October 27, 2004

Slefandi



Nördapör. Það er eitthvað svo sætt og æðislegt við þau. Þau geta talað við hvort annað en einungis ef þau sjá engan nálægt sér. Tók eftir þessu í gær. Það kom eitt svoleiðis inn í búðina. Held það sé einhver spilasalur þarna nálægt.. það er hreint ótrúlegt hversu mikið af þessu liði slæðist inn í búðina til þess að versla sér súperdós og möndlupoka. En þá spyr kannski einhver, "hvernig veistu að þetta er nördapar?" Auðvelt. Bara að bjóða góðan dag. Klikkar ekki að þegar ég býð þessum pörum góðan dag þá missir strákurinn í sambandinu eitt skref úr og er næstum því dottinn. Það fær svo mikið á þá að þurfa að takast á við ókunnuga. Þeir verða líka svo sárir, ganga um alla búð og líta á þig með særðan svip á sér. Greyin.

Þegar þeir eru síðan komnir í hvarf bakvið hillurnar heyrir maður loks í þeim. Yfirleitt samsæriskenningar um stjórnvöld og tölvuleiki. Tölvuleikjastjórnvöld jafnvel. Maður verður samt að dáðst að þeim því þeim tekst að finna sér stelpur. Ekki mér. Og ég sem hef alltaf litið á mig sem svona kúl nörd. En nóg um það. Eitt það besta við þessi pör er samt þegar maður fer að stússast eitthvað í kringum þau. Þögn. Algjör þögn. Örlítið starað á gólfið. En samt mest þögn því þau eru að bíða eftir því að halda áfram. Sagan er föst í hálsinum og á svo erfitt með að koma sér út með þriðja aðila nálægt. Ef vel tekst til getur þetta jafnvel orsakað hiksta. Samt eru þetta ekki einu sinni spennandi sögur um kynferðislega spennu milli karaktera í Doom eða naktar dansandi flugfreyjur (komum að þeim seinna) heldur eitthvað ómerkilegt eins og það hvort Mick Hucknall liti á sér hárið eða ekki.

Á kassanum sjá svo kærusturnar algjörlega um öll samskipti. Í verstu tilvikunum þurfa þær jafnvel að ná í veski kærastanna í vasann, borga og skila veskinu á réttan stað. Sem kemur svo sem ekkert mikið á óvart því margir þessara manna eru óhæfir í því að reima skóna sína. Þetta eru samt einu skiptin sem ég sé menn svitna á efri vörinni. Hélt það væri bara til í sjónvarpinu en það virðist einnig eiga sér stað í raunveruleikanum. Ég held ég ætti að finna mér einn svona strák.. mann langar bara svo til þess að halda þeim og veita þeim skjól frá hörðum heimi.

No comments:

Post a Comment