Bóndadagur.
Assgotinn hafi það! Nú er kominn tími til þess að ég komist að minnsta kosti á blað. Oft var.... þarna... en nú... er.... hitt þarna! Nú skulu allir þeir sem elska mig hringja í rás 2 og kjósa mig, já mig, kynþokkafyllstan. Það er ekki bara útlitið sem skipir máli. Það er líka innri fegurð. Og ég á vörubílsfarma af henni. Er með það inni í geymslu. Nenni ekki alltaf að vera að sýna hana sko... betra að sitja stundum bara einn með henni. Klappa og knúsa. Okkar stund saman, mín og innri fegurðar minnar.
Talandi um innri fegurð þá er ég mikið að spá í því að láta vaxa mig. Er það ekki rétt? Ég er að flytja til þess sem fjölmiðlar vilja kalla "heitari landa". Það verður þá líka auðveldara að bera á mig brúnkukremið án þess að vera að flækja það í hárunum. Þá sérstaklega þegar maður er með brúnkuklútana, það virðist festast svona kleprar af appelsínugulu í hárunum sem mynda það sem lítur út fyrir að vera freknur. En eru það samt ekki sko! En það eru allir að horfa á mann og spyrja: "ertu með freknur?" "Ég veit það ekki," segi ég og spyr, "ert þú með persónuleika?"
Og þetta segi ég við stelpur sem ég reyni við. Einhver furða að ég sofi einn? Nema þegar ég átti heima í fjölbýlishúsinu... já, ég myndi frekar kalla það fjölbýlishús en blokk, í vesturbænum. Fékk oft gömlu konuna sem bjó ein á móti til að sofa með mér. Ekkert kynferðislegt. Neyðin kennir naktri konu að spinna og ungum drengjum að fá gamlar konur til að sofa við hliðina á sér til að losna við einmannaleikann. En eina nóttina dó Pálína gamla og eftir það var það aldrei það sama. Í fyrsta lagi ætlaði ég ekki að grafa hana upp og draga dauða heim til mín og í öðru lagi þá tók parið sem flutti í íbúðina á móti ekki vel í það að ég fengi stúlkuna lánaða. Þó svo að á einu fylleríinu sem ég hitti þau fyrir utan minntist strákurinn eitthvað á það að hann væri í þann mund að ná að sannfæra hana að það væri svo sem ekki slæmur hlutur ef þau aðstoðuðu mig í mínum vandræðum. Allt væri falt og svo lengi sem hún þyrfti ekki að vera nakin og hann fengi 5.000 kall fyrir skiptið þá væri hann fullkomlega sáttur við þetta. Einhverjum dögum síðar flutti hún út. Þar með fór það. Ég frétti það síðar eftir að ég var fluttur út frá nágrannanum fyrir ofan mína gömlu íbúð að strákurinn hefði síðan farið að bjóða sig gömlu hjónunum sem fluttu í mína íbúð.
Svo er fólk hrætt við hringamyndun í fjármálalífinu! Ég er hræddur við hringamyndun líkt og þá sem ég var að tala um. Líka óþolandi þegar einhver er að stela frá manni hugmyndum.
No comments:
Post a Comment