December 28, 2004

Alvarlegt! (vildi vara við því)

Um jólin þá koma yfirleitt fram "mannlegar" fréttir sem eiga að fylla mann von og trú á mannkynið. Þessi jól varð engin undantekning á því. Man ekki á hvorri sjónvarpstöðinni hún var þessi frétt en það skiptir kannski ekki öllu. Málið var að sýndir voru tvíburar sem teknir úr móðurkviði nær okfrumustigi en nokkru öðru og þeim hjúkrað til fósturstigs og svo alla leið að náttúrulegri fæðingu úr hitakassa. Glæsilegt! Börnunum sem annars hefðu dáið var bjargað! Hvað er ekki gott við það? Þetta gefur öllum þeim sem gætu slysast til þess að þurfa að fæða eftir tveggja vikna meðgöngu von um að barnið lifi af eftir allt saman. Allir sem halda öðru fram eru fasistar! Jafnvel nasistar!

Þetta er bara svo mikið scam. Ekki það að fólk, hér kemur inn menntahroki og almennur hroki gagnvart hinum almenna borgara, falli ekki fyrir þessu og sé gráti næst bæði í matsal Granda og Nýherja. "Og svo bara björguðu þau börnunum skilurru?! Ekkert smá svona gott, eða eitthvað?!" Já, að því að venjulegir slúbbertar eins og ég og þú eigum örugglega eftir að eiga möguleika á sömu meðferð ef við lendum í því. Ég sé það gerast.

Fyrsta lagi, finnst engum skrítið að það sé alltaf fjölskylda búsett í fjórða heims landi sem kemst í þessa "mannúðlegu" tilraunastarfsemi? Og allar fara þær fram í Bandaríkjunum. Sé þetta svo fyrir mér: Læknir sem vinnur á héraðssjúkrahúsinu í Austur-Bangalstandarpor sendir tölvupóst til allra bestu sjúkrahúsa Bandaríkjanna og biður um hjálp.

Dr. Shayestavekyanstad, Austur-Bangalstandarpor. stopp. Með okfrumu. stopp. vantar hitakassa. stopp.

Einhver læknir les þetta og ákveður í óeigingirni að "bjarga" fyrirburanum. Fjölskyldunni er allri flogið til Bandaríkjanna og allt fer á stað. Það eina sem þau þurfa að gera er að skrifa undir samning við sjúkrahúsið þar sem það er losað undan allri ábyrgð. Og þeim er leyft að gera hvað sem þau vilja. En í staðinn gefa þau vinnu sína. Svo fer allt á stað og tíminn líður og stundum, eins og fyrir þessi jól, fer allt vel og börnin ná fullri heilsu og geta farið aftur til fjórða heimsins. "Fyrsta skipti sem okfrumu er hjúkrað til lífs!!" Allir fagna og heimurinn er betri fyrir vikið. Ekki satt?

Nú kemur að því að ég fái að sýna hversu mikill nasisti ég er. Hver ætli kostnaðurinn við að bjarga tveimur, ég endurtek, tveimur börnum? Ég ætla að ganga út frá því vísu að sólarhrings vakt hafi verið með börnunum þessa mánuði sem þeir lágu inni á spítalanum, reyndar eru þeir þar enn og fá ekki að losna fyrr en í janúar. Nema þeim hafi bara verið skóflað út í horn og hitablásari þar við hlið? Nei, varla? Svo líklega 10 hjúkrunarfræðingar og 6 læknar tileinka sig börnunum í nokkra mánuði, það getur varla verið neinn kostnaður við það? Hvað þá með kostnað við rannsóknir og notkun á tækjum. "En þetta var gefins!" Nei. Þetta er álíka gefins og Kristján Jóhannsson. Og það besta við hræsnina í þessu öllu er að á meðan fyrirburunum var bjargað hefði ókeypis peningurinn getað fætt þau 100 börn sem létust úr hungri í Austur-Bangalstandarpor á degi hverjum. En þau eru bara skítug götubörn svo það skiptir ekki máli. Hefðu hvort sem er bara endað sem glæpamenn.

Svo er æðislegt að sjá þegað búið er að meika alla fjölskyldunna og læknana og kallað til fjölmiðlafundar. Allir brosandi og himinlifandi yfir því hversu vísindin geta verið æðisleg! Móðirin starir tómeyg út í loftið, skilur ekki rassgat þar sem hún kann ekki ensku. Hún segir eitthvað sætt á Bangalstandarporísku og allir brosa. Túlkurinn þýðir og í ljós kemur að hún getur ekki þakkað læknunum nóg. Í raun var hún samt að reyna að koma þeim skilaboðum á framfæri að fjölskyldan hefði með því að skrifa undir samninginn lofað sér og börnunum í skúringar á spítalanum svo lengi sem þau dragi andann.

En ég get ekki neitað því að þau myndast andskoti vel.

No comments:

Post a Comment