February 11, 2003

Eftirfarandi bréf var sent til forsætisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og Lín. Reiðin hefur gripið mig heljartökum.


Til hæstvirts ráðherra,

Góðan dag.

Þorvaldur Konráðsson heiti ég og stunda nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Í fyrsta lagi vil ég þakka þér fyrir það að taka þér tíma til þess að lesa þetta skeyti. Ég hef verið að velta fyrir mér hvert ég gæti beint hugleiðingum mínum og fannst það við hæfi að ég myndi senda þetta skeyti, sem hefur að geyma spurningar sem að mér sækja um þessar mundir, til þín í þeirri von að þú gætir kannski varpað ljósi á þær.

Þannig er mál með vexti að ég tók mig til og hóf nám við Háskólann í haust í þeirri von að mín menntun gæti komið mér og einnig Þjóðinni til góða. Það er mín skoðun að hverri þjóð sé til sóma að eiga sem flesta einstaklinga sem lokið hafa námi á háskólastigi. Nú upp á síðkastið hefur mér fundist eins og það sé ekki vilji allra að ég nái því takmarki mínu að klára háskólanám.

Hér eru þær spurningar sem ég hef:

Hvernig á ég að borga leigu, þegar ég fæ engin námslán?
Hvernig á ég að fá námslán, þegar ég þarf að vinna til að láta enda ná saman?
Hvernig á ég að ná prófum, þegar ég þarf að taka tíma frá námi til að vinna?
Hvernig á ég að á það að virka hvetjandi á mig að námslán eru þau sömu fyrir námsmenn sem fá 5 í meðaleinkunn og þá sem fá 9,6?
Af hverju borgar það sig fyrir mig að finna mér “svarta vinnu” meðan á námi stendur?
Af hverju er mér refsað fyrir það að vinna heiðarlega vinnu og borga skatta?
Af hverju þarf ég að hafa áhyggjur af því að láta enda ná saman, í stað þess að geta einbeitt mér 100% að náminu?
Hvernig á þetta kerfi að virka hvetjandi á mig?

Ég vildi því einungis fá að vita hvaða hug þú bærir til þessarra spurninga sem ég hef lagt fyrir þig? Nú tel ég að þér beri engin skylda til þess að svara þeim, en mér þætti mjög vænt um, ef þú gætir séð þér fært um, þar sem ég á í erfiðleikum með að réttlæta fyrir sjálfum mér þá ákvörðun að hefja nám að nýju.

Með fyrirfram þökk,



No comments:

Post a Comment