Flott að vera kona!
Dagurinn í gær var einn af þessum dögum sem ég spáði í því hvers vegna allt þetta fólk væri að þvælast fyrir mér? Sama hvað ég gerði og hvert ég leit þá var alls staðar fólk að trufla mig og pirra. Gamla góða "Fólk er Fífl" pælingin. Bara eitt dæmi. Nú vinn ég í verslun sem opin er 24 tíma á sólarhring. Sem ég held að sé einhvað um það bil einn sólarhringur? Ekki alveg viss. Nóg um það. Þar sem þetta var fyrsta helgin sem búðin er opin þannig er búið að setja stórt og mikið skilti á vegginn fyrir framan innganginn og þar að auki er skilti á gangstéttinni fyrir framan búðina sem tilkynnir viðskiptavinum og í raun hverjum þeim sem á leið framhjá þessa breytingu á opnunartíma. Fólk langar til þess að tala um þetta. Allt í lagi. Það er gott að tala, svo segir finnskur stígvélaframleiðandi. Vissi það áður en ég mætti á vaktina að við þessu væri að búast. Samt getur maður ekki annað en dáðst að samskiptahæfileikum fólks.
"Er opið hjá ykkur allan sólarhringinn núna?" EN EKKI HVAÐ??? Hvað segir skiltið fyrir utan? Hvað? HVAÐ?!! Var mikið að spá í það að svara þessari spurningu með stuttu Ha?-i. "Glætan að það sé opið allan sólarhringinn! Hvenær ætti ég þá að sofa? Gæti það sko aldrei, verið í vinnu 24 tíma á dag. Þú ert nú bara eitthvað ruglaður."
Ef einhver ætlar að hefja þessa umræðu er þá ekki hægt að orða þetta á annan hátt? Er ekki sniðugara að sýna fram á það að þú sért sæmilega meðvitaður einstaklingur og lestrakunnátta þín sé yfir meðallagi? Segja það bara beint út. "Mikið rosalega lýst mér illa/vel/ekkert á þessa sólarhringsopnun hjá ykkur." Búinn að koma þinni skoðun á framfæri og umræðunni hefur verið komið af stað. Hjólin farin að snúast og spjallið gæti farið á hvorn veginn sem er, illa eða verr. Ekki hefurðu spjall við gleraugnagám eins og mig með orðunum: "Ertu með gleraugu?" Augljóst. En kannski er það málið? Fólk nennir ekki lengur að hugsa og þess vegna vill það bara taka þátt í spjalli sem gengur út á retorískar spurningar?
Nú hlýtur bara að vera að fólk hafi séð skiltið fyrir utan og ákveðið að tala um þetta "merkilega" mál. Varla, alla vegna vona ég, hefur fólk ákveðið að spyrja að því í óspurðum fréttum hvort við ætluðum að hafa opið allan sólarhringinn?
"Sjáum nú til? Ég var búinn að tala við hann um veðrið, vöruúrvalið og það að hann sé alltaf órakaður í vinnunni.... hmmmm? Ætlið þið að hafa opið allan sólarhringinn? Ææææ..... af hverju spurði ég að þessu? Hugsa áður en þú framkvæmir. Nú horfir hann á mig eins og ég sé ógeðslega vitlaus. Vissi það að ég myndi klúðra þessu einhvern veginn. Kann þessa spjall-tækni ekki. Ætti ég að hlaupa út án þess að borga?"
Ekki það að fólk megi svo sem spyrja að hverju því sem það vill. Frjálst land. Myndi bara óska þess að þau væru ekki að eyða mínum tíma í svona vitleysu.
Fífl helgarinnar verða þó að teljast mæðgurnar sem komu með barnabarnið í verslunarleiðangur. Þar fór barn sem ekkert á eftir að verða úr. Leiðinlegt að segja það, en stundum er hægt að sjá það á fyrstu árum einstaklings hvað verður úr honum. Þvílík fjölskylda. Reiðin... tekur.... yfir. Argasta helvíti. Krakkinn hefur verið svona 4-5 ára og helvíti góður í því að ýta barnakerrunum sem finna má í búðinni. Það var eftir að því verki var lokið sem allt fór úrskeiðis og í um það bil 3 mínútur blasti við mér heimsendir við kassann.
