Þakkir
Gleðilegt nýtt ár! Beibí!
Þá eru þakkirnar búnar. Svo ég segi við sjálfan mig: Gefðu sjálfum þér sögu. Hvaða sögu? Það veit ég ekki, ævisöguna kannski? Hefurðu ekki lifað æsispennandi og viðburðaríku lífi? Flogið um allan heim og dansað nakinn á þaki hótels í Portúgal? Ja, reyndar þá hef ég gert það síðast nefnda. Var reyndar ekki einn. Ekki tveir heldur. Gerðist nokkrum dögum eftir að ég var barinn með gúmmíkylfu af öryggisverði á öðru hóteli. Var ekki svo vont... fyrr en daginn eftir. Nei, þá er ég ekki að tala um það að dansa nakinn, það var ekki vont, meira það að vera barinn með gúmmíkylfu. Marblettirnir hurfu að lokum og við lifðum allir af.
Talandi um það að lifa af þá átti ég einu sinni kærustu. Langt síðan. Hún var alltaf að lemja mig. Eins og stelpur gera.
"Af hverju ertu að lemja mig? Hættu þessu!" Grenjaði ég í áttina að henni en hún hlustaði aldrei. Ég var bara laminn meira. Og fastar.
"Þið stelpurnar eigið að vera sætar og prjóna, er það ekki?"
"Nei! Það er alþjóðlegt samsæri. Þannig komumst við upp með þetta. Skilurðu?"
"Nei... eiginlega ekki, hvað ertu að reyna að segja?"
"Ég er að reyna að koma því í gegnum þennan þykka haus sem þú berð að við erum búnar að sannfæra heiminn um það hvað við séum góðar en þið slæmir. Tökum til dæmis hnefann á mér. Sérðu hann vel?"
"Já, ágætlega."
BAMM!
"Nú sástu hann betur er það ekki?"
"Ahhhhhh!!! Af hverju kýldirðu mig? Hvað gerði ég?"
"Akkúrat ekki neitt. EN það þýðir ekki að þú hafir ekki átt þetta skilið? Ertu að skilja mig?"
"Ehhhhhh?"
BAMM!
"Sérðu hvað þú gerðir? Nú æstirðu upp vinstri hnefann á mér! Af hverju gerirðu mér þetta? Þið karlmenn eruð svo miklir aumingjar."
"Aaaaaaandsko...."
BAMM!
"Hættu að neyða mig til þess að lemja þig! Heldurðu að mér finnist þetta gaman? Heldurðu það?!!"
Svona voru kvöldin hjá okkur. Endaði svo með því að ég baðst afsökunar og passaði mig svo á því að fara ekki út úr húsi í nokkra daga. Gat ómögulega útskýrt glóðuraugað og sprungnu vörina. Eitthvað svo... erfitt.
En við áttum okkar sætu og yndislegu stundir. Það sem kemur fyrst upp í hugann er líklega þegar ég reyndi að kenna henni að hlusta á tónlist. Æ, það var eitthvað svo sætt. Eins og flestir vita þá kunna stelpur ekki að hlusta á tónlist. Þær reyna það samt alltaf til þess að líkjast meira karlmönnum. Karlmenn með meik. Hí hí hí. Ég get sagt þetta núna og hlegið því ég á ekki kærustu. Engin til þess að lemja mig. Hí hí hí!
En þá... ég var einmitt að reyna að fá hana til þess að hlusta á tónlist. Svo við sátum á kvöldin saman tvö í sófanum og hlustuðum á diska sem ég hafði keypt. Ég verð að gefa henni það að hún gerði sitt besta. Sat með mér og kinkaði kolli þegar ég útskýrði fyrir henni lagið, diskinn og hljómsveitina. En, þegar stelpur hafa engan áhuga þá sér maður það í augunum á þeim. Tómt augnaráð sem starir á móti þar sem lesa má: útsala, brjóstahaldarar, meik, varalitur, maskari, saumaklúbbur, eyrnalokkar, sætir leikarar, sápuóperur, meiri saumaklúbbur og kokkteilar. Kannski eru þær líka að hugsa um eitthvað sem viðkemur uppeldi barna. Því miður getum við aldrei verið viss um það. Því þær vita það ekki einu sinni sjálfar. Þetta er allt á sjálfstýringu hjá þeim. Tökum það samt fyrir seinna. Nú erum við að tala um stelpur og tónlist.
