December 4, 2003

Ekkert betra að gera

Fyrirlesturinn búinn. Hvílík gleði. ólé éle óleé! Var það heppinn að síminn minn hrindi um það leiti sem ég var að byrja á honum. Ákvað að svara í hann og labbaði út úr stofunni talandi í símann. Fór svo ekkert aftur inn í stofuna. Fagnaði með því að komast að því hvað skammrif þýðir á mannamáli. Það er framhluti kindaskrokks.

Jólagjafahugmynd númer 1: Komdu pakkanum sem þú ætlar að gefa ömmu þinni í framhluta kindaskrokks. Á aðfangadag réttir þú svo gömlu konunni kindaskrokkinn, vertu viss um það að hún sjái ekki pakkann innan í skrokknum, með orðunum: "Það fylgir böggull skammrifi! Ha! ha! ha! ha!"

Hversu skemmtileg væru jólin ef allir hugsuðu svona í stað þess að æða í ikea og horfa á allt fallega ósamsetta dótið sem maður hefur ekki efni á. Nema sprittkertin. Það er líka það eina sem kemur samsett frá ikea og kostar langminnst! Hvað er málið með það? Ég ætlast til þess að allt það dót sem ég kaupi í ikea sé ósamsett. Togið helvítis kveikinn úr og takið kertið úr álbakkanum. Þannig á að selja það í ikea. Ef ég er að leita eftir einhverri lúxusvöru, eins og samsettum kertum, færi ég nú bara beinustu leið í húsasmiðjuna, eða eitthvað. Hugga mig þó við það að ef ég eignast einhvern tímann japanskan krakka. Það gæti alveg einn fallið af himnum! Las um það í Magasín! EN alla vegna ef ég eignast einhvern tímann japanskan krakka get ég skírt hann iikea og hangið svo í ikea þangað til einhver hringdi í mig og ég gæti fengið að segja: "Nei, ég er í ikea með iikea." Langsótt, kannski. Mögulegt, Hell Yeah!

Mér barst eftirfarandi fyrirspurn (eftir og fyrir???? Er það hægt?? Svari mér nú sætari menn.) á póstfangið mitt: "Er það satt, tobbalicious, að móðir þín hafi ekki gefið þér sálmabók fyrir ferminguna þína?"
Ja... það er gaman að fá þessa spurningu. Jú, það ku rétt vera að móðir mín, eða réttara sagt sú kona sem ég kalla í dag "Destroyer of childhood", gaf mér ekki sálmabók fyrir ferminguna. Ganga þurfti ég upp kirkjugólfið, athlægi fermingarfélaga minna, með gatslitna, káplausa sálmabók. Það var nú varla hægt að kalla þetta sálambók því það eina sem eftir var af henni var rétt efnisyfirlitið. Hinum blaðsíðunum hafði auðsjáanlega verið stolið af rubbaldalýð og eiturlyfjaneytendum til þess að vefja sér það sem kunnugir kalla "Jónur". Væntanlega einhver róninn sem tekið hafði kápu bókarinnar og smíðað sér örlítinn skjólvegg gegn köldum vetrarnóttum í borg óttans. Enn þann dag í dag rifja ég upp með móður minni þennann sorgaratburð úr barnæskunni.... ja... reyndar er það ekki alveg rétt.. það er meira þannig að móðir mín segir þessa sögu alltaf þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin á aðfangadag. Þá hlæjum við nú saman fjölskyldan... ha... ha..

Gott að geta svarað svona lesendum sínum. Verður öllum svona heitt í sálinni og finnst maður hafa gert góðverk. Endilega sendið mér póst. Öllu verður svarað. Nema ef ég nenni ekki að svara, þá nenni ég örugglega ekki að svara.

Jæja, farinn að læra undir ítölskupróf sem er víst á morgun.

No comments:

Post a Comment