Tileygðsla
Held að samferðamenn mínir í strætó séu að fríka út á mér. Og það er eiginlega ekki hægt að segja að það sé mér að kenna, nema að litlu leyti. Ég fæddist svona (fiðlur plís). Ég er nefnilega svolítið tileygður. Þegar ég meina svolítið þá meina ég eiginlega dálítið. Þetta veldur því samt þar sem ég í einhverfu minni vel mér alltaf sæti vinstra megin(hægra megin séð frá inngangi)að þegar ég í svefnmóki stari út um gluggann og spái í því hvar ég sé, af hverju ég sé þar og af hverju ég sjái ekki neitt, að tileygða augað starir nær dauða en lífi beint á þá sem koma inn í vagninn.
Fyrir mig er þetta ekkert vandamál, ég sé hvort eð er ekkert þá sem koma inn. Vita gagnslaust þetta blessaða hægra auga en læknirinn segir það efla sjálfstraust þess og auka batalíkur ef það sé með styrktargler líkt og það vinstra. Ég get samt trúað því að það sé nokkuð óþægilegt að ganga inn í strætó og mæta "Auga dauðans!!!" Þetta er líka vandamál þegar þau svo skríða inn ganginn, ég kannski lít upp og horfi til þeirra sem verður þess valdandi að gaurinn sem situr einni röð fyrir framan hinu megin við ganginn kippist við og heimtar útskýringar af hverju ég sé alltaf að stara á hann.
Fátt um svör klukkan átta að morgni. Of þreyttur. Nema einu sinni þegar ég kastaði í hann stíru og sagði honum að hún hefði verið úr Elvis. Ég hefði keypt hana á e-bay.
Einu sinni eða tvisvar hefur þetta kostað mig rifrildi á börum borgarinnar. Alltaf frá stúlkum sem saka mig um að vera pervert.
"Gætirðu hætt að stara á mig?!"
"Ha, ég var ekkert að því. Ég get svo svarið það."
"Þú ert víst búinn að vera að því. Svana vinkona sá það líka. Hvað varstu að gera? Afklæða mig með augunum kannski? Getur ekki náð þér í stelpu að því að þú ert svo mikill pervert! Pervert! Hey!, allir að horfa á pervertinn!"
"Hættu þessu! Ég var ekkert að horfa á þig! Ég skal kaupa handa þér bjór ef þú hættir þessu."
"Bjór!, puh! Mig langar ekkert í bjór. Áttu smokka?"
"Hvað meinarðu smokka?"
"Smokka! S.M.O.K.K.A. Ertu kannski orðinn heyrnarlaus að því þú fróar þér svo mikið?"
"Ha, nei! Ég fróa mér sko ekki rassgat! Svo á ég enga smokka."
"Vissi það! Átt ekki smokka að því þú nærð þér aldrei í stelpu! Allt of mikið ógeð til þess, verður að fara á dimma bari og glápa á þær!"
"Ég geri það ekki neitt! Hættu þessu. Hvað gerði ég þér eiginlega?"
"Ekki neitt. Ég var bara að grínast."
"Grínast?"
"Já, sérðu strákinn þarna úti í horni?"
"Uhhhh... já. Er þetta Völundur?"
"Já, hann lofaði að splæsa á mig bjór og borga mér fimmþúsundkall fyrir að horfa á hann í sturtu ef ég gerði þetta. Er ekki allt í góðu bara? Vinir?"
No comments:
Post a Comment