December 9, 2003

Everything about me is so easy to love

Jæja krakkar! Er ekki komið af því að maður komi hugleiðingum sínum hér inn á "alnetið"? Er aftur farinn að hugsa um nöfn á börnum. Kærastan ófrísk og svona. Mér er farið að lítast sérlega vel á Spandó Ballet. HEY! ef einhver má gera barninu sínu það að skíra hann Breka Friðmar, af hverju ekki Spandó Ballet??? "Maturinn er til Spandó minn!" Sé ekki betur en þetta gangi nokkurn veginn upp? Er engin íslenskufræðari en sé fyrir mér beyginguna einhvern veginn svona: Spandó Ballet, Spandó Ballet, Spandói Balleti, Spandós Ballets. En i, s og t væru auðvitað ekki borin fram. Andskotinn að ég skuli ekki vera í mannanafnanefnd. aaaadeffmnnnnnn, ef einhver myndi fá þessa stafi í Skrabbli þá er núna engin afsökun fyrir því að sjá ekki út orðið.

Annars er maður á fullu klæddur í gamla íþróttagallann úr mr að læra. Ekki búinn að greiða mér í marga daga og ekkert meik í andlitið. Þannig tel ég mig hafa forskot á aðra í prófinu. Það sjá allir hvað ég er búinn að vera ógesslega duglegur að læra.
"Sjáiði tobbalicious!? Enginn varalitur! Enginn maskari! Hvað er maðurinn eiginlega búinn að læra mikið? Eru engin takmörk fyrir hungrinu í þekkingu hjá honum? Honum er greinilega sama um útlitið, menntun framar maskara! Komum krakkar, skráum okkur úr prófinu. Við eigum ekki skilið að taka þátt í sama prófi og svona ofurmenni."

tobbalicious á leiðinni í próf.

Kemur mér alltaf jafn mikið á óvart. Samt veit maður af þessu en heldur í vonina að hlutirnir hafi breyst. Góðærið kannski barið vit í mannskapinn. En ég veit, þetta eru bara dagdraumar og eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Leyfið mér samt að halda í draumana! Það eru þeir sem gera lífið þess virði að lifa. He he.

Sem minnir mig á fíflin sem sátu við hliðin á mér á kaffistofunni á Þjodarbokhladan* í gær. Veit ekki hvað það er... sem hvetur fólk sem lítur svo sem út fyrir það að vera eðlilegt að haga sér eins og fífl? Algjörlega týndir í þeirri hugsun að þeir séu "háskólaborgarar" og taki svo rosalega alvarlega þá hugsun að það fyrsta sem þeir væntanlega gera á hverjum morgni er að troða upp í rassgatið á sér 10 cm priki til þess að hafa allann líkamann og þá sérstakleg hálsinn vel stífann og andlitið vísi akkúrat 12° upp til himna, ef svo færi að Egill-feiti labbaði framhjá og tæki eftir því að þeir hefðu rétta útlitið til að koma í þáttinn. Allt í lagi ef það væri eina vandamálið. Þá væri ég fullkomlega sáttur. Aðal vandamálið er það að þetta fólk á voðalega erfitt með það að halda kjafti. Halda kjafti kannski svolítið djúpt svo við skulum frekar segja að það eigi voðalega erfitt að opna ekki munninn.

Hvað vellur síðan út úr þessu? Hámenntaðarumhverfisvænarogpólitísktkórréttarpóstmódernískarspekúlasjónirumguðmávitahvaðíandskotanum. EN! Samt ekki guð því við trúum á aðskilnað ríkis og kirku. Þar sem ég sat á þjodarbokhladan* heyri ég út undan mér "Ja, þetta er nú bara barnaleg hugsun hjá þér!" Ehhhhhh!!??, hugsaði ég með mér, hvað nú? Hvað annað gat það verið heldur en brotist hafi út orusta a la Silfur Egils milli tveggja vina á næsta borði. "Það er ekki hægt að leggja á okkur sem að hugsum ekki þannig þessa blekkingu! Barnaleg hugsun af þeirra hálfu og móðgandi!" Hvernig gæti mannvitsbrekkan við hliðina mögulega svarað þessu??? "Ja, þetta er nú bara barnaleg hugsun hjá þér!" Nú hefði verið þörf fyrir Egil-feita. Fimm mínútur liðu og sú mikla mennta- og þekkingarorusta sem drengirnir háðu var nákvæmlega svona: "Barnalegt af þér!" + "Barnalegt af þeim!" + "Leyfðu mér að tala!" + "Nei, leyf þú mér að tala!"

Þegar ég er orðinn alráður verður þetta vandamál ekki til staðar. Kill'em all, I say!

No comments:

Post a Comment