December 17, 2004

Engan skepnuskap

Kræst hvað þessi "íbúð" er ekki list. Er hún list? Hvað er list við að vera með íbúð í beinni útsendingu? Einu sinni hét það web-cam. Eða get ég litið á það sem svo að ég sé að búa til listaverk þegar ég tek til? Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér? Er ég að misskilja eitthvað? Er amma mín sem tók til hér um bil alla daga sem sagt bara misskilinn listamaður? "Amma mín, þú ert svo óheppin að vera uppi á röngum tíma. Í dag er tiltekt skilgreind sem list. Þú gætir innheimt stefgjöld og allt!!" Ætli ég þurfi að borga stefgjöld til Birgis í hvert skipti sem ég slysast til að taka til? Ef þetta er ekki enn ein ástæðan til þess að letja mig í aumingjalegum tilraunum til þess að taka til.

Annars gefur mér þetta góða hugmynd. Reyna að græða á prófunum. Það eina sem til þarf er vefmyndavél, námsbækur og ég. Svo ætla ég að lesa fyrir prófin í beinni. Hugsið ykkur hughrifin, tengslin, póstmódernismann, nýsköpunina, leiðsögnina og skapa samtal og umræðu á milli þeirra fagurfræðilegu hugmynda og viðhorfa til listarinnar sem mótað hafa sýn okkar á skólann og okkur sjálf.

Nú sendi ég póst til listasafnsins og reyni að selja þeim hugmyndina.

No comments:

Post a Comment