrkynjuðu fjölskyldu kemur hún? Pabbinn að senda dótturina niður í bæ til að færa honum unglingsdrengi!!! Ullabjakk! Sagði henni að ég hefði lítinn áhuga á eldri mönnum og hún yrði því að finna einhvern annan. Ég væri ekkert leikfang fyrir karlmenn á aldrinum 45-55. Þú skítuga stelpa úr þinni skítugu fjölskyldu!!!

No comments:

Post a Comment