Það er komið sumar
Hvernig á maður eiginlega að eyða áramótunum? Ég er ekki viss um hvað ég geri. Nenni ekki að skipuleggja þetta strax. Er ekki hálfur mánuður í þau? Nú er tækifærið fyrir einhverja sæta stelpu að bjóða mér að eyða með sér áramótunum.
Til þess að gera upp árið er kannski ekki vitlaust að rifja upp skemmtilega sögu sem gerðist í sumar. Ég og Hin svarta sál Völundur skelltum okkur á landsleikinn við skÍtalíu í haust. Skemmtilegasti leikur og elfdi til muna sjálfstraustið. Nema hvað eitt atriði situr fastar í mér heldur en leikurinn sjálfur. Gerðist í stúkunni og ekki margir sem kannski tóku eftir því. Kom alla vegna ekki fram í sjónvarpinu. Sem mér finnst mjög skrítið.
Það var búið að byggja bráðabirgðastúku úr timbrurbrettum til þess að fleiri gætu séð leikinn. Við Völundur vorum fyrir aftan annað markið alveg efst í stúkunni og fylgdumst með leiknum. Þó hafði ég tekið eftir því að nálægt okkur stóð maður á fimmtugsaldri klæddur í síðan frakka. Mér fannst það svolítið skrítið miðað við það hversu heitt var í veðri. Var að velta því fyrir mér hvort honum væri ekki heitt í þessum frakka. Var svo sem ekkert meira að spá í honum. Þangað til það gerðist.
Þegar um það bil 20 mínútur voru liðnar af leiknum tek ég eftir því með öðru auganu að hreyfing kemst á frakkaklædda manninn. Hendurnar sveiflast og áður en ég veit af liggur frakkinn á jörðinni og kappinn kviknakinn! Svo hleypur hann á stað í átt að vellinum. Þegar ég segi hleypur meina ég að hann taki tvö skref. Lengra komst hann ekki. Frakkinn flækist í löppunum á honum og okkar maður hrasar til jarðar og veltur svo niður timburstúkuna.
Það myndast gat í hópinn þarna í kring þegar hann húrrar niður stúkuna og staðnæmist akkúrat þar sem timburstúkan og sú steinsteypta mætast. Hausinn liggur í efstu tröppu steinsteyptu stúkunnar og það blæðir úr sárum á enninu og nefinu. Líkaminn sjálfur liggur í timburstúkunni allur í skrámum. Karlinn reynir að segja eitthvað en nær ekki nema að lyfta hausnum og hvísla eitthvað út í loftið.
Þau fyrstu sem taka við sér eru börnin sem eru hvað nálægast. Mynda hálfhring utan um manninn og benda á hann hlægjandi. Hef ekki enn hugmynd um það hvort þau voru að hlægja út af því hann datt eða því hann var nakinn. Þarna lá hann svo nakinn og blæðandi í fimm mínútur þangað til sjúkraliðar komu loks með börur til þess að fjarlægja hann. Hversu sorglegt það var að sjá hann borinn nakinn og kvalinn af leikvelli með ekkert annað en frakkann góða yfir klofinu til þess að fela það allra heilagasta. Ég gleymi því aldrei.
No comments:
Post a Comment