Rokk og/eða ról, krakkar mínir.
Sko, ég hef lengi haldið því fram að konur séu geðveikar. Ekkert persónulegt. Karlar eru heimskir og konur geðveikar. Þannig er lífið. Ég er samt ekkert að fara að skrifa um konur neitt sérstaklega. Meira um hvað ég er alltaf að læra eitthvað nýtt í samskiptum mínum við annað fólk. Um daginn skrifaði ég eitthvað um það að allt í einu væru fleiri tugir manna farnir að heilsa mér úti á götu án þess að ég hefði hugmynd um hver einstaklingurinn sem heilsaði mér væri.
Nú aftur á móti er fólk ekki að heilsa mér, heldur gengur leikur þeirra út á það að koma upp að mér og pota í bringuna á mér og segja hátt og snjallt, "Búpp!." Hvað er málið? Það er ekki laust við að ég sé farinn að gruna fólk um samsæri. Það á að brjóta mig niður með fáránlegum atvikum, ég er fastur í einhvers konar tilraun hjá heimspekideild hí. "Við skulum athuga hversu lengi fíflið heldur út! Mér sýnist sem svo að skaðinn verði ekki mikill þó viðfangsefnið brotni saman." Vissi það alltaf að ég væri sérstakur, bara ekki alveg á þennann hátt.
Jólaundirbúningurinn er kominn hjá mér. Tvö jólakort skrifuð. Mamma lét mig hafa kortin og sagði mér að skrifa þau. Jó kom svo í heimsókn og sá til þess að ég skrifaði þau, leitaði uppi rétt heimilisföng og kæmi kortunum í umslög. Nú er bara erfiði hlutinn eftir, það að koma kvikindunum út á pósthús. Gæti reynst þrautinni þyngri þar sem ég þarf að koma mér út úr húsi með kortin í höndunum. Ég er strákur og bý einn svo svoleiðis hlutir vefjast alveg rosalega fyrir mér. Það er ekki tekið út með sældinni að vera ég.
Talandi um fáranlega hluti þá gerir maður skrítnustu hluti þegar maður er lokaður inni í íbúðinni 22 tíma á dag. Rakaði mig nebbnilega um daginn og áður en ég vissi af var ég "óvart" búinn að raka hárin af tattúinu á maganum. Af hverju? Hef ekki minnstu freaking hugmynd um það. Einn af þessum prófgeðveikishlutum sem gerast bara. Nú stari ég á sköllóttann magann á mér og spyr sjálfan mig, "hvað í fokkinu varstu að hugsa!!!?" Djöfull sé ég eftir þessu í dag. Sérstaklega því ég er kominn með brodda núna. Það er þá ákveðið að ég legg ekki í módelstörf. Ekki ef ég þarf að vera nauðasköllóttur á öllum líkamanum. Það er eitthvað alvarlega rangt við það. Ég er þessi seventies klámstjarna, fullkomlega sáttur við það að vera kafloðinn.
Rólegt laugardagskvöld þó svo að ég kíki örlítið út á eftir. Alþjóðasamfélagið hefur beðið mig um að heiðra einhverja samkundu hjá þeim með nærveru minni. Væntanlega eignast ég þá sjötíu vini í viðbót sem allir vilja drekka með mér kaffi. Veit ekki hvað þetta lið sér við mig, ég hef verið að tala við sjálfan mig hérna heima svolítið og mér finnst ég ekkert skemmtilegur. Eiginlega bara hundleiðinlegur og hef ákveðið að slíta vinskapnum við sjálfan mig. Þar hafið þið það.
No comments:
Post a Comment