Miðakaupamadness
Stundum hatar internetið mig. Eins og í gær þegar ég ætlaði í mesta sakleysi að kaupa mér flugmiða frá borginni Kakkljarí á Sardínu til Mílaaaaaan í Evrópu. Þar sem ég á skjólstæðing (já, ég Á hann! Hann er minn og það tekur hann enginn frá mér!) sem er ákveðinn í því að ég skuli koma og heimsækja hann um áramótin. Það er ekki bara hann sem er ákveðinn í því heldur fjölskylda hans og allir vinir. Hóta mér reglulega með líkamsmeiðingum ef ég kem ekki. Þau hafa mafíuna á bakvið sig... ég hef Baug eða Samson. Þætti það í hæsta máta ósmekklegt ef íslensku "stórveldin" gerðu yfirtökutilboð í mafíuna.. þeir gætu það nebblega alveg.
Svo ég er að skoða síðu sem selur miða til Mílaaaan og finn þetta líka ódýra flug og ekki kostaði miðinn minna.... had you going there, didn´t I? Olræt (tékkaðu á orðabók menningarsjóðs), segi ég við sjálfan mig með sérlegan aðstoðarmann minn í miðakaupum, Völund, mér við hlið. "Hlutirnir eru að gerast! Margmiðlunin að skila sér í hús." Æstur, æstur... nei ekki svona æstur tobbalicious!... þú ert með vin í heimsókn og hvorki staður né stund fyrir svona hugsanir! Svo örlítið rólegri skima ég yfir síðuna og finn enska fánann til þess að þurfa ekki að eiga í margmiðlunarviðskiptum á skítlensku. UNDER CONSTRUCTION.
Ekkert mál... ég er nú að læra þessa skítlensku svo það ætti að vera barnaleikur að spila sig í gengum þetta. Kýlum á það. Fljúga frá: Kakkljarí. Fljúga til: Mílaaaaan. Hversu margir: 1. Hvenær: 30.des. Allt að virka. Næsta síða. Titill: SIG. Nafn: Thorvaldur. Eftirnafn: Konradsson. Gluggi eða gangur: Gluggi. Áfram: áfram. Næsta síða: Athugið að þér megið einungis nota stafi úr stafrófinu í nafni yðar. What ze fök!? Svo ég þarf að henda mér til baka til þess að finna hvar í orðinu, Thorvaldur, væri að finna staf sem ekki tilheyrði stafrófinu. Var og er nokkuð viss um það að ég hefði ekki búið til neinn nýjan staf, en hvenær getur maður verið viss? Svo ég náði í gamla stafrófspúsluspilið mitt niður í geymslu og renndi yfir hvern einasta staf til að finna villuna. Villuna fann ég ekki svo ég ákvað að halda bara áfram að skrifa nafnið mitt aftur og aftur og vona að einhvern veginn myndi síðan gefast upp og hleypa mér í gegn.
Þar sem við vorum nú tveir í því að reyna að redda þessu datt okkur ýmislegt í hug. Svo eftir um það bil 20 tilraunir með nafnið eins og það var skrifað fyrst, ákváðum við að prófa fyrst hástafi og svo lágstafi. Það var þá sem við komust að því að samkvæmt skítalskri skilgreiningu er thorvaldur stafrófslega rétt útfærsla á nafni mínu.
Þannig að nú er komið að erfiða hlutanum. Setja inn helvítis visanúmerið og krosselggja fingur, vona það að maður hitti á töfrastund og því þurfi ekki að leita eftir heimild. Þurfti nú ekki að hafa áhyggjur af því. Eftir að hafa fyllt inn allar upplýsingar um kortið, heimilisfang og hjúskaparstöðu var ekkert eftir nema að ýta á takkann sem á stóð: Kaupa miða. Með, að ég taldi, aðra höndina á miðanum og risa glott yfir að hafa sigrað í þessu þrátefli sem staðið hafði í á aðra klukkustund ýtti ég á takkann og beið staðfestingar. Windows fáninn dansaði fyrir mig í hægra horninu og ég hugsaði með mér: "Nú eru hlutirnir aldeilis að gerast félagar!" Næsta síða blasti svo við mér......... glottið horfið af andlitinu og undrunarsvipur kominn í staðinn. Mér var tjáð það á mjög kurteisan hátt að aðgerð mín hafi tekið of langan tíma. Gæti ég vinsamlegast farið aftur á byrjunarreit og endurtekið leikinn.
No comments:
Post a Comment