May 28, 2004

Af hverju gerði ég þetta?

Keypti mér miða til þess að sjá Pixies í London á miðvikudag. Ég sem var á tónleikum í gær.

"tobbalicious, hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?"
"Ha? Hvaða frú? Ég fékk enga peninga. Keypti mér samt miða til London. Dugar það?"

Á svo ekki efni á því en það eru sumir hlutir sem veita manni meiri gleði en annað. Þannig að næsta vika verður bara helvíti skemmtileg. Hitti þar líka fyrrverandi meðleigjanda minn og verða miklir fagnaðarfundir með okkur. Vona ég. Svo allir sem ég þekki og líka fólk sem ég þekki ekki má búast við collect símtölum frá útlöndum í næstu viku. Æ , hvern er ég að reyna að blekkja? Ég á enga vini. Bara vini á internetinu. En þeir, og þá meina ég þær, eru alltaf naktar.

Hef ekki orðið varhluta af því að fólk er að útskrifast. Kemur meira að segja inn í búðina. Heiðrar mig með nærveru sinni. Samt er alltaf hægt að snúa þessu sér í hag. Kom einhver stúlka inn um daginn með húfuna á sér. Þar sem ég er kurteis maður með eindæmum óskaði ég henni til hamingju með árangurinn. Spurði hana svo hvaðan hún hafði útskrifast.

"FG," sagði hún með stolti.
"FG segirðu. Wf hverju ertu þá með hvíta húfu?"
"Það fá allir hvíta húfu sem útskrifast úr menntaskóla."
"Menntaskóla, já, en þið í fjölbraut og svona sérskólum hljótið að þurfa einhvern annan lit, t.d. fjólubláan eða bleikan kannski?"
"Hvað meinarðu? Það er alveg sami hluturinn að útskrifast úr fjölbraut og menntaskóla. Þess vegna fáum við sama lit og menntaskólakrakkarnir."
"Ummm... mamma segir líka að ég sé sætasti strákur í heimi en það þýðir ekki að ég trúi henni eða þá að hún hafi rétt fyrir sér. Við fegrum öll hlutina til þess að finnast lífið meira virði. Í alvörunni, hvaða lit áttu að vera með?"
"Hvítan! Hættu þessu, þú ert bara eitthvað ruglaður!"
"Já, ég veit. Ég fór nefnilega aldrei í menntaskóla sko. Enginn svona þræll bókanna eins og þú. Menntun og hugsjónir! Menntun og hugsjónir! Hljómar bara eins og heil Hitler! Þið eruð kannski með eitthvað svona fasistafélag í þínum "fjölbrautarskóla"? Heil Hitler, menntun og hugsjónir! Drepum verkalýðinn! Nei, skóli var aldrei neitt fyrir mig. Alltof mikil pólitík í þessu fyrir mig. Þoli ekki pólitík. Gengur bara út á það að halda aftur af verkalýðnum. Þessum almenna verkamanni eins og mér, sko."
"Almenna verkamanni! Eins og þér! Fyrirgefðu... en ég held það sé ekkert venjulegt við þig."
"Ekkert að fyrirgefa. Skóli og pólitík maður.... er líka næstum því sama orðið.. sko ef þú tekur út p og l go... nei.. bíddu aðeins.. p og í og t... já og setur inn s.. s-k-ó-l-i. Það er engin tilviljun í því! Ha ha ha ha ha! Fattarðu?!!! Engin pólitík í því.. ha ha ha ha ha ha.. maður lumar nú á þeim mörgum góðum... ha ha ha ha ha!... sko af því "því" og "tilviljun" eru sko ekkert sama orðið og tilviljun miklu lengra heldur en því... kannski væri það hægt ef þú myndir t.d. segja: "það er engin því í tilviljun" en það væri ekkert vit í því... ha ha ha ha ha!.. gerði ég það ekki aftur?.. ha ha ha ha! Hey! Hvert fórstu?"

Búinn með nýja teyknymind og hún er á gráu svæði hvað stolið varðar og ef þú ert undir 18 skaltu ekki skoða hana. Ef, og þá meina ég ef, þú ákveður að skoða hana skaltu ekki væla í mér ef hún misbýður þér. Farðu beint til lögreglunnar og kærðu mig. Karlmenn! verið nú ekki feimnir að kæra mig fyrir það að gera lítið úr hugsjónum og gildum sannra karlmanna. Við erum meira en þessu meitluðu líkamar sem gera konur brjálaðar af girnd. Það er ekki okkur að kenna að við erum fullkomnir hvað varðar líkamsburði og vitsmuni. Við fæddumst bara svona.

Búinn!


Svo er ein svona róleg sem ég kalla talþjálfun.

No comments:

Post a Comment