April 14, 2004

Gleði og gaman

Gekk framhjá skrifstofu í gær þar sem á stóð: "Málflutningar og fasteignasala." Mér finnst rökrétt að bæta við sig fasteignaviðskiptum ef maður stendur á annað borð í flutningum.

Hvað erum við að flytja?!! MÁL!!!
Hvað erum við að selja?!! FASTEIGNIR!!!

Svona er gott viðskiptavit. Ég hefði klúðrað þessu. Ég hefði stofnað fyrirtækið: "tobbalicious: Málsala og fasteignaflutningar." Fyrirtæki sem sérhæfði sig í sölu á póstulínsmálum og flutningum fasteigna. Flytur fasteign og færð bolla í kaupbæti. Það er ástæða fyrir þvþi að ég fór ekki í viðskiptanám. Mér tækist örugglega ekki að selja augasteinana eða lifrina úr mér á svörtum markaði. Kann bara ekki þessa list sem það er að selja hluti. Tekst samt alltaf að kaupa eitthvað sem ég hef engin not fyrir.

Velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara í mál við Bylgjuna? Fyrir ranga auglýsingu og svikin loforð. Málið er að það rúlla auglýsingar hjá þeim á 2mín fresti þar sem þeir lofa "aðeins það sem þú vilt heyra" og "Bestu lög allra tíma!" Ég hef ekki áhuga á að heyra 1/26 af þessum lögum sem þeir spila og þetta í sambandi við bestu lög allra tíma...... hmmmm?..... It's raining men????.... Enrico Iglesias???.... danska júróvisjónlagið???...
Ég leyfi mér að efast.

Þetta gerir bara svo lítið úr mér líka fyrir framan viðskiptavinina. Er að afgreiða á kassanum og allt í einu glymur um alla búð: "Bara! Það! Sem! Þú! Vilt! Heyra!!!!!" Kylie Minogue nýbúin að flytja Lucky in Love. Ég eldrauður í framan og horfi afsakandi á viðskiptavininn.

"Mig langaði ekkert að heyra þetta lag"
"Ha?"
"Mig langaði ekkert að heyra þetta lag sem þeir voru að spila. Hef aldrei fílað Kylie. Ekki einu sinni nýja dótið frá henni. Þó svo hún hafi átt góða spretti í nágrönnum þá hef ég aldrei náð að tengja mig við hana sem söngkonu. Fín stelpa samt örugglega? Vil bara ekki að bylgjan sé að alhæfa svona um mig."
"Um... eh?... hvað ertu að tala?"
"Það sem þau voru að segja, sko!"
"Hvað?"
"Bara það sem þú vilt heyra! AS IF!! Ég meina.... sko ókei!.... það dettur náttúrulega inn eitt og eitt lag með abba sem maður raular með. En það er bara svo mikil gleði í abba, fattarðu mig? Maður stenst eiginlega ekki kraftinn sem þau bera með sér."
"Nú misstirðu mig alveg... hvað kemur abba þessu máli við? Af hverju skiptirðu bara ekki um stöð? Ef þetta fer svona í taugarnar á þér."
"Nei... ég get það ekkert! Fyrirtækið segir að það eigi að vera á bylgjunni! Ég verð kannski bara rekinn eða eitthvað?"
"Rekinn fyrir að skipta um útvarpstöð? Ertu nú viss um...."
"USSSSSS!! Ekki svona hátt. Veggirnir hafa eyru, ef þú veist hvað ég meina?"
"Veggirnir hafa eyru?!"
"Já! Brostu í myndavélina og vinkaðu. Allir vinir hérna inni. Engin vandræði. Erum við ekki vinir? Viðskiptavinir? Bara gott spjall á milli félaga. Ha? Viðskiptafélagar jafnvel? Kom onn maður! Ekki láta mig líta illa út. Ég skal.... ég skal borga þér þúsund kall ef þetta fer ekki lengra."
"Þú þarft ekkert að borga mér neitt. Ég þarf að koma mér. Takk fyrir."
"Hey! Láttu ekki svona. Tvö þúsund. Ég vil ekki missa vinnuna. Komdu aftur! Tvö þúsund og ég skal endurgreiða þér pokann!"

No comments:

Post a Comment