February 5, 2004

Ljúfar stundir

Ég er eins og ég hef áður sagt mikill áhugamaður um það að vinna í matvörubúðum. Þarf ekki á peningunum sem ég fæ fyrir vinnu mína því lánasjóðurinn sér til þess að bankareikningur minn er ávallt vel fullur af nýstraujuðum 8000 köllum. Vissi ekki að það væri kominn seðill með Halldóri Laxness en svo virðist nú vera. Fór nebblega í bankann í dag og þeir létu mig hafa hann. ætlaði reyndar bara að taka út 2000 kall en þeir heimtuðu það að ég tæki 8000 kallinn. Það væri miklu meira töff fyrir mig því ég væri sko enginn smá töffari. Hlakka ekkert smá til að fara á barinn á eftir og splæsa bjór á alla vini mína. Nei... ókei.. ég á enga vini. Hélt ég gæti kannski platað ykkur ef þið væruð að lesa þetta hratt.. en þið eruð svo klár sko. Gerið það fyrir mig að segja ekki mömmu frá því. Færi ekkert alltof vel í hana. Ég er nefnilega búinn að segja henni að ég var kosinn vinsælasti og best klæddi strákurinn í Háskólanum. Ekki gera það fyrir mig. Gerið það fyrir hana.

Það kom fyrir í búðinni um daginn að einhver stal pakka af Condis. "Ja, hvernig komust þið að því," segið þið þá. "Gaman að segja frá því," segi ég þá. Enda er áralöng og óeigingjörn vinna mín við að bæta mig sem starfsmaður loks að bera einhvern ávöxt. Leyndarmálið viljið þið væntanlega fá upplýst, ekki satt? Glaður gef ég ykkur atvinnuleyndarmálið: Fann tóman kassa af kexinu í búðinni. Lá bara þarna. Átti ekkert að vera þar sem ég fann hann sko. Rak strax augun í hann. "Condis-kex á ekkert að vera með kattarmatnum í hillu! Hvað þá opinn pakki!" Svo eftir að við tvö sem vorum á vaktinni höfðum rætt þetta okkar á milli, lokuðum nú auðvitað búðinni á meðan og hringdum í öryggisdeildina til að gefa skýrslu á meðan, komumst við að þeirri niðurstöðu að líklegast væri skýringin sú að einhver fingralangur gamlingi hefði verið hungraður í smá súkkulaðikex og því opnað pakkann til að gæða sér á innihaldinu.

Það sem ég er meira að pæla í núna er hvað þjófurinn gerði við innihald pakkans. Át hann heilann pakka af súkkulaði á 5 sek inni í búðinni? Hvers konar súkkulaðiskrímsli var þetta eiginlega? Kalli búinn að missa súkkulaðiverksmiðjuna í hendur Baugi og hungrar nú svo í súkkulaðið sem hann áður teygaði af krönum sinnar gömlu verksmiðju að hann þarf að stunda leiftursúkkulaðiát í helstu matvörubúðum landsins til að svala fíkninni?
Eða stakk þjófurinn heilum pakka af súkkulaðikexi í vasann á Millet-úlpunni sinni? Hver hefur áhuga á því að japla á súkkulaðikexi með vasaló á? Nú er ég ekki að segja að lóin sé eitthvað heilsuspillandi eða hættuleg, ég líkt og margir aðrir hef látið mig fallast í freistingu og bragðað á þeim sætu hnoðrum sem nafli minn hefur myndað í gegnum árin. Maður á alltaf að smakka! Ég er sko ekkert fokking matvandur. En heill pakki af Condis vafinn í ló.... það myndi ég sko aldrei éta. Kíkið því endilega á kexið sem ykkur verður kannski boðið næstu daga. Aldrei að vita nema það sé svolítið loðið:

"Má nokkuð bjóða þér upp á illa fengið og loðið kex?"
"Nei takk, ég er að reyna að draga aðeins úr lónni."

No comments:

Post a Comment