Rólegheit á bolludegi
Þegar maður vinnur með stórbeinóttum einstaklingi á maður aldrei að grípa bolluvönd og slá í kvikindið hrópandi "bolla! Bolla! Bolla!" Hún hafði lítinn húmor fyrir því og þegar ég neyddist til að afgreiða í tvo tíma vegna þess að hún var inn á lager hágrenjandi, muldrandi í sífellu "hjartalausa helvíti," þá sá ég sjálfur ekki húmorinn í því. Bolluvendir eru sem sagt af hinu illa. Mig grunaði það nú svo sem ekki en í röngum höndum eru þeir hárbeitt vopn. Það verður víst haldin fundur í vinnunni út af þessu. Eitthvað að kynna fyrir mér hugmyndafræðina á bakvið námskeiðið og bókina "Við erum öll fallegir einstaklingar. -það vita það bara ekki allir." Verslunarstjórinn hringdi alveg brjáluð. Tveir gaurar frá öryggisdeildinni mættu til að hugga stelpuna og halda síðan ræðu yfir mér. "tobbalicious, hvað gekk þér eiginlega til??" Ég skömmustulegur svaraði: "Bara svona smá grín." "Síðan hvenær hefur það verið talið grín að leggja vinnufélaga í einelti í vinnunni? Þú ættir að skammast þín! Taktu tíu armbeygjur fyrir Kaupás! Tíu armbeygjur!" Ég lét mig falla til jarðar og hóf beygjurnar. Öryggisdeildargaurarnir yfir mér: "Einn Kaupás! Tveir Kaupás! Tveir Kaupás! Tveir Kaupás! Kallarðu sjálfan þig kaupásstarfsmann! Kysstu skóna mína! Kysstu þá! Nei, staddu upp og kysstu mig. Já... kysstu mig og kallaðu mig Jón Ásgeir. Þú elskar greinilega svona mikið Baug! Baugshóra! Baugsmella!"
Mér fannst sko ekkert gaman á vaktinni í gær. Aðallega út af þessu.
Annað sem ég hef uppgötvað við að eiga samskipti við fólk í vinnunni er að fólk hefur gaman af því að endurtaka það sem ég hef rétt nýlokið við að segja. Tökum nokkur dæmi:
Viðskiptavinur: "Geturðu skipt þessu fyrir mig?"
Ég(Vinur viðskipta): "Ertu með kassakvittun?"
V: "Er ég með kassakvittun?"
Ég: "Ég get ekki skipt þessu nema þú sért með kassakvittun."
V: "Geturðu ekki skipt þessu nema ég sé með kassakvittun?"
Ég: "Nei."
V: "En þú getur alveg selt þetta aftur."
Ég: "Ég veit. Mér er bannað að taka við vörum nema kassakvittun fylgi með, þannig eru bara reglurnar."
V: "Eru reglurnar bara þannig?"
Yfirleitt á þessari stundu er ég farinn að stara svolítið út í loftið óskandi þess að mig sé bara að dreyma. Þá reyna þeir að biðla til samvisku minnar. Ha ha ha ha ha. Ég vinn í matvörubúð. Samviska hvað er það? En þegar fullorðið fólk fer að biðla til samvisku annarra kemst maður líka að því að þau eru bara stór börn.
V: "Ertu viss um að þú getir ekki skipt þessu fyrir mig?"
Ég: "Já."
V: "Alveg viss?"
Ég: "Já."
V: "Gerðu það! Ég fékk þetta í gjöf og hef ekkert með þetta að gera." Gengur ekki ef þú ert með lítra af mjólk.
Ég: "Talaðu við yfirstjórn fyrirtækisins ef þú ert ósáttur. Ég get.. Ég má bara ekki skipta þessu fyrir þig."
V: "Sko. Þú byrjaðir á því að segja, "ÉG GET," svo bara bættirðu við, ekki."
Ég: "Ha? Hvað meinarðu?"
V: "Ég er alveg viss um það að þú getur vel skipt þessu fyrir mig. Þú hefur alveg valdið til þess." (Biðla til mikilmennskubrjálæðis míns sem ég öðlast við það að hafa lyklavöld í matvörubúð.)
Þannig gengur þetta fyrir sig í litlu búðinni minni. Myndi ganga vel ef ekki væri fyrir fólkið sem slysast þangað inn.
No comments:
Post a Comment