October 20, 2004

Íslendingur_Útlendingur

Fór í bæinn síðasta laugardag. Sem væri ekki.... nema. Var á 11 með svíanum og við setjumst niður með bjór og byrjum að tala saman á ensku. Einhverjir þrír einstaklingar sem eru þar inni heyra í okkur og spyrja hvort þau megi ekki setjast hjá okkur. Allt í lagi, segjum við, getur ekki verið hættulegt. Svo erum við eitthvað að tala við þau og umræðurnar eru búnar að standa í einhverjar mínútur þegar ég heyri allt í einu gaurinn við hliðina á mér segja við félaga sína: "Þessi þarna (bendir á svíið) er útlendingur en þessi hérna (bendir á blindan) er bara asnalegur Íslendingur." Þar með var ekki meira talað við mig. Enda ekkert spennandi við asnalegan Íslending.

Fórum svo yfir á Ölstofið. Þar hittum við þrjá nýja einstaklinga. Svíinn verður strax allra hugljúfi og talar við allt og alla. Senan sem blasti við mér var þessi: mér á hægri hönd sat stúlka með bakið í mig og talaði við svíið. Mér á vinstri hönd sat stúlka með bakið í mig og talaði við kærastann. Saman meinuðu þessi tvö bök mér aðgang að borðinu. Ég reyndi að vera voðalega almennilegur og tala um daginn og veginn en það endaði bara með því að það var starað á mig. Ef ég vildi tala við svíið þurftu þær samræður að fara fram yfir öxlina á stúlkunni. Ég ákvað að ég myndi skemmta mér betur einn heima sofandi.

Held ég þurfi á hjálp atferlisþjálfa að halda?

No comments:

Post a Comment