Eftir nokkur svona kvöld af áhugaleysi, sem yfirleitt kostuðu mig tvær til þrjár ferðir í Kringluna, ákvað ég að þetta gengi ekki. Ég yrði bara að hlusta á tónlist þegar hún væri ekki heima. Gerði það líka út af því að henni fannst ég vera að monta mig þegar ég hlustaði á tónlist þegar hún var heima, að einhvern veginn væri ég að sýna fram á það að ég væri betri en hún. Það kallaði bara á meira ofbeldi af hennar hálfu og veikindadaga hjá mér. Ég er búinn að útskýra það að ég ætlaði ekki að útskýra meiðslin.
Svo eignuðumst við einhvern tímann tölvu. Þá breyttist allt. Hún fór allt í einu að hlusta á tónlist. Oft ein. Ég fattaði það reyndar ekki strax. Þar kemur inn "karlmannaþátturinn". Ég var bara of upptekinn að hugsa um það hvernig ég gæti ekki tekið tillit til hennar, kúgað hana, hlustað ekki á hana og gert hana að fífli með framkomu minni á næsta fylleríi. (Konur eru frá mars, karlar frá snickers eins og einhverju svo fyndnu almenningstenglsafífli hjá 10-11 fannst fyndið. Ef ég hitti hann þá ætla ég að hrækja framan í hann. Tvisvar. Það er nefnilega vanmetið hversu áhrifaríkt það að hrækja framan í einhvern er. En nóg um það. Aftur að tónlistinni.)
Þarna sat hún kvöld eftir kvöld og hlustaði á tónlist í tölvunni. Þegar ég loks fattaði það að hún var hætt að tala við mig, horfi ekki lengur með mér á sjónvarpið og var nokkurn veginn hætt að gufusjóða handa okkur grænmeti í morgun-, hádegis- og kvöldmat fór ég að fylgjast með henni. Ég varð að komast að því af hverju hún gat hlustað á tónlist í tölvunni en ekki í geislaspilaranum? Hvað hefði orsakað þessa breytingu? Var það ég? Var það hún? Svo ég setti á mig einkaspæjarahattinn og grennslaðist fyrir. Lúmskur.
"Hvað ertu að hlusta á?"
"Ha?!"
"Hvaða tónlist ertu að hlusta á? Góður diskur?"
"Ég veit það ekki? Bara einhver diskur! Vertu ekki að trufla mig."
"Mig langaði bara að taka þátt í þessu með þér ástin mín. Sýna að ég hafi áhuga á því sem þú hefur áhuga! Ástin mín. Sæta."
"Þetta er bara einhver diskur sem ég fann. Langaði bara að hlusta á hann. Láttu mig nú í friði, geturðu ekki farið að skoða klám eða farið á kaffihús með vinum þínum? Svona, láttu mig í friði."
Þannig að ég lét hana bara vera, eina með tónlistinni. Ég gæti alltaf fylgst með úr fjarlægð og þannig komist að því hvað málið væri. Þannig komst ég líka að því hvað henni fannst svona spennandi við tónlistina í tölvunni. Það var ekki tónlistin sem heillaði hana svona, aldeilis ekki. Málið var að hún hafði komist að því að með því að setja geisladisk í tölvuna þá fór Windows Media spilarinn í gang. Með honum hófst líka það sem hún heillaðist svona af, þrívíddarmyndir sem fylgdu takti tónlistarinnar. Þarna sat hún sem sagt kvöld eftir kvöld með heyrnatólin og klappaði í takt við litabreytingar í þrívíddarmyndunum. Hrópaði jafnvel upp yfir sig ef róttækar litabreytingar áttu sér stað, líkt og þegar þrívíddarskýið fór úr gulu yfir í bleikt! Veit ekki hvort hún hafi litið á það þannig að stelpur hafi unnið á einhvern hátt með því en ég heyrði hana stundum kalla út, "eitt núll fyrir okkur!," þegar bleiki liturinn kom upp.
No comments:
Post a Comment