Einstein litli og þær Curie-mæðgur eru sem sagt komin upp að kassanum og Einstein búinn að standa sig eins og hetja að ýta kerrunni á undan sér. Þær hafa auðvitað fulla trú á því að þarna fari tilvonandi Nóbelsverðlaunahafi og treysta honum því fyrir því að koma vörunum upp á kassann. "Einstein," segja þær, "settu þetta upp á kassann." Hvað gerir Einstein litli? Auðvitað það sem lá beinast við, teygði sig upp í munninn á sér og tók út hlauptennurnar sem hann var að japla á og skellti á færibandið. Curie-mæðgurnar horfa á mig með þessum, "Guuuuuuuð hvað börn geta verið vitlaus en samt verður maður að hlægja að því það er svo rooooosalega skemmtilegt!" Til að bjarga málunum og aðallega sér frá meiri skömm er Einstein tjáð: "Nei, ha ha ha, það sem er í körfunni." Einstein litli veit að það næsta sem hann gerir skiptir öllu máli. Curie-mæðgur myndu ekki fyrirgefa önnur mistök. Hann rétti því fram litlu höndina sína, gott ef hún skalf ekki lítið eitt, rétti úr litlu fingrunum og læsti þeim um hlauptennurnar. Leiftursnöggur snúningur til vinstri og sælgætið var komið á réttan stað, ofan í körfuna. Stoltið leyndi sér ekki í andlitinu á litla snillingnum. Búinn að leysa þessa erfiðu þraut og varla eftir neinu að bíða nema taka við hóli þeirra Curie-mæðgna.
Mæðgurnar horfðu aftur á hvor aðra og hlógu. Ég hló ekki. Mæðgurnar voru þó ekki á því að gefast upp á Einstein litla. Smá byrjunarörðuleikar en þetta hlyti að koma á endanum, ekki satt? "Nei, úr körfunni á kassann, Einstein litli. Vörunar sem eru í körfunni eiga að fara upp á kassann. Snöggur nú!" Hvað gerir okkar maður? Teygir sig enn og aftur í helvítis hlaupið og skellir því á færibandið! Ekki gefa honum annan séns! Ekki gefa honum annan séns! Ekki gefa honum annan séns! er það eina sem fer í gegnum kollinn á mér. Hann er fyrir löngu búinn að sanna það að hans hæfileikar liggja í þvía að ýta, ekki færa hluti frá einum stað á annann. Mæðgurnar gefast sem betur fer upp á snillingnum og ákveða að taka málin í sínar hendur. Taka vörurnar sjálfar úr körfunni og leggja á færibandið. Það er bara eitt sem er örlítið að trufla mig þar sem ég byrja að renna vörunum í gegnum skannann. Hlaupið er enn á færibandinu og móðir drengsins gerir enga tilraun til þess að viðurkenna tilvist þess eða veru þar nema með þeim hætti að raða vörunum snyrtilega í kringum það. Þarna liggur það, rennblaut af munnvatni Einsteins og það sem verra er þá er munnvatnið farið að leka niður á færibandið og pollur búinn að myndast í kringum það.
Vörunum renni ég samviskusamlega í gegn og reyni eftir besta móti að ná ekki augnsambandi við þær mæðgur. Hlaupið er samt þarna ennþá og þær sýna enga tilburði til þess að ætla að losa mig við það. Vörurnar komnar í poka og enn er hlaupið þarna. Ætla þær í alvörunni að fara án þess að losa mig við þetta? Kannski er góð ástæða fyrir því að drengurinn er þvílík mannvitsbrekka? Loks þegar ég hef gefið upp alla von og sé fram á það að viðbjóðurinn verði minn að þrífa tekur mamma Curie af skarið og fjarlægir hlaupið, eftir stendur pollurinn og skítugur putti mömmunar sem bendir á hann og spyr: "Áttu nokkuð svona sprey?" Ég sagðist redda því, þakkaði þeim kærlega fyrir komuna og bað þær vel að lifa. Verður þess valdandi að undrunarsvipurinn fer að festast á mér ef ég þarf alltaf að eiga í höggi við svona einstaklinga þegar ég slysast í vinnuna.
Spurning dagsins: Hver er andstæða stóls?
No comments:
Post a Comment