January 28, 2004

Ákveðnir hlutir

Hey kids! Kominn úr búðinni svo ég hef nóg að segja. Kannski ekki neitt af viti en það hefur svo sem ekki stoppað mig fyrr. Nema einu sinni... en það hafði með hungruð börn að gera svo við förum ekki út í það núna.

Þegar maður er að vinna á kassa í matvörubúð verður maður svolítið var við það að fólk lítur í átt til mín með vorkunnarsvip á sér. Svona ungur og fallegur maður fastur í kvöldvinnu og virðist ekki ætla að rætast úr honum. Þess vegna verður maður stundum að passa sig á því hvað maður segir við kúnnanna því ýmislegt leggst á sál þeirra. Þannig var mál með vexti að ung kona var að eiga við mig viðskipti og þannig vildi til að hana langaði að losna við eitthvað að því klinki sem hún var með í buddunni. Ha! ha! ha! Klink í buddunni maður. Djöfull er ég með sóðalegar hugsanir núna! Gleymum því örlitla stund og grípum inn í atburði kvöldsins þar sem hár og karlmannlegur tobbalicious tekur við klinki frá léttklæddu drósinni sem hefur afklætt hann með augunum allan tímann sem hún hefur verið í búðinni. Stúlkan réttir fram einn fimmkallinn í viðbót:

-"Fyrirgefðu mér. Ég þarf bara að losna við þetta."
-"Þetta er allt í lagi, ég er ekki að fara neitt."

Vandræðaleg þögn fyllti búðina. Stúlkan vissi ekki hvert hún ætti að horfa. Sú sorglega sjón sem tók við peningunum og víst var að yrði þar bakvið búðarkassann alla ævi starði daufum augum á móti ekki-augnaráði stúlkunnar. Þau skiptust ekki á fleiri orðum það kvöldið. Viðskiptum þeirra var lokið.

Var reyndar að spá í það að nefna það við hana að ég væri í háskólanum. En hún hefði aldrei trúað mér. Bara klappað mér á kinn og hvíslað að mér á hughreystandi hátt: "Auðvitað ertu í Háskólanum, vinur."

Komst þó fljótt yfir þetta. Stuttu seinna komu svo inn tveir drengir. Djöfull vissi ég það að það yrðu einhver leiðindi með þá tvo. Sá það nefnilega að þeir voru algjörir hálfvitar. Gat heyrt í þeim þar sem þeir flökkuðu um búðina og töluðu um mikilvægi þeirra hjá fyrirtækinu sem þeir vinna hjá. Komu svo að kassanum og í röðinni mátti heyra til annars þeirra segja: "Svo! Ætla ég að vera ógeðslega leiðinlegi viðskiptavinurinn sem lætur taka til baka hluti sem hann ætlar að versla." Hafði ekki hjartað í mér að segja honum að hann væri það. Kom svo ekki í ljós að fíflið átti ekki fyrir því sem hann ætlaði að kaupa og þurfti að láta taka vörur frá. Kræst!

Jæja. Hættur. Þarf að pakka tölvunni aftur í kassa til að senda í ferðalag. Útskýri það kannski einhvern daginn hvers vegna ég þurfti að taka hana upp. Ha ha ha. Ef ég held íbúðinni það er að segja.

No comments:

Post a Comment